Anna Kristín Arngrímsdóttir fæddist 16. júlí 1948 á Böggvisstöðum í Svarfaðardal. Hún lést á Háskólasjúkrahúsinu í Las Palmas á Spáni 7. febrúar 2025.
Foreldrar hennar voru Arngrímur Sigurjón Stefánsson rennismiður, f. 15. júlí 1920, d. 23. maí 2008, og Kristjana Margrét Sigurpálsdóttir saumakona, f. 16. maí 1921, d. 22. júlí 2010. Systkini Önnu Kristínar eru Sigrún Pálína, f. 15. maí 1943, Kolbrún, f. 19. des. 1944, drengur, f. 2. des. 1945, d. 2. des. 1945, Margrét, f. 25. des. 1946, d. 29. nóv. 2004, Stefán, f. 16. mars 1951, d. 27. jan. 2014, Einar, f. 2. júní 1955, Örn, f. 16. maí 1959, Kristjana, f. 16. mars 1961.
Fyrrverandi eiginmaður Önnu Kristínar var Gísli Magnús Garðarsson, f. 11. júlí 1945, d. 17. júlí 2022. Börn þeirra eru þrjú: 1) Garðar Svavar viðskiptafræðingur, f. 2. júní 1969, maki Hildur Aðalsteinsdóttir. 2) Brynja Valdís leikkona, f. 6. júní 1973, maki Stefán Sigurjónsson. 3) Matthildur Anna píanóleikari, f. 28. júlí 1983, maki Hringur Gretarsson. Barnabörnin eru þrjú: Kristjana Hildur Garðarsdóttir, Gísli Vilhelm Garðarsson og Hjörtur Hringsson. Núverandi sambýlismaður Önnu Kristínar er Úlfar Þormóðsson rithöfundur, f. 19. júní 1944.
Anna Kristín ólst upp á Dalvík en flutti suður til Reykjavíkur og fór í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur eftir landspróf 1965, nýorðin sautján ára, og lauk þaðan prófi 1968. Hún hóf í raun leiklistarferilinn áður en hún útskrifaðist þegar hún lék í fyrsta íslenska sjónvarpsleikritinu, Romm handa Rósalind eftir Jökul Jakobsson. Eftir námið lék hún hjá Leikfélagi Reykjavíkur til ársins 1973 þegar hún réðst til Þjóðleikhússins. Þar starfaði hún allt til ársins 2011.
Anna Kristín starfaði alla sína ævi við leiklist og lék ótal hlutverk og afar fjölbreytt á löngum og farsælum ferli. Af leikritum má m.a. nefna Hitabylgju, Ímyndunarveikina, Með vífið í lúkunum, Amadeus, Vesalingana, Náttbólið, Lé konung, Stór og smár, Silfurtunglið, Oresteiu Æskýlosar, Þrek og tár, Mávinn og Kæru Jelenu. Af leikverkum utan Þjóðleikhússins má nefna Master Class – María Callas á sviði Íslensku óperunnar, Ferjuna í Borgarleikhúsinu, Róðarí og Ég lifi enn í Tjarnarbíói. Hún var einnig virkur meðlimur 50+ leikhópsins.
Á leikferlinum lék hún í á annað hundrað útvarpsverka auk kvikmynda- og sjónvarpsverkefna. Anna Kristín var tilnefnd til menningarverðlauna DV og hlaut Stefaníustjakann fyrir störf sín í leiklist.
Anna Kristín elskaði náttúruna, naut sín í golfi með vinkonum sínum og var mikill bókmennta- og ljóðaunnandi.
Útför Önnu Kristínar fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 27. mars 2025, klukkan 15.
Athöfninni verður streymt á www.streyma.is. Hlekk á streymi má einnig nálgast á www.mbl.is/andlat.
