UMFJÖLLUN
Árni Matthíasson
arnim@mbl.is
Hljómsveitakeppnin Músíktilraunir hefst í Norðurljósasal Hörpu í kvöld, en þá keppa fyrstu tíu hljómsveitirnar af 42 sem keppa að þessu sinni. Undankeppninni verður svo haldið áfram næstu kvöld, en úrslitin verða sunnudaginn 6. apríl.
Helstu verðlaun tilraunanna eru hljóðverstímar, sem veittir eru fyrir fyrsta og annað sæti, en hljómsveitin í þriðja sæti fær tíma í æfingarými Tónhyls tónlistarklasa. Sigursveitin hreppir líka flugmiða auk fleiri verðlauna og er boðið að spila á helstu tónlistarhátíðum landsins. Einnig eru veitt verðlaun fyrir hljóðfæraleik, söng og textagerð.
Tilraunirnar voru fyrst haldnar 1982 og svo árlega upp frá því nema þegar brast á með kennaraverkfalli 1984 og covid-19 2020.
Á hverju undankvöldi velur salur eina hljómsveit áfram í úrslit og dómnefnd eina. Dómnefnd bætir svo í úrslit hljómsveitum sem stóðu sig vel í undankeppninni en komust ekki í úrslit þá. Úrslitakvöldið velur dómnefnd ein vinningssveitir, en áheyrendur kjósa Hljómsveit fólksins í símakosningu.
Öllum hljómsveitum og tónlistarmönnum sem komast í úrslitin býðst að taka þátt í nýliðanámskeiðinu Hitakassanum, sem haldið er í samvinnu við Útón og Tónlistarborgina Reykjavík.
Dómnefnd Músíktilrauna skipa ofanritaður, Arnar Eggert Thoroddsen, Hildur Kristín Stefánsdóttir, Hildur Guðný Þórhallsdóttir, Hrafnkell Örn Guðjónsson, Kristján Kristjánsson og Sóley Stefánsdóttir.
Tónlistin sem hljómsveitirnar leika er fjölbreytt að vanda, en heldur meira er af rokki en verið hefur undanfarin ár og umtalsvert fleiri stúlkur eru með en áður.
Eins og getið er verður undankeppnin háð í Norðurljósasal Hörpu 27., 28., 29. og 30. mars og hefst kl. 19.30 öll kvöldin.
Fimmtudagur 27. mars
Bjarki Berg Bjarki Berg er frá Akranesi. Hann syngur og styðst við playback og lýsir tónlistinni sem blöndu af poppi og rappi.
Ann Lemon Ann Lemon frá Reykjavík er skipuð Ísaki Erni Kjartanssyni á gítar, Sölva Martinssyni Kollmar á bassa, Benedikt Bjarti Sverrissyni á gítar og Karen Rut Guðmundsdóttur á trommur. Ísak og Benedikt skipta með sér söngnum. Þeir félagar lýsa sér sem skúra-rokk amateurs.
Bíóborg Úr Hafnarfirði kemur Bíóborg, þar sem Eiríkur Kúld Viktorsson leikur á gítar og syngur og Árni Dagur Andrésson spilar á bassa og syngur einnig. Þeir Árni og Eiríkur hafa spilað saman með hléum frá árinu 2017, en Bíóborg varð til sumarið 2023.
Nógu gott Nógu gott úr Reykjavík skipa Rögnvaldur Örn Baker á gítar, Jóhanna Andrea Magnúsdóttir á gítar, Aliza Kato á bassa, Ísak Evan Distance á trommur og Helgi Gröndal Victorsson sem sér um sönginn. Sveitin varð til eftir sýningu á Barbie-myndinni árið 2023 og liðsmenn lýsa tónlistinni sem einhvers konar funky/rokk/grunge (frunge).
Daníela Ehmann Úr Garðabæ kemur Daníela Ehmann, þar sem Daníela Ehmann sjálf syngur og spilar á rafgítar. Hún hefur verið að semja lög í meira en áratug og gaf út fyrsta lagið á Spotify árið 2019. Hún segir sanngjarnast að lýsa sér sem singer-songwriter.
Wendigo Wendigo frá Selfossi er skipuð Hrafnari Jökli Kristinssyni, Silju Lind Jónsdóttur, Gísla Frey Sigurðssyni, Jökli Smára Birgissyni, Þórunni Hafdísi Stefánsdóttur og Fannari Valbergi Valdimarssyni, en ekki kemur fram hver gerir hvað. Það kemur þó fram að sveitin spilar þungarokk og hefur gert það í hálft ár.
Dóra & Döðlurnar Dóra & Döðlurnar snúa aftur í Músíktilraunir, en þær kepptu 2021, 2022 og 2023, þegar þær lentu í þriðja sæti. Þær eru Bára Katrín Jóhannsdóttir á gítar og söng, Guðrún Ýr Guðmundsdóttir á gítar og söng, Hekla Sif Sævaldsdóttir á trommur, Helga Sigríður E. Kolbeins á píanó, Auður Árnadóttir á hljómborð og söng, og Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir á bassa. Þær segjast spila mestmegnis popp/rokktónlist með einlæga og hráa texta.
j. bear & the cubs Í j. bear & the cubs frá Hafnarfirði syngur Jasper Matthew Bunch og leikur á úkúlele, Óðinn Ýmisson spilar á trompet og syngur bakraddir, Sigurður Már Gestsson spilar á bassa og Sindri Þór Atlason spilar á trommur og hljómborð. Jasper hefur sungið einn og í kór alla ævi og lært á nokkur mismunandi hljóðfæri gegnum árin.
Spiritual Reflections Hin framsækna þungarokkssveit Spiritual Reflections frá Reykjavík er skipuð Arnari Smára Sigurðssyni á trommur, Önnu Fanneyju Kristinsdóttur sem syngur, Arnari Svani Huldarssyni á gítar og syngur líka og Árna Hrafni Hrólfssyni á bassa.
Murder for Profit Frá Kópavogi kemur rokk/metalhljómsveitin Murder for Profit, sem er skipuð Emil Atlasyni á gítar, Þorgeiri Atla Kárasyni á trommur, Ívari Mána Hrannarssyni sem syngur og Antoni Bjarma Björnssyni á bassa. Þeir sækja innblástur til fjölmargra hljómsveita í nu-metal og progressive rock-senunni.
Föstudagur 28. mars
Lucasjoshua Lucasjoshua frá Reykjavík er sólóverkefni þar sem Lucas Joshua Snædal Garrison sér um söng og notar tölvu við flutninginn.
Hvffi Hvffi úr Reykjavík er Hafþór Brynjar Ívarsson, söngvari og rappari, en Gunnar Karl Vignisson smíðar takta. Lögin sem þeir flytja eru partur af verkefni sem hefur verið í vinnslu í næstum ár og textarnir lýsa leið Hafþórs í leitinni að sjálfum sér.
Hafaldan Hljómsveitin Hafaldan frá Reykjavík er skipuð Hálfdáni Aroni Hilmarssyni á hljómborð sem syngur líka, Kára Gíslasyni á hljómborð, Stíg Grendal Sævarssyni á trommur, Ásgeiri Helga Ásgeirssyni og Gunnari Jónssyni á rafmagnsgítara og Viktori Þorvarði Steinarssyni á bassa.
Þögn Stelpupönkhljómsveitin Þögn frá Vestmannaeyjum er skipuð Aðalbjörgu Andreu Brynjarsdóttur á trommur, Örnu Gunnlaugsdóttur og Lindu Vernharðsdóttur á gítar, Júlí Sigurjónsdóttur á bassa og Maríu Fönn Frostadóttur sem sér um söng. Sveitin var stofnuð í nóvember 2023.
Ari Smárason Ari Smárason frá Reykjavík kemur fram einn og spilar á gítar og syngur. Hann lýsir tónlistinni svo: „Smá glamur á gítarinn og vægur söngur með.“
Borgir Úr Borgarnesi koma Borgir, þar sem Atli Snær Júlíusson og Julian Golabek spila á gítar og syntha, og Hörður Gunnar Geirsson sér um söng. Borgir spila aðallega noiserock/instrumental tónlist og nota mikið af gítar og synthum í lögunum. Þeir hafa verið saman í 1-2 ár.
Impazzive Impazzive frá Selfossi samanstendur af Erni Breka Siggeirssyni á söng og bassa, Hrafnari Jökli Kristinssyni á lead-gítar og söng, Ingólfi Brynjari Ingólfssyni á rytmagítar og Jökli Smára Birgissyni á trommur. Impazzive er nu/groove/thrash metal-hljómsveit sem hefur þróast úr pönki yfir í þungarokk.
Big Band Eyþórs Í Big Band Eyþórs frá Akureyri eru Eyþór Alexander Hallsson á hljómborð og raddir, Gunnar Hrafn Kristjánsson, Heimir Steinn Vigfússon og Þorsteinn Jónsson á söng (Þorsteinn einnig á trommur), Guðmundur Brynjar Þórarinsson og Eberg Óttarr Elefsen á trompet, Leifur Már Jónsson á bassa, Kjartan Hugi Rúnarsson á altsaxófón, Ýmir Haukur Guðjónsson á tenórsaxófón og Þórhallur Forni Halldórsson á baritónsaxófón. Sveitin er tilraunaverkefni til að spila tónlist Eyþórs Alexanders á tónleikum í fyrsta skipti með það að markmiði að koma með eitthvað nýtt og spennandi í Músíktilraunir.
Splitting Tongues Splitting Tongues er skipuð Sindra Þór Atlasyni á trommur og söng, Arnari Má Víðissyni á gítar og söng og Sigurði Má Gestssyni á bassa. Splitting Tongues spilar samsetningu af grindcore, hardcore og goregrind. Hljómsveitin var stofnuð í mars 2024 með þá stefnu að spila hraða og ákafa tónlist.
Undur Sviðsnafnið Undur stendur fyrir Urði Óliversdóttur frá Reykjavík, sem spilar á gítar, syngur og vinnur með tölvu í flutningnum. Undur flytur experimental, indí raftónlist, spilar stundum á gítar og syngur, allt í bland eða hvað í sínu lagi. Urður er að taka þátt í Músíktilraunum í annað skipti.
5K 5K er af höfuðborgarsvæðinu. Sveitina skipa Guðrún Lilja Dagbjartsdóttir á hljómborð og söng, Jarún Júlía Jakobsdóttir og Eydís Ósk Sævarsdóttir á hljómborð, Anna Birna Ingadóttir á gítar, Þóra Fanney Hreiðarsdóttir á gítar og söng, Freydís Klara Halldórsdóttir á söng, Leela Lynn Arni Stefánsdóttir á bassa og Logi Hjörvarsson á trommur. Þau kynntust öll í tónlistarskóla og hafa haldið hópinn síðan. Þau semja og spila mest mainstream-popp sem þau fíla sjálf.