Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Átakið Tölum saman hefst formlega í dag, en með því viljum við stuðla að vitundarvakningu um félagslega einangrun í samfélaginu,“ segir Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur og verkefnastjóri verkefnisins. Hún hefur ásamt eiginmanni sínum Svavari Knúti tónlistarmanni ferðast um allt landið og næsta mánuðinn verða auglýsingar í fjölmiðlum og bæklingar í boði auk þess sem mikið efni er inni á island.is.
„Það er félags- og húsnæðisráðuneytið sem setur átakið af stað,“ segir Líney.
Í sérstakri umræðu um félagslega einangrun á Alþingi í síðustu viku sagði Inga Sæland, félags- og öldrunarmálaráðherra, það vera eitt af sínum „hjartans málum að vinna gegn þeirri þöglu ógn sem einmanaleikinn er.“
Tíunda hvert ungmenni
„Tíðni félagslegrar einangrunar hefur aukist í vestrænum samfélögum undanfarin ár og aukin tíðni leiðir til minni hagvaxtar, enda fer fólk minna út og kaupir minna,“ segir Líney.
„Síðustu opinberu tölurnar frá Alþjóðaheilbrigðisstofnunni, WHO, benda til þess að tíunda hvert ungmenni búi við félagslega einangrun og fjórðungur eldra fólks, en stofnunin skilgreinir vandann til jafns við reykingar, ofneyslu áfengis, offitu og aðrar ógnir við almenna heilsu.“
Þurfum bara að hlusta
Oft einangrast fólk við áföll í lífinu, eins og skilnað, ástvinamissi, veikindi eða flutninga og Líney segir mikilvægt að vera vakandi fyrir umhverfinu. „Við getum verið hluti af lausninni. Við þurfum ekkert að leysa vandamál fólks. Við þurfum bara að hlusta.“