Hulda Bryndís Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 22. nóvember 1936. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 12. mars 2025.

Hún var dóttir Vilhelmínu Hólmfríðar Vilhjálmsdóttur frá Vogsósum í Ölfusi, f. 21. janúar 1912, d. 5. ágúst 1992, og Sigurðar Finnbjörnssonar frá Ísafirði, f. 23. ágúst 1907, d. 20. nóvember 1995.

Systkini: Elísabet Guðný, f. 1934, gift Jack Ferguson, Guðríður, f. 1935, gift Richard M. Wilson, Hermann Sigurður, f. 1942, kvæntur Evelyn Sigurðsson, Margrét f. 1947, gift Erni heitnum Ásmundssyni, Edda Hólmfríður, f. 1949, og María, f. 1954, gift Ríkarði Sigfússyni.

Eiginmaður Huldu er Jón Guðmundsson, f. 1935, múrarameistari, sonur Guðmundar Jóhanns Jónssonar og Guðbjargar Rannveigar Jóhannesdóttur.

Börn þeirra eru: 1) Guðbjörg Rannveig, f. 1955, gift Óskari H. Valtýssyni, f. 1952. Þeirra börn a) Helena Rós, f. 1979, gift Bjarna Ingimarssyni, dætur: Aníta Rós, Lilja Rós og Embla Rós. b) Jón Brynjar, f. 1984, c) Hulda Bryndís, f. 1990, gift Adrian P. Brachmann. Þeirra börn Auðunn Þór, f. 2018, og Urður Ylfa, f. 2023. Áður átti Óskar börnin Magnús og Berglindi. 2) Guðmundur Jóhann, f. 1959, kvæntur Þórhildi Hrönn Ingólfsdóttir, f. 1960. Þeirra börn: a) Katrín Ósk, f. 1978, gift Jónasi Tryggvasyni, f. 1978. Börn: Heiðdís Hrönn, f. 2007, Tryggvi Jóhann, f. 2009 og Ingibjörg Anna, f. 2018. Áður átti Jónas Guðnýju Ósk, f. 1998. b) Jón, f. 1987, kvæntur Rögnu Ólafsdóttur, f. 1989. Þeirra synir: Guðmundur Jóel og Sólberg Elí, f. 2014, og Dagur Óli, f. 2021. 3) Hulda Bryndís, f. 1966, eiginmaður Haukur Viðar Hauksson, f. 1966 (þau skildu). Þeirra börn: a) Arnar, f. 1988, kvæntur Aliciu Moore, þeirra barn er: Emelia Rós, f. 2018, og b) Elísabet Ester, f. 1991, hennar börn: Alexandria Rós, f. 2011, og Benjamin, f. 2018. Núverandi eiginmaður Huldu er Dean Courser, þeirra sonur: Albert, f. 1999. Þau eru búsett í Seattle í Bandaríkjunum.

Sem barn bjó Hulda í Efstasundi. Hulda og Jón gengu í hjónaband árið 1955. Fyrstu hjúskaparárin bjuggu þau í íbúð á heimili foreldra Jóns á Reynimel 53. Árið 1963 fluttu þau í eigið húsnæði við Álfhólsveg í Kópavogi. Þar bjuggu þau til ársins 1981 en þá fluttu þau til Seattle í Bandaríkjunum. Jón starfaði þar fyrst við múrverk en fljótlega stofnuðu þau hjónin fyrirtækið Ice-Am plastering og ráku það þar til þau fluttu að nýju til Íslands árið 2004. Þá keyptu þau sér íbúð á Barðastöðum 7 í Grafarvogi.

Hulda starfaði um skeið sem fiskvinnslukona en lengst af ævinnar var hún húsmóðir. Hún saumaði föt á börnin sín og aðra. Þá saumaði hún út og eftir hana liggja útsaumuð sófasett og stólar. Á síðari árum prjónaði hún ógrynni af fatnaði, kápur, sjöl, rúmteppi o.fl. Henni féll í raun aldrei verk úr hendi en síðustu árin var beinþynning og önnur veikindi farin að þjaka hana svo að hún varð að alla leggja handavinnu á hilluna.

