Eins og fram kom í fjölmiðlum á dögunum mun Sigurður Óli Ólafsson verða forstjóri í sameinuðu lyfjafyrirtæki Mallinckrodt og Endo.
Sigurður Óli kom til Mallinckrodt um mitt ár 2022 en fyrirtækið er eitt elsta lyfjafyrirtæki Bandaríkjanna, stofnað árið 1867. Áður stýrði hann breska lyfjafyrirtækinu Hikma, 2018-2022, og þar á undan ísraelska samheitalyfjarisanum Teva og Actavis.
„Mallinckrodt gekk í gegnum erfiða tíma frá 2018-2019 og fór í gegnum greiðslustöðvun og fjárhagslega endurskipulagningu frá 2020-2022. Þá kem ég inn sem forstjóri. Í ljós kom að þessi endurskipulagning var ekki nægjanleg, fyrirtækið var of skuldsett, og því þurfti fyrirtækið að endurtaka svipað ferli til að lækka skuldir enn frekar,“ segir Sigurður í samtali við ViðskiptaMoggann.
Aftur á vaxtarbraut
Hann segir að vinna sín í byrjun hafi falist í að koma rekstrinum í samt horf og fyrirtækinu aftur á vaxtarbraut, á sama tíma og farið yrði í seinni fjárhagslegu endurskipulagninguna.
Sigurður segir að í Bandaríkjunum séu gjaldþrotalög öðruvísi en í Evrópu. „Hér sækja fyrirtæki um svokallað greiðsluskjól (e. Chapter 11 bankruptcy) sem er fjárhagsleg endurskipulagning og greiðslustöðvun á sama tíma. Árið 2023 förum við sem sagt í þessa seinni fjárhagslegu endurskipulagningu en þá var búið að semja við kröfuhafa fyrir fram. Þetta verkefni kláraðist árið 2023 og var mikil vinna. Í framhaldinu héldum við áfram veginn í átt að meiri vexti.“
Rekstrartekjur Mallinckrodt 2024 voru um tveir milljarðar bandaríkjadala, eða um 270 milljarðar íslenskra króna, og EBITDA-framlegð var um sex hundruð milljónir bandaríkjadala eða um 80 milljarðar íslenskra króna. 2.700 manns starfa hjá félaginu sem framleiðir bæði samheitalyf og frumlyf.
„Í byrjun 2024 seljum við frá okkur eitt af lyfjunum okkar og í framhaldinu skoðum við hvað sé næst á dagskrá. Þá koma upp hugmyndir um að sameinast Endo.“
Sigurður segir að fyrirhuguð sameining, sem tilkynnt var um opinberlega 13. mars sl., sé tímafrek. „Sameiningar fyrirtækja eru flóknari en kaup og sölur á félögum, þar sem kaupandinn hefur meira um málið að segja. Hér er verið að ganga í „hjónaband“ og það þarf að finna sameiginlega lausn á ótal málum áður en tilkynnt er um sameininguna. Það ferli endaði svo með þessari tilkynningu fyrr í mánuðinum.“
Eins og forstjórinn útskýrir er Endo gamalgróið fyrirtæki rétt eins og Mallinckrodt. „Það er mjög svipað Mallinckrodt og hefur sömuleiðis gengið í gegnum greiðslustöðvun og fjárhagslega endurskipulagningu í kjölfarið. Það kom út úr henni á síðasta ári, 2024. Endo framleiðir líkt og við bæði samheitalyf og frumlyf og stærðin er svipuð, eða um þrjú þúsund starfsmenn.“
Megnið í Bandaríkjunum
Sigurður segir að bæði fyrirtæki séu með megnið af starfseminni í Bandaríkjunum. „Það sagði okkur að mikil samlegðaráhrif gætu orðið með sameiningu. Bæði fyrirtækin þurftu að vaxa og við töldum að fyrirtækin hefðu betri tækifæri til að gera það sameinuð en sitt í hvoru lagi. Það er grunnurinn að því að farið var af stað.“
Heildarvelta sameinaðs félags er 3,6 milljarðar dala, eða 480 milljarðar íslenskra króna.
