Greiðslan fyrir árið 2024 frá ríkinu nemur 618 milljónum króna.
Greiðslan fyrir árið 2024 frá ríkinu nemur 618 milljónum króna. — Morgunblaðið/Eggert
Ársskýrsla Íslandspósts var gefin út á aðalfundi félagsins í vikunni. Þar kemur fram yfirlýsing um að 2024 sé fimmta árið í röð sem rekstrarafkoma fyrirtækisins er jákvæð. Það þrátt fyrir ýmsar áskoranir enda hafi hagræðing skilað miklum árangri

Ársskýrsla Íslandspósts var gefin út á aðalfundi félagsins í vikunni. Þar kemur fram yfirlýsing um að 2024 sé fimmta árið í röð sem rekstrarafkoma fyrirtækisins er jákvæð. Það þrátt fyrir ýmsar áskoranir enda hafi hagræðing skilað miklum árangri.

Reyndar kvartar forstjóri félagsins, Þórhildur Ólöf Helgadóttir, samhliða undan mikilli samkeppni á pakkamarkaði, nýrri samkeppni á bréfamarkaði og að erlendar sendingar hafi haft mikil áhrif á rekstur félagsins. Sum sé forstjórinn kvartar yfir flestu því sem fyrirtækið er ekki með einkarétt á.

Íslandspóstur skilaði 187 milljóna króna hagnaði á síðasta ári en 30 milljónum 2023. Fyrirtæki sem er með yfir 7,6 milljarða á síðasta ári í tekjur. Það getur nú vart talist góð rekstrarniðurstaða og það áður en ríkisstyrkurinn er skoðaður betur.

Íslandspóstur sér nefnilega um svokallaða alþjónustu fyrir ríkið, fékk samning til 10 ára með lögum árið 2020 og fær fyrir það sérstakar greiðslur. Greiðsla frá ríkinu fyrir 2024 nemur 618 milljónum króna en samkvæmt reikningum félagsins er beinn kostnaður við póstdreifingu vel yfir milljarður króna. Fyrir ári nam þessi greiðsla ríkisins tæpum 500 milljónum króna.

Byggðastofnun ákvarðar í samráði við Íslandspóst greiðslur hvers árs. Íslandspóstur hefur ítrekað kvartað yfir því við Byggðastofnun hve aukin samkeppni á markaði geri það að verkum að kostnaður hafi aukist innan félagsins þar sem kostnaðurinn dreifist á færri einingar en áður. Sum sé: Íslandspóstur kvartar sjálfur yfir því til yfirvaldsins að hann sé ekki sjálfbær í samkeppnisumhverfi.

Forstjórinn tiltekur síðan í ársskýrslunni að hlutverk félagsins sé að tengja fólk, fyrirtæki og samfélög með því að miðla vörum, gögnum og upplýsingum til viðskiptavina um allt land og víða veröld. Fyrirtækið styður jafnframt við byggðaáætlun, blómlegar byggðir og öfluga byggðakjarna sem stuðla að jöfnu aðgengi að grunnþjónustu, sem póstþjónustan er. Svo skemmtilega er þetta nú allt teiknað upp hjá forstjóranum og flestir gleðjast eflaust yfir fallegu ímyndinni.

Staðreyndin er sú að þetta er opinbert fyrirtæki sem byggir rekstur sinn á djúprættu samkeppnisforskoti til margra ára og væri rekið með miklu tapi ef ekki kæmu til sérstakar árlegar aukagreiðslur frá ríkinu. Fyrirtækið kvartar síðan ítrekað yfir samkeppnisumhverfinu, sem það ræður ekkert við. Nær væri að stoppa allar greiðslur til fyrirtækisins og láta markaðinn alfarið um verkefnið.