Útför fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 26. mars 2025, klukkan 13. Streymt er frá útför: https://www.mbl.is/go/jvfqi

Elsku mamma mín, þá er komið að leiðarlokum. Síðustu fjögur árin voru þér erfið en pabbi hugsaði vel um þig heima eða þar til þú veiktist í haust og lést síðan í svefni á Hrafnistu í Hafnarfirði eftir stutta veru þar.

Hún mamma var ákveðin kona og mikið hörkutól. Pabbi vann mikið svo mamma fór ein með okkur systkinin í tjaldferðir vítt og breitt um landið. Hún var mikil húsmóðir, eldaði veislumat og bakaði gómsætar tertur. Fyrstu hjúskaparárin bjuggu mamma og pabbi í kjallaranum hjá ömmu og afa á Reynimel. Árið 1963 fluttum við í nýtt hús á Álfhólsvegi 101 í Kópavogi. Hús sem pabbi byggði. Mamma saumaði mikið á okkur. Á unglingsárunum fékk ég hugmynd að blússu, teiknaði hana á blað og sýndi henni og hún gerði sér lítið fyrir og bjó til snið og saumaði blússuna, það var fátt sem vafðist fyrir henni.

Árið 1980 fluttu mamma og pabbi til Seattle í Washington-ríki. Þau fóru með nokkrar ferðatöskur og litlu systur okkar sem var nýfermd. Þau ætluðu sér að vera í tvö til þrjú ár í mesta lagi en árin urðu hátt í tuttugu og fimm. Nokkrum árum eftir að þau komu til Seattle stofnuðu þau sitt eigið fyrirtæki, Ice-Am plastering, sem þau ráku þar til þau fluttu heim aftur.

Þær voru ófáar ferðirnar sem ég fór til þeirra með börnin mín þrjú og þá var ferðast vítt og breitt um landið og ættingjar heimsóttir. Við mæðgur ásamt elstu dóttur minni og systur keyrðum eitt árið frá Syracuse í NY-ríki þar sem elsta systir mömmu bjó og alla leið til Washington-ríkis og var ýmislegt skoðað í leiðinni. Mamma hafði sérstaklega gaman af að fara til Vancouver, þá fannst henni hún hálfvegis komin til Evrópu. Hún hafði líka óskaplega gaman af að fara til Las Vegas og kíkja aðeins í kassana.

Í heimsóknum mínum til þeirra gegnum árin fórum við mæðgur á fjölda tónleika; Tinu Turner, Rod Stewart, Joe Cocker, Celine Dion, Elton John, Anne Murray og fleiri og fleiri en allt var þetta tónlistarfólk sem við báðar höfðum hlustað mikið á í gegnum árin.

Mamma og pabbi fluttu aftur heim frá Bandaríkjunum árið 2004 og keyptu sér íbúð á Barðastöðum 7 í Grafarvogi.

Mamma hefur sjaldan setið auðum höndum. Hún var alltaf með eitthvað á prjónunum. Hún prjónaði endalaust af flíkum á alla sem vildu og rúmteppi sem þvílík vinna lá í og eftir hana liggur ekki bara eitt teppi, hún prjónaði teppi fyrir alla sem höfðu áhuga á að eignast teppi. Hún var líka í því að sauma út, hún saumaði út fjölmarga stóla og sófasett.

Elsku mamma mín, takk fyrir öll árin okkar saman, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína. Takk fyrir allar skemmtilegu ferðirnar okkar saman og alla tónleikana sem við vorum að reyna að rifja upp fyrir stuttu en þeir voru svo margir að við gátum bara ekki munað þá alla. Nú ertu kannski búin að hitta ömmu en hún var þér ofarlega í huga undir það síðasta. Þið svífið kannski saman um geiminn núna eins og amma sagðist alltaf ætla að gera þegar hennar tími kæmi.