„Sameinað fyrirtæki verður með þeim stærri í lyfjabransanum þó það nái ekki inn á topp tuttugu. En það kemur í næstu grúppu þar á eftir. Starfsmenn verða 5.700 og veltan er mest í Bandaríkjunum. En við erum einnig með tekjur frá Kanada, Evrópu, Japan og Ástralíu.“
Spurður um ástæður fjárhagslegra erfiðleika Mallinckrodt segir Sigurður að fyrirtækið hafi þurft að leysa úr ótal lögsóknum vegna sölu á ópíóíðalyfjum sem fyrirtækið framleiðir. Ópíóíðar eru sterk verkjalyf sem geta verið lífshættuleg í stórum skömmtum og kunna að leiða til alvarlegrar fíknar. En jafnframt eru þetta mikilvæg lyf í meðferð við verkjum, eins og Sigurður útskýrir, og nauðsynlegt er að þau séu notuð á réttan hátt.
Mallinckrodt framleiðir ennþá ópíóíða að sögn Sigurðar, en í töluvert minni mæli en áður og jafnframt með víðtæku eftirlitskerfi til að fylgja því eftir að lyfin séu rétt notuð. „Það komu þúsundir lögsókna á fyrirtækið. Hin fjárhagslega endurskipulagning var hluti af því að leysa úr þeim, og var gerð áður en ég kom til félagsins. Endurskipulagningin hafði það meginmarkmið að leysa úr lögsóknunum en seinni endurskipulagningin var til að styrkja efnahagsreikninginn.“
Niðurstaðan varð hundruð milljóna dala í sektir og bætur. „Þetta er núna að baki. Það eru engar útistandandi lögsóknir á fyrirtækið í dag.“
Framleiða góð lyf
Sigurður segir að ekki hefði verið ráðist í sameininguna nema vegna þess að bæði fyrirtækin framleiði góð lyf sem eru lífsnauðsynleg fyrir sjúklinga. „Það er vitað að lyfin þurfa að komast til sjúklinga. Það er grunnurinn að þessu öllu, að vita að maður er að vinna að mjög góðum málstað. Ef við endurskipuleggjum ekki fyrirtækið og komum því á réttan kjöl, þá gætu sjúklingar liðið fyrir skort á lyfjum. Þó að peningar og lögsóknir séu þarna í bakgrunni er það líðan sjúklinga sem mestu máli skiptir, að þeim farnist betur í dag en í gær.“
Forstjórinn ítrekar að starfsfólkið skipti öllu máli í svona uppbyggingu. „Ég hef ráðið inn mikið af góðu fólki til Mallinckrodt, fólki sem ég þekkti ekki áður, fyrir utan eina samstarfskonu sem var með mér hjá gamla Actavis, Henriette Nielsen. Það er mjög nauðsynlegt að hafa gott teymi með sér þegar maður er að keyra í raun tvö stór verkefni á sama tíma. Fyrirtækið má ekki missa taktinn þó svo að verið sé að endurskipuleggja. Lyfin þurfa að komast til sjúklinganna. Það hefði ekki gengið að halda þessu gangandi nema með því að hafa besta fólkið í lyfjabransanum með í liði.“
Spurður nánar um sameiningarferlið segir Sigurður að samkeppniseftirlitið í Bandaríkjunum muni vafalítið taka sér nokkra mánuði í að fara yfir málið. „Við sögðum í okkar tilkynningu að við byggjumst við að málið gengi í gegn á seinni hluta þessa árs. Fram að því vinnum við undirbúningsvinnu.“
Heildarvirði (e. enterprise value) sameinaðs félags er metið á 6,7 milljarða dollara, eða tæplega 900 milljarða króna. Samkomulagið felur í sér að hluthafar Endo fá 80 milljónir dala í reiðufé, eða um 10,7 milljarða króna, og 49,9% eignarhlut í sameinuðu félagi. Hluthafar Mallinckrodt munu því eiga ráðandi hlut í félaginu.
Verður skipt í tvennt
Þegar samruninn fæst samþykktur verður sameinuðu fyrirtæki skipt í tvennt.
