[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kanadíski knattspyrnumaðurinn Alphonso Davies verður frá næstu 9-10 mánuðina eftir að hann sleit krossband í hné í landsliðsverkefni. Davies fór af velli á 12. mínútu í 2:1-heimasigri Kanada á Bandaríkjunum síðasta sunnudagskvöld og var strax ljóst að meiðslin gætu verið alvarleg

Kanadíski knattspyrnumaðurinn Alphonso Davies verður frá næstu 9-10 mánuðina eftir að hann sleit krossband í hné í landsliðsverkefni. Davies fór af velli á 12. mínútu í 2:1-heimasigri Kanada á Bandaríkjunum síðasta sunnudagskvöld og var strax ljóst að meiðslin gætu verið alvarleg. Hann er 24 ára bakvörður sem leikur með Bayern München. Félagið greindi frá í gær og sagði einnig frá meiðslum miðvarðarins Dayots Upamecanos, sem verður frá næstu vikurnar vegna hnémeiðsla.

Handknattleiksmarkvörðurinn Silje Solberg-Östhassel leikur ekki íþróttina næstu mánuði þar sem hún á von á sínu öðru barni. Solberg-Østhassel vann fjölmörg stórmót með Noregi, undir stjórn Þóris Hergeirssonar, en Þórir hætti með norska liðið eftir EM í lok síðasta árs. Markvörðurinn lék síðast með Kristiansand, áður en félagið varð gjaldþrota í byrjun árs en hún er 34 ára gömul.

Spjótkastarinn Arndís Diljá Óskarsdóttir fagnaði sigri á Hurricane Invitational-mótinu í Flórída í Bandaríkjunum um síðustu helgi. Arndís kastaði lengst 51,07 metra og bætti sig um tæplega tvo metra. Aðeins þrjár íslenskar konur hafa kastað lengra en Arndís en Ásdís Hjálmsdóttir á Íslandsmetið í greininni sem er 63,43 metrar.

Heimsmeistarar Argentínu í knattspyrnu karla tryggðu sér í fyrrinótt sæti á HM 2026 í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó með öruggum heimasigri á erkifjendunum í Brasilíu, 4:1, í undankeppni Suður-Ameríku. Julián Álvarez, Enzo Fernández, Alexis Mac Allister og Giuliano Simeone skoruðu mörk Argentínu og Matheus Cunha mark Brasilíu. Sjö þjóðir af 48 hafa tryggt sér keppnisrétt á HM 2026. Ásamt gestgjöfunum og heimsmeisturunum eru Japan, Nýja-Sjáland og Íran búin að tryggja sæti sín.

Liam Lawson hefur verið látinn fara frá Formúlu 1-liði Red Bull eftir aðeins tvær keppnir. Lawson kom til Red Bull í stað Sergios Pérez eftir síðasta tímabil. Yuki Tsunoda mun taka sæti Lawsons, sem verður færður niður í systralið Red Bull, Racing Bulls.

Elliði Snær Viðarsson, landsliðsmaður í handknattleik, meiddist á hné í leik með félagsliði sínu Gummersbach gegn Melsungen í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar á þriðjudagskvöld. Eyjamaðurinn tognaði á liðbandi og verður af þeim sökum frá keppni í nokkrar vikur.