Þín dóttir,

Guðbjörg Rannveig (Ranný).

Við fráfall móður minnar leitar hugurinn til baka og minningar úr lífinu leita upp á yfirborðið.

Mamma ólst upp í sjö systkina hópi við fremur þröngan kost. Án efa hafa uppvaxtarár hennar hert hana og gert staðráðna í að búa fjölskyldunni gott heimili og hlúa vel að sínum börnum.

Mamma var alla tíð minn skjöldur og verndari. Hún varði mig alla tíð með oddi og egg. Eins og gengur í æsku slettist af og til upp á vinskapinn hjá okkur strákunum. Í einhver skipti bankaði móðir vinar upp á og vildi að ég fengi orð í eyra eða yrði hreinlega rassskelltur. Mamma tók ekki vel á móti heimsóknum af þessu tagi en að sjálfsögðu fékk ég skammir þegar ég átti þær skilið. Æskuvinirnir fóru í sveit á sumrin. Þegar talið barst að því hvort hennar drengur ætti ef til vill að fara í sveit var því fljótsvarað. Nei, hún ætti einn dreng, hún kallaði mig gjarnan kónginn sinn og kóngar fara einfaldlega ekki frá móður sinni í sveit.

Í æsku minni fórum við oft í tjaldútilegur. Bílakosturinn var fábrotinn og átti ryk greiða leið inn í bílinn og sátum við systkinin í aftursætinu í rykmekki í bland við reyk frá sígarettum. Þetta er kómísk minning. Mamma var alla tíð ákveðin kona og lét fátt stoppa sig. Ef pabbi var bundinn í vinnu en hana langaði í útilegu pakkaði hún útilegubúnaðnum einfaldlega í skottið og á toppgrindina, setti börnin í bílinn og hélt af stað.

Mitt fyrsta starf sem unglingur var að handlanga í múrverki hjá pabba. Foreldrar mínir sáu fljótt að ég væri ekki efni í múrara. Þau hvöttu mig því óspart og studdu til náms. Til marks um stuðninginn eignuðumst við Þórhildur dóttur okkar þegar ég var á fyrsta ári í Verzló. Í mörgum fjölskyldum hefði legið beinast við að hinn nýbakaði faðir færi út á vinnumarkaðinn, aflaði tekna og axlaði skyldur sínar. Við fengum hins vegar ómetanlegan stuðning af hálfu foreldra okkar beggja. Án þess stuðnings hefði lífið trúlega orðið með allt öðrum hætti.

Þegar ég lauk stúdentsprófi árið 1981 fluttu foreldrar mínir til Seattle. Ætlun þeirra var að búa þar í fáein ár en þegar upp var staðið fluttu þau heim aftur árið 2004. Mál þróuðust þannig að ég stundaði nám við háskóla í Seattle. Á námsárunum bjuggum við Þórhildur ásamt dóttur hjá foreldrum mínum. Þetta voru góð ár, við lifðum lífinu saman, ferðuðumst víða með þeim og eigum frá þessum árum ótal góðar minningar.

Eftir heimkomu mömmu og pabba ákváðum við að reisa saman sumarbústað í Öndverðarnesi. Framkvæmdir hófust árið 2006 og lukum við verkinu ári síðar. Í tæpa tvo áratugi höfum við átt yndislegar samverustundir þar saman. Mamma var alltaf sjálfri sér samkvæm, sífellt að velta helgarmatseðlinum fyrir sér. Á sunnudagsmorgnum bauð hún gjarnan til veislu þar sem amerískar pönnukökur með sírópi og tilheyrandi voru á boðstólum. Þá sat hún löngum stundum með prjóna í hönd og prjónaði lopapeysur, vettlinga og húfur á vini og vandamenn. Mömmu féll einfaldlega ekki verk úr hendi.

