Afkoma í norskum sjávarútvegi hefur verið mjög slök.
Afkoma í norskum sjávarútvegi hefur verið mjög slök. — Ljósmynd/Havforskningsinstituttet
Verði frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytt auðlindagjöld að lögum mun gjaldtaka af uppsjávartegundum miða við verð á uppboðsmarkaði í Noregi. Norskar útgerðir og fiskvinnslur búa þó við allt annan veruleika en þær íslensku

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Verði frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytt auðlindagjöld að lögum mun gjaldtaka af uppsjávartegundum miða við verð á uppboðsmarkaði í Noregi. Norskar útgerðir og fiskvinnslur búa þó við allt annan veruleika en þær íslensku.

Í Noregi er ekki heimilt að eiga bæði vinnslu og veiðar og því er allur afli boðinn upp á markaði. Þannig þurfa vinnslur að greiða meira fyrir hráefni en það sem tíðkast hefur í samþættri virðiskeðju á Íslandi, hefur útgerð einnig notið góðs af því að vera fjármögnuð af þeim virðisauka sem verður til við vinnslu með fjárfestingum í nýjum skipum og tækjum.

Norskum fiskvinnslum hefur gengið erfiðlega að tryggja sér nægt hráefni þar sem þær hafa ekki haft burði til að yfirbjóða erlenda aðila sem geta unnið afla á láglaunasvæðum. Hefur því mikill hluti aflans farið óunninn frá Noregi til vinnslu í öðrum ríkjum.

Norska ríkið niðurgreiðir því rekstur fiskvinnslna þegar ekki fæst hráefni og hefur ákveðið að fiskvinnslur sem starfa á norðlægum slóðum skuli vera undanþegnar tryggingagjaldi eða borga mun minna tryggingagjald en aðrar atvinnugreinar. Þá hafa norskar vinnslur greiðslutryggingu frá ríkinu þannig að tryggt sé að þær fái greitt standi kaupandi ekki við gerða samninga.

Niðurgreitt kolefnisgjald

Afkoma meðal norskra útgerða hefur verið slæm undanfarin ár. Norðmenn hafa því gripið til þess ráðs að styrkja útgerðarrekstur í landinu til að tryggja rekstrarhæfni útgerða.

Norska ríkið niðurgreiðir meðal annars kostnað útgerða vegna kolefnisgjalds. Var fjárheimild slíkrar niðurgreiðslu hækkuð í síðustu fjárlögum landsins um rúmar 140 milljónir norskra króna og er áætlað að norski fiskiskipaflotinn verði styrktur um 500 milljónir norskra króna, jafnvirði rúmlega sex milljarða íslenskra króna, á árinu.

Eldsneyti er jafnframt niðurgreitt fyrir rækjubáta og var samanlagður eldsneytisstyrkur til norskra rækjubáta í fyrra 22,3 milljónir norskra króna, jafnvirði 282 milljóna íslenskra króna.

Fjármagna skipakaup

Vegna erfiðleika greinarinnar ákváðu norsk stjórnvöld að innleiða sérstakan rekstrarstyrk fyrir línuveiðar á árinu 2025. Er styrkurinn 300 norskar krónur á hver 20 kíló af beitu, að hámarki 200 þúsund norskar krónur á bát, sem er um 2,5 milljónir íslenskra króna.

Norska ríkið býður einnig hagstæða fjármögnun fyrir kaup og smíði fiskiskipa í gegnum sérstakan styrktarsjóð undir merkjum Innovasjon Norge, að því gefnu að helmingur eigenda stundi virka útgerð.

Bátar sem eru minni en 15 metrar geta fengið sjö þúsund norskar krónur í styrk til að fjármagna kaup á lögbundnum tilkynningartækjum eins og útvarpssendum.

Engir styrkir af þeim toga sem nefndir hafa verið eru í boði fyrir útgerðir á Íslandi.

Þá gera norskar útgerðir upp við sjómenn á öðrum forsendum en þær íslensku og þurfa þarlendar útgerðir ekki að standa straum af öllum launatengdum gjöldum eins og hér.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson