Listaskáldið norska Jo Nesbø nýtur gríðarlegra vinsælda sem glæpasagnahöfundur víða um heim og bindur bagga sína allt öðrum hnútum en samferðamenn.
Listaskáldið norska Jo Nesbø nýtur gríðarlegra vinsælda sem glæpasagnahöfundur víða um heim og bindur bagga sína allt öðrum hnútum en samferðamenn. — Morgunblaðið/Atli Steinn Guðmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Í sannleika sagt var það stúlka sem starfaði hér í forlaginu sem spurði mig hvort ég gæti ekki skrifað bók,“ segir Jo Nesbø, að öllum öðrum ólöstuðum sá glæpasagnahöfundur sem borið hefur höfuð og herðar yfir skrifara…

Viðtal

Atli Steinn Guðmundsson

atlisteinn@mbl.is

„Í sannleika sagt var það stúlka sem starfaði hér í forlaginu sem spurði mig hvort ég gæti ekki skrifað bók,“ segir Jo Nesbø, að öllum öðrum ólöstuðum sá glæpasagnahöfundur sem borið hefur höfuð og herðar yfir skrifara bókmenntagreinarinnar í Noregi nánast frá aldamótum og veitt birtu og gleði – en kannski í ríkari mæli hinni myrkustu mynd af norsku höfuðborginni Ósló sem vettvangi raðmorðingja og blóðsuga – inn í hugarheim glæpasagnaunnenda sem læsir eru á þau rúmlega fimmtíu tungumál sem bækur þessa geðþekka rekstrarhagfræðings og tónlistarmanns frá Ósló hafa birst á.

Nesbø varð góðfúslega við beiðni blaðamanns Morgunblaðsins um viðtal á glæpasagnamessunni Krimfestivalen sem nýlega lauk í Ósló, þetta árið því miður að fulltrúum íslenskra höfunda fjarstöddum, en hátíðin hefur um árabil verið vel sótt og áberandi, upprennandi og jafnvel alræmdir glæpasagnahöfundar Norðurlanda veitt gestum hennar innsýn í störf sín, hugarheim og feril fyrir fullum salarkynnum stærstu bókaforlaga borgarinnar þar sem Yrsa Sigurðardóttir ræddi við Morgunblaðið á hátíðinni heimsfaraldursárið fræga 2020 og lýsti því þar yfir að henni leiddust hnífstungur og drukknanir og kysi því fórnarlömbum sinna sagnapersóna örlög á borð við þau að vera lofttæmd til ólífis með ryksugu. Þess má geta að Yrsa er verkfræðingur að mennt og því lagnara en mörgum að gefa hversdagslegum heimilistækjum voveifleg hlutverk.

Ekki varð þó ljóst fyrr en á efsta degi að metsöluhöfundur bóka á borð við Snjókarlinn, Rauðbrysting og Brynhjarta, sem svo heita í íslenskum þýðingum er mætt hafa opnum örmum íslenskra lesenda, biði blaðamanns við borð í kyrrlátu hliðarherbergi hins fornfræga Aschehoug-forlags í hjarta Óslóar sem nýverið fagnaði 150 ára afmæli sínu.

Nesbø var á tónleikaferðalagi með dægurhljómsveit sinni Di Derre, „Þeir þarna“ á íslensku, sem rekur ræturnar til Molde og fyrir margt löngu hefur unnið sér sess í norskum eyrum með lögum á borð við Jenter, Vårt korps og Erik Vea, og þakkar blaðamaður Vegard Bye, umboðsmanni rithöfundarins hjá Aschehoug, fyrir að gefa sig allan í það verkefni að leggja viðtalsbeiðnina fyrir Nesbø sem að sögn Vea skoðaði tölvupóst sinn óreglulega á tónleikaferðalögum.

Marghliða persóna

„Ég hef nú á tilfinningunni að hann þiggi þetta,“ skrifaði Bye í einum margra tölvupósta sinna til blaðamanns sem raunar var sama sinnis. Glæpasagnahöfundur sem minnist á Sigur Rós og Bláa lónið í metsölubókum hlýtur að tala við Morgunblaðið. Annað væri kollrak. Jo Nesbø þekktist að sjálfsögðu boðið er á hólminn var komið og sat þar af leiðandi hinn rólegasti í herberginu áðurnefnda þar sem bókaskápar teygðu sig frá gólfi til lofts. Hann hefur sjálfur prýtt forsíður flestra bóka sinna í norskum útgáfum og brosið á skeggjuðu andlitinu sem horfði til blaðamanns undan derhúfu var strákslegt og kunnuglegt.