Kærar þakkir fyrir samfylgdina, alla þína ást og stuðning mamma mín.

Þinn sonur,

Guðmundur (kóngurinn).

Elsku amma, nú skilur leiðir að sinni.

Þú hefur alla tíð verið stór hluti af lífi mínu og við brallað margt enda oft verið sagt að við séum líkar.

Ég á minningarbrot frá því að ég var 3 ára og þú hittir mig, mömmu og pabba á flugvellinum í New York. Við tvær héldum áfram til Seattle þar sem ég var í pössun hjá ykkur afa meðan þau voru í útskriftarferð. Þú talaðir oft um að ég hefði hlaupið fram og til baka eftir flugvélarganginum alla ferðina og að þessi ferð okkar hefði verið upphafið að flugfreyjuferli mínum.

Ári síðar fluttum við til ykkar og bjuggum hjá ykkur í þrjú ár á meðan pabbi gekk í háskólann í Seattle. Þær eru dýrmætar minningarnar frá þessum tíma. Þú í mína óþökk að laumast til að keyra á eftir skólabílnum til að gæta að því hvort ég væri ekki með allt á hreinu og kæmist vandræðalaust í skólann. Ég man líka enn eftir miðanum sem þú settir í vasann á smekkbuxunum mínum þar sem stóð á ensku „can I go to the toilet“ en þarna var ég ekki komin með enskuna á hreint. Ferðirnar í Family Fitness þar sem við fórum í sund en þú kenndir mér að synda þegar ég var fimm ára.

Þær voru síðan ófáar heimsóknirnar til ykkar afa þann tíma sem þið bjugguð í Seattle, hvort sem ég var ein á ferð eða öll fjölskyldan. Ein eftirminnileg ferð er þegar ég var 8 ára og við fórum í „roadtrip“ og keyrðum niður vesturströndina og fórum í Disneyland í Kaliforníu. Eftir einhverja daga á ferðalaginu var ég búin að átta mig á því að mun betra væri að vera á hóteli með H-i en ekki móteli með M-i, ég heimtaði því hið fyrrnefnda. Afi karlinn var svo lasinn í bakinu í ferðinni að hann þurfti að leggjast á alla bekki í Disney.

Þú elskaðir að elda og baka og fjölskyldan naut góðs af því, það var allt svo ljúffengt hjá þér. Þið systurnar í USA voruð duglegar að hittast með stórfjölskyldur ykkar og halda veislur, hvort sem það var heima hjá ykkur, í garðinum hjá Diddu og Rikka eða í Portland hjá Eddu, alltaf var mikið líf og fjör. Þessar samverustundir eru ómetanlegar, því þarna kynntumst við stórfjölskyldan og bjuggum til minningar en eðlilega hittumst við lítið og mörg ekkert eftir að þið fluttuð aftur til Íslands.

Þið afi höfðuð mikið dálæti á Vancouver og fóruð oft þangað. Ég man eftir einni ferðinni þar sem farið var í Costco og þið Ranný keyptuð svo mikið jólaskraut. Það var búið að troða í öll hólf aftur í, meira að segja hjá varadekkinu þannig að við farþegarnir komumst nánast ekki í bílinn. Í þetta skipti sauð á afa og það gerist ekki oft.

Þú varst stórtæk kona í öllu, hvort sem það var í eldhúsinu, í uppsetningu á jólaskrauti eða prjónaskapnum. Það liggja eftir þig ótal prjónaverk, þú varst síprjónandi enda listakona í höndunum og miklaðir ekkert verk fyrir þér sama hversu stórt eða flókið það var. Þau voru ljúf kvöldin þegar ég og Helena komum til ykkar afa og við stelpurnar vorum að prjóna og spjalla.

Kæra amma, þú varst einstök kona og mig langar að þakka þér fyrir allt. Við tökum upp þráðinn síðar.

