Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Menningar- og íþróttaráð Reykjavíkur hefur samþykkt að hefja vinnu við uppfærslu forgangsröðunar í uppbyggingu íþróttamannvirkja í samræmi við gildandi stefnu í íþróttamálum höfuðborgarinnar til ársins 2030.
Eins og gefur að skilja er mikill áhugi forystumanna íþróttafélaganna á því að fá ný mannvirki fyrir sín félög og mikill þrýstingur settur á kjörna fulltrúa borgarinnar. Miklir fjármunir eru settir í þennan málaflokk sem sést best á því að fyrir fimm árum var síðast forgangsraðað. Þá voru talin upp 18 verkefni sem áttu að kosta samtals tæplega 20 milljarða króna miðað við verðlag þess tíma.
Á fundi menningar- og íþróttaráðs hinn 14. mars sl. var kynnt samantekt um stöðu forgangsröðunar á uppbyggingu íþróttamannvirkja, í samræmi við samþykkt borgarráðs sem gerð var fyrir nærri fimm árum eða í september 2020.
Yfirlitið leiðir í ljós að aðeins eitt af þeim átján verkefnum sem þar voru samþykkt er í raun komið til framkvæmda, þ.e. gervigrasvellir Þróttar í Laugardal. Þeir voru númer þrjú á forgangslistanum.
Forgangsröðun verkefna
Listinn um forgangsröðun verkefna frá árinu 2020 lítur þannig út:
1. Stækkun á fimleikahúsi – Fylkir Kostnaður 600 milljónir. Ekki komið af stað ennþá. Viðræður hafa verið í gangi við eigendur hússins um stækkun en fermetraverð er hátt og samningar ekki tekist.
2. Íþróttahús í Laugardal Ekki risið. Þjóðarhöll er ætlað að leysa vanda félaganna í Laugardal varðandi tíma fyrir æfingar og keppni.
3. Gervigrasvellir í Laugardal – Þróttur 600 milljónir. Lokið.
4. Fimleikahús – Breiðholt 2.000 milljónir. Dans- og fimleikahús er ennþá á hugmyndastigi en verið er að klára áfangaskýrslu með sviðsmyndum. 2.700 mkr. í fimm ára áætlun. Lokið árið 2029.
5. Fjölnota knatthús KR 1.200 milljónir. Hönnun er í fullum gangi og viðræður við KR um fjármögnun. 2.500 mkr. í fimm ára áætlun. Á að ljúka árið 2027.
6. Skautahöll, viðbygging 1.000 milljónir. Samtal er í gangi við ÍBR og skautahreyfinguna. Verið er að vinna nokkrar sviðsmyndir. Ekki á fimm ára áætlun.
7. Keilusalur. 400 milljónir Engin ákvörðun verið tekin um staðarval. Er ekki á fimm ára áætlun
8. Fylkisvegur, endurbætur 300 milljónir. Ekkert sem liggur fyrir. Er ekki á fimm ára áætlun.
9. Tennishús í Laugardal 1.500 milljónir. Starfshópur var í gangi, búið að gera útlitsteikningar. Er ekki á fimm ára áætlun.
10. Aðstaða fyrir jaðaríþróttir 600 milljónir. Búið að selja Toppstöðina. Þar væri hægt að koma inn Klifurfélaginu og jafnvel Brettafélagi Rvk. Skoða má að nota söluandvirði í nýtt hús fyrir jaðaríþróttir.
11. Frjálsíþróttavöllur í Laugardal 800 milljónir. Viðræður í gangi við ríkið um þjóðarleikvang. Búið að stofna verkefnahóp. Ekkert fjármagn á fimm ára áætlun.
12. Siglingaaðstaða 200 milljónir. Ekkert fjármagn á fimm ára áætlun.
13. Knatthús (1/2) – Valur 1.200 milljónir. Starfshópur í gangi um uppbyggingu fjölnotahúss og parkethúss. Fjármögnun í gegn um sölu byggingarréttar.
14. Knatthús (1/2) – Fram 700 milljónir. Fullnaðarhönnun í gangi. 1.500 mkr. á fimm ára áætlun. Á að vera lokið 2028.
15. Íþróttahús KR. 2.000 milljónir Ekkert sem liggur fyrir. Er ekki á fimm ára áætlun.
16. Víkin (Víkingur) endurbætur 1.800 milljónir. Starfshópur verið í gangi í nokkur ár. Búið að gera skýrslu með sviðsmyndum. Skoða á eignarhald á mannvirkjum.
17. Knatthús (1/2) – Leiknir 900 milljónir Ekkert sem liggur fyrir. Er ekki á fimm ára áætlun.
18. Íþróttahús – Valur 2.500 milljónir. Starfshópur í gangi um uppbyggingu fjölnotahúss og parkethúss. Fjármögnun í gegnum sölu byggingarréttar. Verið að skoða eignarhald á mannvirkjum.
Við afgreiðslu samantektarinnar voru lagðar fram bókanir fulltrúa í menningar- og íþróttaráði.
Fulltrúar meirihlutans, Samfylkingar, Pírata og Vinstri-grænna, lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Eins og fram kemur í minnisblaði um stöðu einstakra verkefna á forgangslista uppbyggingar íþróttamannvirkja í borginni þá er einu verkefni lokið og þrjú til viðbótar i fyrsta forgangi í skýrum farvegi með fjármagn tryggt í fjárfestingaráætlun og undirbúningur framkvæmda vel á veg kominn. Fimm verkefni til viðbótar eru komin á góðan rekspöl. Í öðrum tilvikum er unnið að útfærslu og undirbúningi sem er mislangt á veg kominn eftir verkefnum.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bókuðu meðal annars:
„Yfirlitið sýnir að aðeins eitt af þeim átján verkefnum sem þar voru samþykkt er í raun komið til framkvæmda, þ.e. gervigrasvellir í Laugardal, sem voru númer þrjú á forgangslistanum. Þegar svo illa hefur verið staðið við samþykkta forgangsröðun frá 2020 vaknar sú spurning hvaða tilgangi uppfærsla á henni eigi að þjóna. Líklega er tilgangur meirihlutans sá að búa til nýja afsökun fyrir slælegri frammistöðu í uppbyggingarmálum íþróttamannvirkja með því að setja þessi mál í enn eitt ferlið og stofna enn einn starfshópinn.“
Ný forgangsröðun
Sem fyrr segir á nú að hefja vinnu við forgangsröðun íþróttamannvirkja til 2030 og hefur verið stofnaður stýrihópur um verkefnið. Hlutverk hópsins er að uppfæra forgangsröðun uppbyggingar íþróttamannvirkja í Reykjavík ásamt því að koma með tillögur að nýjum verkefnum.
Leitað verði eftir sjónarmiðum íþróttafélaganna í Reykjavík, jafnt hverfisíþróttafélaga sem sérgreinafélaga.
Stýrihópinn skipa borgarfulltrúarnir Skúli Helgason og Stefán Pálsson og fulltrúar Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR), Ingvar Sverrisson og Viggó H. Viggósson. Verkefnisstjóri er Jakob Leó Bjarnason frá ÍBR. Stýrihópurinn skili tillögum fyrir lok ágúst 2025.