Líklega er gáfulegast að gera sem minnstar tilraunir til þess að draga upp einhvers konar mynd af þessari gömlu byggingu sem minnir að mörgu leyti á miðaldakastala með endalausum herbergjum, klefum, göngum, stigum og rangölum sem aðeins æxlun kóralrifja á hafsbotni gæti líkt eftir í völundarhúsi sem á tímabili virtist búa yfir eiginleikum félagsheimilisins í Stuðamannamyndinni með allt á hreinu er töluvert stærra reyndist að innan en utan.

Spurningin sem Nesbø svarar í upphafi snýr að því hvernig rithöfundur bætist við samsuðu hagfræðings, knattspyrnumanns, tónlistarmanns og greinanda á fjármálamarkaði. Viðurkennir hann hreinlega engin ytri mörk þess sem enskumælandi þjóðir kalla „well rounded character“?

Stúlkuna, sem nefnd er hér í öndverðu, kveður Nesbø hafa þekkt vel til texta Di Derre og því hafi hún gaukað því að honum hvort ekki mætti auka skáldsagnaritun við svo haganlega gerða texta. Flestir hefðu líkast til þakkað hrósið, svarað því til að þeir hefðu lengi gengið með bók í maganum og árum síðar legið í kistu í eigin útför með bókina jafn ófædda. Jo Nesbø settist hins vegar niður og skrifaði Leðurblökuna, Flaggermusmannen, árið 1997. Drykkfelldi lögreglumaðurinn Harry Hole heilsaði norskum lesendum í máli sem snerist um víg ungrar norskrar konu í Ástralíu þar sem þarlend lögregluyfirvöld föluðust eftir aðstoð frá Noregi. Sögusviðið voru undirheimar snúnir dimmum löstum fíkniefnaneyslu, vændis og veruleika fjarri köldu skandinavísku myrkri. Bókin sló í gegn, hjólin tóku að snúast.

„Við höfum öll fordóma“

„Ég þekkti til í Ástralíu þar sem þessi bók fæddist,“ segir Nesbø, „bókin var eins konar tilraun, ég vissi ekki hvað út úr kæmi,“ heldur hann áfram, og blaðamaður spyr eftir hverju hann hefði þá vonast að minnsta kosti.

„Þetta er erfitt að rifja upp eftir á, maður gerði sér ákveðnar hugmyndir og ég man að ég hafði ákveðið sjálfstraust. Ég var ekki þekktur á þessum vettvangi, en margir könnuðust við mig úr hljómsveitinni, ég vissi samt engan veginn hvers konar rithöfundur ég yrði,“ heldur höfundurinn áfram og er spurður út í þá sterku persónusköpun sem hann frá upphafi tamdi sér með glæsibrag og gerir það að verkum, að minnsta kosti að mati þess er hér skrifar, að persónur og leikendur Nesbø, hvort sem um er að ræða lögreglumann í sálarháska eða truflaða afbrotamenn sem aflífa fórnarlömb sín með stáltönnum eða nauðga þeim til þess að geta með þeim börn og verða í hugarfylgsni sér unnusti þeirra ógæfusömu.

„Þetta er kannski ekki það auðveldasta að útskýra berum orðum,“ svarar Nesbø og brosir sínu heillandi brosi. Talandinn er hæglátur og ljóst að þarna fer maður sem „aldeilis veit hvar handklæðið hans er“ svo gripið sé til frægrar líkingar breska háðfuglsins Douglas Adams heitins sem auðgaði líf margs íslensks framhaldsskólanemans með staðleysuskáldskapnum The Hitchhiker‘s Guide to the Galaxy á öldinni sem leið auk framhaldsbóka sem fátt gáfu hinni fyrstu eftir.