Ástar- og saknaðarkveðja,

þín

Katrín Ósk.

Elsku amma, takk fyrir samfylgdina.

Síðustu daga hef ég rótað í kollinum yfir því hvernig hægt er að kveðja svona fína frú eins og hún amma mín var. Umhyggjusamur dugnaðarforkur sem einstaklega gott var að heimsækja.

Þrátt fyrir að amma og afi ættu heima í órafjarlægð frá landi elds og íss einkenndist samband þeirra við okkur af nálægð og væntumþykju. Og þau sumur sem við eyddum hjá þeim úti voru full af uppákomum og ferðalögum. Amma var meistarakokkur og mikill meirihluti minninga minna er um hana að gera og græja í eldhúsinu.

Lengsti dagur ævi minnar var þegar ég í sakleysi mínu stakk upp á að við elduðum taco í kvöldmatinn. Amma taldi það nú aldeilis létt verk, en svo enduðum við á að eyða nokkrum klukkutímum í að útbúa salsa og skeljar. Það fannst gelgjunni ekki hressandi laugardagur en eftir því sem tíminn flýgur áfram verður þessi minning alltaf hlýrri og hlýrri.

Einnig var amma úrræðagóð og þegar við fórum niður á strönd og blésum upp vindsæng sem var á stærð við Surtsey datt ömmu það snjallræði í hug að tæma ekki vindsængina að degi loknum heldur skella henni upp á þakið á bílnum. Hlutverk okkar Katrínar var að halda í spottana á vindsænginni á meðan hún keyrði heim. Þann dag misstum við Katrín næstum samtals fjóra putta en vindsængin var klár í næstu strandarferð.

Eins og við flest var amma nammigrís og átti alltaf birgðir inni í skáp. Við hin höfðum ekki aðgang að þessum birgðum enda var um íslenskt nammi að ræða sem við kæmumst í þegar við vildum. En þegar maður sá hana með kúlu í munninum og falaðist eftir einni þá var alltaf sama svarið „æi, já, ég fann eina í veskinu“ og þar með var það útrætt, amma naut kúlunnar og ég ferska loftsins. Enda var hún harðákveðin kona.

Þrátt fyrir allt brasið í eldhúsinu var amma alltaf að passa línurnar og segja mér frá hinum og þessum megrunarkúrum sem sniðugt væri að prófa. Sá allra hressasti sem hún sagði mér frá var epla- og kakóbollakúrinn. Þá benti hún mér á að ég ætti nú aldeilis að prófa þessa snilld en kúrinn samanstóð af því að borða tvö epli á dag og drekka einn kakóbolla. Veit ekki hvort þessi kúr var langlífur því amma elskaði deserta. Hún tók alltaf stöðuna á borðstofuborðinu þegar hún mætti í mat til að athuga hvort það væru áhöld fyrir desert og ef það var ekki þá heyrðist í frúnni: „Er enginn desert!“

Síðustu árin hittumst við amma á þriðjudagskvöldum og prjónuðum saman enda amma algjör listakona í höndunum og liggja eftir hana falleg prjónaverk og útsaumur. Þessi kvöld voru dásamleg þar sem við prjónuðum og kjöftuðum um allt og ekkert. Þegar heilsu ömmu fór að hraka sat hún hjá mér á meðan ég prjónaði. Alltaf var stutt í hrósið og leiðbeiningar þegar á þurfti að halda.

Það er einstök gæfa að fá að njóta samfylgdar við ömmu sína í 46 ár. Hennar verður sárt saknað og þá er nú gott að geta yljað hjartanu og hlegið að ljúfum minningum um þessa harðduglegu, ákveðnu og skörpu ömmu.

Þangað til næst elsku amma mín.

Þín

Helena Rós.

