París Macron og Selenskí funduðu í gærkvöldi í forsetahöllinni í París um mögulegt evrópskt herlið í Úkraínu.
París Macron og Selenskí funduðu í gærkvöldi í forsetahöllinni í París um mögulegt evrópskt herlið í Úkraínu. — AFP/Ludovic Marin
Talsmenn Evrópusambandsins sögðu í gær að ekki kæmi til greina að aflétta eða breyta refsiaðgerðum sambandsins gegn Rússlandi nema Rússar drægju til baka allt herlið sitt frá Úkraínu án nokkurra skilyrða

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Talsmenn Evrópusambandsins sögðu í gær að ekki kæmi til greina að aflétta eða breyta refsiaðgerðum sambandsins gegn Rússlandi nema Rússar drægju til baka allt herlið sitt frá Úkraínu án nokkurra skilyrða.

Yfirlýsing sambandsins kom í kjölfar þess að Rússar lýstu því yfir að hlé á átökum á Svartahafi, sem bæði Rússar og Úkraínumenn voru sagðir hafa samþykkt í vikunni, myndi ekki hefjast fyrr en búið væri að aflétta vissum refsiaðgerðum á útflutningsvörur Rússa í landbúnaði.

Vilja Rússar sérstaklega að öllum refsiaðgerðum verði aflétt af búnaðarbankanum Rosselkhozbank, en refsiaðgerðir Evrópusambandsins árið 2022 gerðu það að verkum að bankinn var aftengdur hinu alþjóðlega SWIFT-bankakerfi.

Vopnahléið á Svartahafi var ein helsta niðurstaða funda sem Bandaríkjastjórn hélt með Rússum og Úkraínumönnum hvorum í sínu lagi í upphafi vikunnar í Sádi-Arabíu, en Bandaríkjamenn sögðu í kjölfar þeirra meðal annars að þeir myndu aðstoða Rússa við að fá aftur „aðgengi að heimsmarkaði“ fyrir landbúnaðarvörur sínar og áburðarframleiðslu.

Anitta Hipper, talskona framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði að sambandið hefði ekki verið aðili að viðræðunum í Sádi-Arabíu, en að það fylgdist vel með gangi mála, og að nú væri það undir Rússum komið að sýna að þeir hefðu friðarvilja. Þá lagði hún áherslu á að ESB hefði ekki sett neinar refsiaðgerðir á útflutning Rússa á landbúnaðarvörum eða áburði til þriðju aðila.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sagði hins vegar að ekki hefðu nein skilyrði verið sett fyrir upphafi vopnahlésins á Svartahafi. Sakaði hann Rússa jafnframt um að vilja spilla fyrir vopnahlésviðræðunum og benti þar á loftárás Rússa um nóttina þar sem þeir sendu 117 sjálfseyðingardróna til árása á Úkraínu þrátt fyrir að búið hefði verið að samþykkja hlé á árásum á orkuinnviði bæði Rússlands og Úkraínu.

Rússar sökuðu Úkraínuher sömuleiðis um að hafa gert árásir á orkuinnviði í Rússlandi, en herinn neitaði þeim ásökunum í gær og sagði þær settar fram í þeim tilgangi einum að framlengja stríðið.

Þurfa að standa saman

Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Mark Rutte, heimsótti Varsjá í gær og fundaði þar meðal annars með Donald Tusk forsætisráðherra. Rutte sagði þar að bandalagið myndi svara árás frá hverjum sem er af fullum krafti.

„Ef einhverjir misreikna sig og halda að þeir geti ráðist á Pólland eða nokkurn annan bandamann, þá munu þeir mæta fullum krafti þessa kröftuga bandalags,“ sagði Rutte á blaðamannafundi sínum með Tusk í Varsjá. „Svar okkar verður yfirgnæfandi. Þetta þarf að vera mjög skýrt fyrir Vladimír Vladimírovitsj Pútín og hvern annan sem vill ráðast á okkur,“ sagði Rutte.

Rutte ávarpaði einnig háskólanema í borginni og sagðist þar vita að ýmsar spurningar væru nú á lofti um hvort Bandaríkin væru reiðubúin til þess að koma Evrópu til varnar. Sagði Rutte ljóst að bæði Bandaríkin og Evrópa þyrftu að standa saman gegn þeim öryggisógnum sem nú steðjuðu að alþjóðakerfinu, þar sem þær væru of stórar í sniðum til þess að nokkurt ríki gæti tekist á við þær eitt síns liðs.

Ræða friðargæslu í París

Selenskí kom í gær til Parísar og fundaði þar með Emmanuel Macron Frakklandsforseta, en í dag verður haldinn leiðtogafundur þeirra ríkja sem hyggjast taka þátt í „bandalagi hinna viljugu“ sem Bretar og Frakkar eru að setja á fót, en tilgangur þess er að leggja til herlið sem geti tryggt friðinn í Úkraínu eftir að vopnahlé kemst á.

Rúmlega tuttugu ríkjum hefur verið boðið til fundarins, en þar á meðal eru Bretar, Kanadamenn, Norðmenn og Tyrkir. Igor Zjovka, einn af helstu ráðgjöfum Selenskís, sagði í gær að Úkraínumenn myndu ekki þarfnast óvopnaðra friðargæsluliða, heldur hermanna sem væru tilbúnir til þess að takast á við ýmsar aðstæður á borð við loftárásir eða drónaárásir frá Rússlandi.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson