Rósa Margrét Tryggvadóttir
rosa@mbl.is
Í upphafi ársins 2025 hefur tónlistin fengið að njóta sín með fjölbreyttum og áhrifaríkum nýjum lögum og plötum. K100 hefur lagt áherslu á að gefa íslenskum tónlistarmönnum rými með fjölbreyttum hætti, meðal annars í öllum útvarpsþáttum stöðvarinnar. Hér er yfirlit yfir nokkur lög sem vakið hafa athygli á stöðinni undanfarnar vikur – allt frá draumarokki til ástarlaga.
IceGuys – Stígðu inn
Útgáfa: 21. mars 2025
Iceguys gáfu út lagið Stígðu inn í mars og vakti það strax athygli. Í viðtali á K100 gaf Jón Jónsson í skyn að eitthvað stærra væri í farvatninu: „Kannski er eitthvað meira að fara að gerast. Ég get ekkert sagt um það núna,“ sagði hann leyndardómsfullur eftir að Eva Ruza spurði hvort eitthvað væri í vændum – jafnvel ísheimur líkt og sungið er um í nýja laginu og sjá má í tónlistarmyndbandinu. Þar má jafnframt sjá skemmtilega teiknimyndaútgáfu af „strákunum“ í ísheiminum
Valdimar Guðmundsson & ISSI – Gleyma
Útgáfa: 31. janúar 2025
Óvænt samstarf Valdimars og rapparans ISSA leiddi af sér lagið Gleyma. Þeir fundu samhljóm eftir áhrifaríka og fallega upplifun í jarðarför ungs manns. Báðir voru þeir beðnir um að flytja tónlist í jarðaför ungs manns, sem lést í slysi rétt fyrir tvítugt. Þar kom í ljós að ISSI hafði verið uppáhaldsrappari hins látna – og Valdimar uppáhaldssöngvari. Úr varð sterk tenging og samvinna sem skilaði sér í laginu Gleyma, sem fjallar um missi, brostnar tilfinningar og það að halda áfram. Lagið var kynnt á K100 og hefur hlotið hlýjar viðtökur.
Friðrik Dór & Bubbi Morthens – Til hvers þá að segja satt?
Útgáfa: 21. febrúar 2025
Tónlistarmennirnir Friðrik Dór og Bubbi Morthens sameinuðu krafta sína í laginu Til hvers þá að segja satt? Þessi tilfinningaþrungna popprokk-ballaða hefur fengið mikla spilun og fór beint á topp tíu lista K100. Samstarfinu hefur verið lýst sem bæði óvæntu og tímabæru en Friðrik lýsti samstarfinu við Bubba sem draumi sem hann þorði varla að vonast eftir. „Við erum góðir félagar. Hann er frábær við mig og passar upp á mig,“ sagði Friðrik í viðtali á K100 nýverið en þar útskýrði hann hvernig honum hefði fundist lagið minna á Bubba og ákvað að senda honum skilaboð. Viðbrögðin létu þó ekki á sér standa en Bubbi varð mjög heillaður og stakk sjálfur upp á dúett. Draumurinn toppaði sig þegar Bubbi spilaði á munnhörpu í laginu.
Kári Egilsson – Plata: My Static World
Útgáfa: 21. mars 2025
Kári Egilsson gaf út sína þriðju plötu, My Static World, þann 21. mars. Platan inniheldur ellefu lög þar sem blandað er saman ljóðrænum píanóútsetningum, popptónum og tilraunakenndri rafrænni framsetningu. Þrjú lög – In The Morning, Midnight Sky og Carry You Home – höfðu áður komið út sem smáskífur og notið vinsælda. Carry You Home hefur hlotið sérstaka athygli fyrir laglínu og texta.
Jón Jónsson & Una Torfa – Vertu hjá mér
Útgáfa: 14. febrúar 2025
Á Valentínusardaginn sendu Jón Jónsson og Una Torfa frá sér lagið Vertu hjá mér. Jón samdi lagið og Una textann, og úr varð ástrík og einlæg lagasmíð sem náði strax inn á topp tíu lista K100 og hefur komið sér vel fyrir í hjörtum Íslendinga.