Tilveran er breytt og tómleg án þín elsku fallega mamma mín. Orð fá því ekki lýst því hversu mikið ég sakna þín og hversu þakklát ég er fyrir tímann okkar saman. Ég sakna nærveru þinnar og samtala, blíðu augnanna þinna, fallega brossins og hlýju faðmlaganna. Þú varst hæfileikarík og listræn fram í fingurgóma, vel lesin, ansi lunkin í vísnagerð, ræktaðir blómin þín af natni og slóst golfkúluna af miklum krafti. Svo varstu uppáhaldsleikkonan mín.
Lífskrafturinn þinn og styrkur var aðdáunarverður, þú gafst svo mikið af þér í lífi og starfi. Þú varst besta móðir sem hægt er að hugsa sér og mín kærasta vinkona. Þú varst alltaf til staðar þegar á reyndi og það skein í gegn í orðum og gjörðum alla tíð, hversu heitt þú elskaðir okkur börnin þín og lést okkur alltaf finna hversu stolt þú varst af okkur. Minning: Ég er sex ára á leið í Ísaksskólann. Stundum kveið ég því að mæta. Tími var að hefjast og þú að verða sein í vinnuna út af mér. En alltaf gafstu þér tíma og sýndir skilning. Með glettni þinni og hvatningu náðirðu fram brosi, rétt áður en ég trítlaði innskeif í tíma, örlítið hugrakkari. Þú varst kletturinn minn og fyrirmynd, því þú varst heil og góð manneskja. Með fallega hjartalagi þínu, sem einkenndist af heiðarleika, víðsýni og náungakærleika, sástu það besta í öllum og varst fljót að taka upp hanskann fyrir þá sem minna máttu sín. Þú varst svo skemmtileg, það sem við gátum hlegið og fíflast og smitandi ættarhláturinn þinn og húmor gat snúið verstu fýlupokum í gott skap.
Þú fékkst þínar áskoranir og djúpa dali í lífinu, en hélst áfram þótt á móti blési og kenndir manni að meta það sem maður hefur, hafa húmor fyrir lífinu, vera bein í baki og áfram gakk! Og það gerðir þú mamma mín, staðráðin í að fylgja draumum þínum, þegar þú níu ára gömul skrifaðir á frostrósir á gluggann heima í Ásbyrgi: „Ég ætla að verða leikkona.“ Það rættist nú aldeilis úr því, því ástríðan þín, metnaður og hæfileikar skiluðu sér á leiksviði, í kvikmyndum og í sjón- og útvarpi, þar sem þú lékst af lífi og sál í áratugi og túlkaðir eftirminnilegar persónur. Leikritið Kæra Jelena, er mér mjög minnisstætt. Mjög tilfinningaþrungið verk þar sem þú lékst kennslukonuna Jelenu árið 1991. Þvílíkur leiksigur. Þegar sýningu lauk mátti heyra saumnál detta, svo magnþrungið andrúmsloft var í salnum. Eftir þónokkra stund, stóðu gestir á fætur og út braust allsherjar þungt og ástríðufullt klapp frá öllum salnum og gestir kölluðu bravó! Ég hugsaði með stolti í hjarta: „Vá, þetta er mamma mín!“ Já, þú snertir hjörtu margra mamma mín og hreifst fólk með þér, bæði á sviði og utan þess. Það eru mikil verðmæti að hafa fengið að sprikla með þér í gegnum lífið og upplifa ýmis ævintýr, horfa á þig frá barnæsku og dást að þér í listinni, öll ferðalögin innan- og utanlands, göngutúra, sund- og fjöruferðir, notið okkar á listviðburðum, dansað og sungið, kúrt, knúsað, grátið og hlegið. Allar þessar dýrmætu minningar og fleiri til mun ég geyma í huga og hjarta mínu. Að hlusta á útvarpsleikritin, ljóðaupplestra og sögur úr útvarpinu, horfa á þætti og bíómyndir sem þú lékst í og eiga fjölda ljósmynda og fjölskyldumyndbanda mun ylja mér um hjartarætur og varðveita minningu þína. Þú varst og verður alltaf glitrandi stjarnan mín og leiðarljósið í lífi mínu. Ég elska þig að eilífu.
Þín dóttir,
Brynja Valdís.