Elsku Hulda systir. Ég man eftir mér sem barni 5-6 ára, þegar ég gisti á Reynó hjá ykkur Nonna og dóttur ykkar, Ranný frænku og vinkonu. Við áttum góða æsku Ranný og ég í ykkar skjóli. Ég minnist þess þegar ég hnippti í þig og spurði hvort ég mætti kalla þig mömmu, af því að mér fannst mamma okkar svo gömul, langaði að eiga unga mömmu eins og Ranný. Við fengum að fara á sundnámskeið í Vesturbæjarlauginni en Ranný frænka var pínulítið vatnshrædd en við vorum duglegar að fara í sund. Þú fórst líka með okkur í tjaldútilegu á Þingvöll. Þegar ég var sjö ára man ég eftir þegar ég fór í strætó í fyrsta sinn með Njálsgötu-Gunnarsbraut frá Laugó til ykkar á Reynó. Það var á við heimsreisu. Þú og þín fjölskylda voruð mér allt á uppvaxtarárunum. Við Ranný lögðum líka undir okkur Vesturbæinn, hún á tvíhjóli og ég á þríhjólinu hennar. Ég er þér ævinlega þakklát fyrir tímann sem þú gafst mér í faðmi fjölskyldu þinnar. Tengdaforeldrar þínir, Gugga og Guðmundur, sem deildu húsinu sínu með ykkur, voru einnig einstök. Guðmundur stýrimaður á Fossunum og við Ranný fengum alltaf útlenskt nammi. Þetta voru góðir tímar.

Þú fluttir svo með fjölskyldu þína á Álfhólsveginn, þegar Nonni hafði reist ykkur hús og börnin voru orðin tvö, Ranný og Guðmundur. Við Ranný tókum þátt við byggingarstörfin, að naglhreinsa spýtur. Álfhóllinn varð síðan skíðabrekkan okkar Rannýjar.

Þú áttir líka góðar stundir í sumarsólinni sem þú elskaðir og magnaðir upp geislana með álpappír og varðst alveg kolbrún og tókst þig glæsilega út í gula flotta sparikjólnum þínum. Þú gerðir líka fyrsta hamborgarann og heimagerðar franskar handa okkur, sem var að ryðja sér til rúms í íslensku samfélagi og við borðuðum yfir okkur. Svo fengum við að leika okkur í fínu kjólunum þínum og háhæluðu skónum þínum. Svo varst þú listakona í prjónlesi, peysur, kjólar, kápur og teppi, alger listaverk sem eftir þig liggja.

Þið fluttuð svo fjölskyldan til Bandaríkjanna 1981 og settust að í Seattle. Þá var Hulda Bryndís yngri búin að bætast við í systkinahópinn. Guðmundur og Þórhildur tengdadóttir þín ásamt Katrínu Ósk dóttur þeirra fylgdu ykkur til Seattle, en Guðmundur lauk þar háskólanámi í viðskiptafræði. Ranný hafði þá þegar eignast sitt eigið heimili á Íslandi, ásamt Óskari eiginmanni sínum og dóttur Helenu Rós. Síðar bættust svo fleiri barnabörn við í hópinn, Jón Guðmundsson, Hulda Bryndís Óskarsdóttir, Jón Brynjar Óskarsson, Arnar, Elísabet og Albert, börn Huldu Bryndísar yngri sem settist að í Bandaríkjunum.

Eftir 23 ára dvöl í Bandaríkjunum sneruð þið hjónin svo aftur til Íslands og settust að á Barðastöðum. Þú reyndist okkur mömmu vel, bauðst okkur oft í mat og við fengum að þvo þvottinn okkar heima hjá þér. Þú meira að segja hélst fermingarveisluna mína heima hjá þér á Álfhólsveginum og brúðkaupsveislu okkar Rikka.

Elsku Hulda, þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig, það hefur þýtt mikið fyrir mig og verður aldrei of þakkað. Takk fyrir samfylgdina í lífinu.

María Sigurðardóttir.