Spacestation – Plata: Reykjavík Syndrome
Útgáfa: 21. mars 2025
Spacestation gaf út sína fyrstu plötu, Reykjavík Syndrome, þann 21. mars. Á henni eru tólf lög sem tekin voru upp í Sundlauginni og Gróðurhúsinu. Meðal laganna eru Loftið, Í draumalandinu, Fokking lagið og Hvítt vín.
Lagið Í draumalandinu hlaut nýverið Íslensku tónlistarverðlaunin sem rokklag ársins. Sveitin, sem kallar sig „fyrstu geimstöð Íslands“, sækir innblástur í 60’s-rokk og shoegaze. Lögin fjalla meðal annars um næturlíf, ást og „önnur ávanabindandi efni“ og eru hönnuð til að fá fólk til að dansa og dreyma.
Hlynur Hallgrímsson & Erna Hrönn – Tilfinning svo heit eftir Hallgrím Bergsson
Útgáfa: 25. febrúar 2025
Þrjár raddir mætast í þessu fallega og tilfinningaríka ástarlagi sem ber heitið Tilfinning svo heit. Lagið er áhugaverð blanda af píanóballöðu og elektródansi. „Þetta er óður til ástarinnar. Segir frá því þegar ég sá konuna mína í fyrsta sinn og hvernig ástin getur verið flókin og margslungin á lífsleiðinni,“ sagði Hallgrímur sem kynnti lagið hjá Heiðari Austmann á K100 nýverið.
Svavar Viðarsson & Magnús Kjartan Eyjólfsson – Eilíf ást
Útgáfa: 31. janúar 2025
Lagahöfundurinn Svavar Viðarsson gaf út lagið Eilíf ást í lok janúar en það er flutt af Magnúsi Kjartani Eyjólfssyni, aðalsöngvara Stuðlabandsins. Lagið fjallar um óbilandi ást sem sigrar allar hindranir – og túlkun Magnúsar gefur því aukna dýpt, þar sem hann hefur nýverið lokið erfiðri baráttu við hvítblæði. Svavar þekkir sjálfur hvað það þýðir að berjast fyrir lífinu. Fyrir fjórum árum sigraði hann í lífshættulegri baráttu eftir að hafa fengið blóðtappa í heila og greinst með hjartagalla. Hann kynnti lagið nýlega á K100 og hefur það fengið hlýjar viðtökur.
Sólkatla Ólafsdóttir – Love No More
Útgáfa: 7. mars 2025
Sólkatla Ólafsdóttir gaf nýverið út sitt fyrsta sólólag, Love No More, og hefur það þegar vakið athygli erlendis. Hún fékk meðal annars að vita af hópi aðdáenda í Póllandi sem fylgjast grannt með ferli hennar. Um er að ræða frumraun Sólkötlu sem tónlistarkonu, og viðtökurnar hafa verið afar jákvæðar. Hún ræddi lagið og leiðina að útgáfunni í morgunþættinum Ísland vaknar á K100 nýverið.
Auðvitað er þetta aðeins brot af því sem hefur komið út – enda ríkir mikil gróska í íslensku tónlistarlífi þessa dagana og fjölmörg önnur spennandi verk sem bíða eftir að verða uppgötvuð. Á K100 fær íslensk tónlist sérstakt rými – ekki aðeins í morgun- og síðdegisútvarpi og á vikulegum spilunarlistum, heldur einnig í kvöldútvarpi. Dagskrárgerðarmaðurinn Heiðar Austmann stýrir eigin þætti á stöðinni alla þriðjudaga og fimmtudaga á milli klukkan 18 og 22, þar sem hann kynnir ný íslensk lög.
K100 hvetur íslenska tónlistarmenn eindregið til að senda lögin sín inn. Hægt er að skila inn efni í gegnum sérstakt innsendingarform sem er aðgengilegt á heimasíðu stöðvarinnar, K100.is, og með því að senda póst á frettir@K100.is. Hægt er að heyra lögin á helstu streymisveitum.