Theodoros Terzopoulos
Theodoros Terzopoulos
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alþjóðlegur dagur leiklistar er haldinn 27. mars ár hvert og eru af því tilefni samin ávörp sem hefð er fyrir að flutt séu á undan leiksýningum dagsins. Sviðshöfundurinn Birnir Jón Sigurðsson samdi íslenska ávarpið í ár og það erlenda samdi…

Alþjóðlegur dagur leiklistar er haldinn 27. mars ár hvert og eru af því tilefni samin ávörp sem hefð er fyrir að flutt séu á undan leiksýningum dagsins. Sviðshöfundurinn Birnir Jón Sigurðsson samdi íslenska ávarpið í ár og það erlenda samdi Theodoros Terzopoulos, stofnandi og listrænn stjórnandi Attis-leikhússins í Aþenu, en Hafliði Arngrímsson íslenskaði. Morgunblaðið birtir hér brot úr ávörpunum tveimur, en þau má lesa í heild á mbl.is.

Krefst hugrekkis

„Það krefst hugrekkis að setja saman atriði fyrir annað fólk, að standa svo á sviðinu, í búningi, í ljósum, í augliti kannski hundrað manns, kannski fimmhundruð, og geta sig hvergi falið. Það krefst dirfsku að standa á sviði og reyna að setja saman hið fullkomna augnablik, það er óðs manns æði. Það er djarft að dvelja í óvissunni. Að miða út í myrkrið – því að myrkrið er fullt af stjörnum. Í hinu fullkomna andartaki fangarðu eina slíka, bravo. En það er ekki allt leikhús djarft, það er ekki allt leikhús hugrakkt. Það verðskulda ekki öll sviðsverk bravo.

Ekkert er jafn vont og lélegt leikhús. En ekkert er jafn undursamlega stórfenglegt og leikhús þar sem flytjendur og áhorfendur, stundum kannski hundrað, stundum kannski fimmhundruð, fanga saman þessa stjörnu. Ganga svo úr salnum, út undir regnþrunginn dimman himininn, fullir af ljósi,“ skrifar Birnir Jón í ávarpi sínu.

Móta pólitíska ábyrgð

„Hefur leikhúsið áhyggjur af vistfræðilegri tortímingu, hlýnun jarðar, gríðarlegum afföllum í fjölbreytileika lífríkisins, mengun sjávar, bráðnandi heimskautaís, auknum skógareldum og öfgakenndu veðri? Getur leikhúsið orðið virkur hluti af vistkerfi? Leikhúsið hefur fylgst með afleiðingum mannlegra athafna á móður jörð í langan tíma, en það á erfitt með að bregðast við þeim. Hefur leikhúsið áhyggjur af andlegu ástandi mannkyns eins og það er að þróast á 21. öldinni, þar sem fólki er stjórnað af pólitískum og efnahagslegum hagsmunum, netmiðlum og skoðanamyndandi netfyrirtækjum? Þar sem samfélagsmiðlar, eins mikið og þeir auðvelda lífið, mynda örugga fjarlægð í samskiptum við aðra? Hugsanir okkar og athafnir eru mengaðar víðtækum ótta við aðra sem eru öðruvísi eða framandi. Getur leikhúsið þjónað sem rannsóknarstofa samlífis fjölbreytileikans, án þess að meðtaka blæðandi áfallastreitu?“ spyr Terzopoulos í ávarpi sínu.

Sjálfur svarar hann með orðunum: „Okkur sárvantar nýtt frásagnarform, sem miðar að því að rækta minnið og móta nýja siðferðilega og pólitíska ábyrgð, til að komast frá margslungnu einræði „myrkra miðalda“ samtímans.“ silja@mbl.is