„Við ætlum að mynda tvö fyrirtæki. Annað á að vera frumlyfjafyrirtæki sem býður upp á einkaleyfisvarin lyf, og hitt samheitalyfjafyrirtæki. Þessi uppskipting verður mesta áskorunin þegar sameiningin hefur verið samþykkt og er um garð gengin.“
Hann segir að ein af ástæðunum fyrir því að skipta eigi fyrirtækjunum upp sé að ólíkir fjárfestar fjárfesti í frumlyfjafyrirtækjum annars vegar og samheitalyfjafyrirtækjum hins vegar. „Til að finna bestu framtíð fyrir fyrirtækið teljum við réttast að skipta því upp og búa til tvö sjálfstæð fyrirtæki sem síðan geta vaxið og dafnað.“
Samheitalyfjafyrirtækið verður þannig með 1,7 milljarða dala ársveltu og mun starfa eingöngu á Bandaríkjamarkaði. Félagið mun að sögn Sigurðar bjóða upp á lyfjaefni, innrennslislyf, töflur og hylki. Frumlyfjafyrirtækið verður með stærri hóp sölumanna á bak við sig. „Þetta verða tvö mjög ólík lyfjafyrirtæki. Frumlyfjafyrirtækið verður móðurfélag og sótt verður um skráningu á því á hlutabréfamarkað.“
Reuters-fréttastofan hafði eftir Sigurði í frétt um fyrirhugaða sameiningu að auknir tollar á útlenskar vörur í Bandaríkjunum gætu falið í sér tækifæri fyrir fyrirtækið.
„Ég myndi ekki segja að tollarnir væru jákvæðir fyrir okkar rekstur en þeir eru ekki neikvæðir. Það er frekar óalgengt í dag að lyfjafyrirtæki séu með lyfjaverksmiðjur í Bandaríkjunum enda er launakostnaður þar hærri en víða annars staðar. Stór hluti allrar lyfjaframleiðslu heimsins fer fram utan landsins. Við erum samtals með 17 verksmiðjur og meirihluti þeirra er í Bandaríkjunum.“
Spurður nánar um áhrif tollanna á lyfjabransann segir Sigurður að menn bíði enn átekta. „Það eru mjög mörg erlend samheitalyf á Bandaríkjamarkaði, t.d. frá indverskum lyfjafyrirtækjum sem framleiða á Indlandi, þar sem framleiðslukostnaður er mun lægri. Ef tollar yrðu settir á þau lyf yrði það ansi mikið vandamál fyrir þann iðnað.“
Á langan feril
Sigurður á langan feril í lyfjageiranum. Hann lærði lyfjafræði við Háskóla Íslands en réð sig svo til lyfjarisans Pfizer í Bretlandi. Hann flutti til Bandaríkjanna árið 2000 og hefur búið ásamt fjölskyldu sinni í New Jersey sl. 12 ár.
„Ég flutti heim til Íslands árið 2008 og gerðist forstjóri í gamla Actavis. Ég hef nú stýrt stórum lyfjafyrirtækjum í 17 ár samfleytt. Það var einhver sem benti mér á að eftir 17 ára feril ætti ég að vera búinn að gera öll mistökin í bókinni og ætti því að kunna að forðast þau,“ segir Sigurður og brosir. „Þetta er reynsla sem byggist upp.“
Fyrirtækin sem Sigurður hefur stýrt auk Actavis og Mallinckrodt eru samheitalyfjadeild ísraelska lyfjarisans Teva, samheitalyfjasvið Watson Pharmaceuticals í Bandaríkjunum og breska lyfjafyrirtækið Hikma.
Aðspurður segir Sigurður að höfuðstöðvar Mallinckrodt séu í Dublin á Írlandi. „Ég fer reglulega þangað. Bandarísku höfuðstöðvarnar eru hér í New Jersey. Við höfum enn ekki ákveðið hvar höfuðstöðvar sameinaðs fyrirtækis verða.“
Spurður um frekari ytri vöxt sameinaðs fyrirtækis segir Sigurður að allt sé óvíst með það. „En ég held að fyrirtækin fari varlega í skuldsetningu í framtíðinni. Við viljum samt kaupa fleiri lyf til að sölumenn okkar, sem eru rúmlega 400 í Bandaríkjunum, hafi úr meiru að moða á fundum með læknum og heilbrigðisstarfsfólki. Þeir heimsækja mikið ónæmislækna, gigtarlækna, augnlækna og þvagfæralækna.“
Margar leiðir til kaupa
Aðspurður segir hann að hægt sé að kaupa lyf á fleiri en einn veg. „Þú getur keypt lyf og einkaleyfi með fullum réttindum. Þú getur einnig keypt réttinn til að selja það í Bandaríkjunum og þú getur fengið endursöluleyfi. Þetta eru þrír möguleikar en fyrsti og annar möguleikinn eru fýsilegastir fyrir okkur. Það eru ýmis evrópsk fyrirtæki sem starfa utan Bandaríkjanna sem hafa unnið að nýþróun á lyfjum sem fara ekki út í að setja upp sölumannakerfi í Bandaríkjunum. Við getum orðið góður samstarfsaðili fyrir þannig fyrirtæki,“ segir Sigurður að lokum.