Hjartans fallega systir mín. Nú skrifa ég til þín eins og ég gerði forðum daga, en nú fæ ég engin svör. Margar minningar seytla upp á yfirborðið er ég hugsa til þín. Við sátum sem oftar hvor á móti annarri og skoðuðum gamlar ljósmyndir. Við ljómuðum í framan og hlógum og táruðumst til skiptis. Ó manstu, manstu. Við ólumst upp á Dalvíkinni okkar góðu átta systkini. Þá var nú fjör á Fróni. Dag nokkurn ákvað ég að fara með þig í göngutúr í góða veðrinu. Ég var átta ára en þú fjögurra ára. Fjaran hafði mikið aðdráttarafl, stór og falleg. Þar söfnuðust krakkar saman í alls konar leiki því nú var komið sumarfrí í skólanum. Á leiðinni niður í fjöru hélt ég fast í litlu höndina þína og við spjölluðum saman. Ég var að æfa þig í að segja nafnið þitt. Það stóð ekki á svarinu: ég heiti Anna Dindín sagði hún ákveðin. Eitt sinn sem oftar fór ég með ykkur litlu systkinin í berjamó. Við áttum helst að fylla föturnar af bláberjum. Þú varst orðin þreytt og leið á þessari berjatínslu. En þá greipst þú til þess ráðs að láta lambaspörð í hálfa fötu og fylla með bláberjum. Manstu svipinn á mömmu þegar hún fór að hreinsa berin? Hún hló að uppátækinu en pabbi fékk þessi fínu bláber út á skyrið. Löngu seinna var ég komin til Reykjavíkur og farin að vinna í miðbænum. Um sumarið fór ég norður að heimsækja fjölskylduna. Þá kom í ljós að þú litla systir mín 17-18 ára varst á leiðinni í Leiklistarskólann. Að sjálfsögðu bjóstu hjá mér þar sem ég leigði rúmgott herbergi hjá góðri konu. Það var svo gott að hafa þig hjá mér. Þegar ég skrifa þessar línur flýgur hugurinn enn og aftur til áranna er við vorum ungar meyjar að spóka okkur í miðbænum á góðum degi. Vel málaðar og flott klæddar. Stelpur að norðan. Ég sé okkur fyrir mér fyrir utan Klúbbinn sem var vinsæll skemmtistaður og Haukur Morthens aðalstjarnan. Þú varst of ung til að komast inn en við dóum ekki ráðalausar. Ég málaði þig vel og mikið og til að kóróna verkið var skýluklút skellt á kollinn og stór og mikill hnútur prýddi hökuna. Nú inn komumst við báðar og þar var glaumur og gleði. Við eignuðumst börn og buru á svipuðum tíma og vorum sem ein stór fjölskylda. Þú varst þá orðin stórkostleg leikkona og dáð af mörgum. Ég var afar stolt af þér og fór á flestar sýningar þar sem þú varst í ýmsum hlutverkum. Ósköp yrði einmanalegt í heiminum ef maður vissi ekki af systur sinni einhvers staðar. Hversu langt sem er á milli okkar, elsku systir mín, þá eru tengslin milli okkar órjúfanleg. Ég kveð þig með tárum og sorg í hjarta elsku best Anna Dindín mín og held áfram í litlu höndina þína. Ég bið góðan Guð að hugga og sefa sorg ykkar elsku Úlfar, Garðar, Brynja og Matthildur ásamt mökum, barnabörnum og systkinum. Þar til við sjáumst síðar hjartans systir mín.
Orð
Ég heyrði orð einn daginn
og orðið hljómaði eins og tónlist
það sat gamall maður við hlið mér
og úr munni hans hljómaði þetta orð.
Þetta orð var ævi gamals manns.
(Kolbrún Arngrímsdóttir)
Þín saknandi
Kolbrún (Kolla).
