Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri bandaríska lyfjafyrirtækisins Mallinckrodt, sem hyggst sameinast öðru bandarísku lyfjafyrirtæki, Endo, segir í ítarlegu samtali við ViðskiptaMoggann í dag að fyrirhuguð sameining, sem tilkynnt var um opinberlega 13. mars síðastliðinn, sé tímafrek. „Sameiningar fyrirtækja eru flóknari en kaup og sala á félögum, þar sem kaupandinn hefur meira um málið að segja. Hér er verið að ganga í „hjónaband“ og það þarf að finna sameiginlega lausn á ótal málum áður en tilkynnt er um sameininguna. Það ferli endaði svo með þessari tilkynningu fyrr í mánuðinum,“ segir Sigurður.
Mallinckrodt er eitt elsta lyfjafyrirtæki Bandaríkjanna, stofnað árið 1867. Eins og forstjórinn útskýrir er Endo gamalgróið fyrirtæki rétt eins og Mallinckrodt. „Það er mjög svipað Mallinckrodt og hefur sömuleiðis gengið í gegnum greiðslustöðvun og fjárhagslega endurskipulagningu í kjölfarið. Það kom út úr henni á síðasta ári, 2024. Endo framleiðir líkt og við bæði samheitalyf og frumlyf og stærðin er svipuð, eða um þrjú þúsund starfsmenn.“
Sigurður segir að bæði fyrirtæki séu með megnið af starfseminni í Bandaríkjunum. „Það sagði okkur að mikil samlegðaráhrif gætu orðið með sameiningu. Bæði fyrirtækin þurftu að vaxa og við töldum að fyrirtækin hefðu betri tækifæri til að gera það sameinuð en sitt í hvoru lagi. Það er grunnurinn að því að farið var af stað.“
Heildarvelta sameinaðs félags er 3,6 milljarðar dala, eða 480 milljarðar íslenskra króna.
„Sameinað fyrirtæki verður með þeim stærri í lyfjabransanum þó það nái ekki inn á topp tuttugu. En það kemur í næstu grúppu þar á eftir. Starfsmenn verða 5.700 og veltan er mest í Bandaríkjunum. En við erum einnig með tekjur frá Kanada, Evrópu, Japan og Ástralíu.“