Skrifheimurinn einkaheimur

„Ég sé fyrir mér persónu og gef henni í upphafi tvo grunneiginleika. Því má líkja við að sitja á kaffihúsi og horfa á tvær persónur ræða saman. Úr fjarlægð ímyndar maður sér um hvað sé rætt. Fordómar er orð sem fengið hefur mjög neikvæða merkingu, við höfum öll fordóma sem oftast eru byggðir á takmörkuðum upplýsingum. Ég skapa mínar persónur þannig að ég kalla fram þennan grunn og svo nota ég mína fordóma í að búa til skýrari mynd. Mínir fordómar eru hins vegar allt öðruvísi en fordómar einhverra annarra og ég hef alltaf vissa fordóma. Þú hefur fordóma um mig,“ segir höfundurinn.

„Þú kemur hérna inn í stuttermabol og húðflúraður, þú lyftir greinilega lóðum og þú gekkst hér inn með áhuga sem geislaði af þér. Þú lagðir undir þig herbergið,“ heldur hann áfram við blaðamann sem taldi sig hafa laumast hæversklega inn með kaffibolla og þakkað Bye umboðsmanni af alúð þegar honum var skammtaður nákvæmlega hálftími til viðtalsins. Svona er maður nú misskilinn.

„Svo sér maður að þú ert eitthvað allt annað. Mér datt fyrst í hug að þú værir félagi í Vítisenglum og þarna sérðu þá línu sem maður getur dregið á milli tveggja hliða einnar persónu,“ leggur glæpasagnahöfundurinn á borðið. Maður sem er nánast ósýnilegur í norsku samfélagi. Jo Nesbø er ekki tíður gestur á samkomum þar sem rithöfundar lesa upp úr verkum sínum, hann ávarpar lesendur sína aldrei í for- eða eftirmálum. Hann er eins konar vofa sem þó hefur skapað lesendum algjörlega nýja mynd af norsku samfélagi þar sem raðmorðingjar sitja um fórnarlömb sín og ný miskunnarlaus tegund afbrotamanna fer með oddi og egg um norrænt samfélag sem nú orðið ber mestan kvíðboga fyrir því hvaða unglingur verði næsta fórnarlamb jafnaldra sinna sem ganga með hnífa í hönd um götur Óslóar og geri upp sakir sem þeim gangi illa að rifja upp fyrir dómi. Það er af sem áður var þegar albanskir heróínsalar gerðu norsku höfuðborgina að einu helsta heróínbæli í Evrópu snemma á níunda áratugnum. Afbrot af þeim toga þekkja flestir Norðmenn betur en raðmorðingja sem frílysta sig á stefnumótatorginu Tinder.

„Minn skrifheimur er einkaheimur, ég vil ekki vera í of nánu sambandi við lesendur, þegar þeir koma með athugasemdir hættir sá heimur að vera einkaheimur,“ segir hann og svarar í kjölfarið þeirri spurningu neitandi að honum hafi reynst það erfið ákvörðun að samþykkja að ganga til viðtals við Morgunblaðið. Hann skrifi til að eiga tjáskipti við aðra. „Ég skrifa fyrir aðra, ekki sjálfan mig, ekki breytir öllu hvort þú hafir tvö þúsund eða tuttugu þúsund lesendur, á meðan lesendur eru til staðar áttu þær tilgang,“ segir Nesbø. „Þegar maður er rithöfundur er auðvelt að staðsetja sig utan við þann heim. Ég get setið við hliðina á einhverjum í flugvél sem les bækurnar mínar og hann veit ekkert hver ég er. Þetta snýst ótrúlega mikið um tilviljanir, fyrstu tvær plöturnar sem hljómsveitin mín gaf út voru í raun ekkert ósvipaðar. Sú fyrri vakti litla athygli á meðan plata númer tvö seldist eins og heitar lummur.“

Varstu sáttur við kvikmyndina sem gerð var eftir Snjókarlinum, mynd sem Norðmenn gáfu frá sér að framleiða og létu erlendum kvikmyndaframleiðendum eftir?

„Nei,“ svarar Jo Nesbø skýrt og skorinort og blaðamaður er honum fullkomlega sammála. Gæti einhver dyggur lesandi og sannur aðdáandi Harry Hole séð hann fyrir sér í túlkun Michael Fassbender? Við eigum eftir að fara yfir töluvert af því sem gerir Jo Nesbø að þeim höfundi sem hreif norska lesendur með sér frá fyrstu blaðsíðu og viðtalið má að fullu og öllu lesa á mbl.is.

Höf.: Atli Steinn Guðmundsson