Elsku yndislega Anna Stína. Þegar við hugsum til þín sjáum við ljóslifandi fyrir okkur fallegu brúnu augun þín, ljúfa brosið og alla hlýjuna sem streymdi alltaf frá þér. Margar eru minningarnar hjá okkur úr æsku þegar þið mamma hittust ósjaldan með okkur gríslingana. Það sem þið gátuð hlegið mikið saman! Systrasamband ykkar var svo fallegt og náið og okkur systrum svo oft til fyrirmyndar. Á þessum árum varstu þú í okkar huga mamma tvö sem alltaf var hægt að leita til. Við vorum líka svo óendanlega stoltar af þér sem þeirri frábæru leikkonu sem þú varst og það sem það var spennandi að fá að laumast baksviðs með mömmu að knúsa þig eftir sýningar.
Þín verður sárt saknað, elsku Anna, en það lifir svo mikið eftir af þér í frábæru börnunum þínum. Elsku Úlfar, Garðar, Brynja og Matthildur, samúð okkar er öll hjá ykkur og fjölskyldum.
Sif og Silja.
Minning þín er mér ei gleymd,
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Mín elskulega mágkona, nú er komið að kveðjustund. Í huga mér kemur fyrst og fremst þakklæti fyrir að fá að kynnast þér, þú ljóssins vera, með fallega brosið, hlýja faðminn og yndislega hláturinn. Svo ekki sé talað um yndislegu samverustundirnar. Það var gott að koma til ykkar Úlfars á Skólavörðustígnum þar sem ég droppaði oft inn. Það var spjallað um heima og geima, við hlógum og gerðum að gamni okkar meðan þú helltir upp á gott kaffi og með því meðan við spjölluðum um allt mögulegt, þar á meðal um andleg málefni sem þú hafðir áhuga á en hélst fyrir þig. Þetta voru góðir tímar og ekki var síður gott að koma á Skúlagötu þar sem þið bjugguð ykkur hlýtt og fallegt heimili enda varstu listamaður mikill.
Þú varst stolt af börnum þínum og barnabörnum og lýstist upp þegar talið barst að þeim. Þeir sem hafa verið elskaðir geta ekki dáið því þeir búa í hjörtum þeirra sem fengu að kynnast þeim.
Oft var stoppað lengur en til stóð enda gaman að vera í návist ykkar. Í síðasta skipti sem ég sá ykkur áður en þið fóruð út í ykkar árlegu ferð til Kanarí þá spurði ég út í heilsuna og þú sagðir að þú hefðir verið óvenju góð lengi.
Ég er þakklát fyrir að stóri bróðir minn hafi kynnst svona stórkostlegri konu, miklum listamanni, skemmtilegri, greindri og dásamlegri. Fljúgðu hátt mín yndislega mágkona, minningu um þig geymi ég í hjarta mínu þar til við hittumst á ný.
Nýjar víddir bíða þín að þessu lífi loknu,
góðar vættir mæta þér með kærleiksljósi hlýju.
Ég hef af og til kíkt þar við en send til baka að nýju.
Þar veit ég að birtan er blíð og
kærleiksróin mikil,
megi allar góðar vættir vernda þig með kærleiksljósi og hlýju.
Þar til við hittumst að nýju.
(Anna Björg Þormóðsdóttir)
Elsku stóri bróðir, Garðar, Brynja Valdís, Matthildur, barnabörn og aðrir ástvinir, ég votta ykkur mína dýpstu samúð ég bið góðar vættir að vaka yfir ykkur í sorg ykkar.
Anna Björg Þormóðsdóttir.
Hvenær ætli ég hafi séð Önnu Kristínu fyrst? Fráfall hennar kom á óvart en þannig er það oftast þegar andlát ber að höndum og þá ekki síst þegar einhver sem manni þykir vænt um fellur frá, jafnvel þótt heilsan hafi verið tvísýn í langan tíma. Það var Úlfar fornvinur minn sem bauð mér heim til sín á Skólavörðustíginn og þar kynntist ég Önnu Kristínu fyrst. Ég hafði séð hana mörgum sinnum áður en aldrei fengið tækifæri til að kynnast henni. Og þá kemur upp spurningin hér á undan, sem skaut upp í huga minn við andlát hennar. Hvenær sá ég hana eiginlega fyrst? Var það í sjónvarpsmyndinni „Romm handa Rósalind“ eftir Jökul Jakobsson eða var það kannski í leikritinu „Hitabylgja“ sem sýnt var á fjölunum í Iðnó hér fyrir mörgum áratugum? Ég veit enn ekki svarið, en hitt man ég að Anna Kristín Arngrímsdóttir var eftir þessi fyrstu skref í leiklistinni ein af dáðustu leikkonum landsins. Hún öðlaðist þann sess strax og hélt honum ætíð síðan. Það er eitt að sjá einhvern og annað að kynnast og ég verð ætíð þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast Önnu Kristínu á lífsleiðinni.
Við Kristín þökkum fyrir allar skemmtilegu stundirnar í sólinni fyrir sunnan, þær stundir með Önnu og Úlla voru ógleymanlegar, skemmtilegar og gefandi. Nú hefur Anna Kristín kvatt okkur og er farin kannski til Dalvíkur þar sem rætur hennar lágu, en á þeim fagra stað ákvað lítil hnáta að læra að verða leikkona og helga sig þar með listagyðjunni alla ævi. Það ævintýri tókst svo um munar. Góða ferð kæra vinkona og við Kristín biðjum að heilsa.
Hrafn Magnússon.
Látin er ein af aðalleikkonum Þjóðleikhússins undanfarna áratugi, Anna Kristín Arngrímsdóttir.
Anna Kristín stundaði nám í Leiklistarskóla Leikfélags Reykjavíkur á sjöunda áratugnum í hópi margra mjög efnilegra leiknema. Eigi að síður þóttumst við sem þar kenndum sjá að í fari þessarar ungu Dalvíkurstúlku bjó eitthvað sérstakt. Nú eru slíkir dómar ekki einhlítir, því að margur sýnir í fyrstu ferð það sem hann hefur fram að færa á sviðinu. En Anna Kristín óx með náminu.
Og það gekk eftir. Hún tók þátt í hinu merkilega hópefli í „studio“ Leikfélagsins, Litla leikfélaginu, og brátt var þessi byrjandi kominn í burðarhlutverk hjá Leikfélaginu, hlutverk eins og Kathie í Hitabylgju sem fjallaði um kynþáttamismunun og Ástu í afmælissýningu Leikfélagsins 1972 á Útilegumönnum séra Matthíasar. Og hún lék aðalkvenhlutverkið á móti Þorsteini Ö. Stephensen í fyrsta leikritinu sem samið var sérstaklega fyrir íslenska sjónvarpið; höfundur var Jökull Jakobsson.
Ári síðar söðlaði hún um og réðst til Þjóðleikhússins sem hún helgaði síðan starfsferil sinn, vinsæl og virt. Kom þar til annars vegar hógvær en elskulegur persónuleiki leikkonunnar, hins vegar einlægni hennar og upprunaleiki á sviðinu.
Nú komu hlutverkin hvert af öðru, stór og smá. Hún var burðarás þegar leikhópurinn í heild sýndi hvers hann var megnugur, eins og í sýningunum á Náttbólinu og Sumargestum eftir Gorki. En einstök leikafrek verða einnig minnisstæð. Hún bjó yfir hreinleikanum sem er kjarninn í Silfurtúnglinu hjá Laxness, en ekki voru eins hreinar í hjarta tæfurnar Goneril og Regan eins og þær Kristbjörg og Anna Kristín lýstu þeim hjá Lé konungi föður sínum. Anna gat brugðið upp kostulega kómískum myndum úr Reykjavíkurlífinu eins og sem Dolly í Súkkulaði handa Silju eftir Nínu Björk Árnadóttur eða öllu dýpri tilvísun sem kennslukonan í Kæra Jelena. Hún bjó yfir þeim ljóðræna þokka sem þurfti til að gera heillandi framandleikann í Kabúki-leikjunum Kirsiblóm á Norðurfjalli, sem þeir Helgi Hálfdanarson og Haukur Gunnarsson færðu okkur. Óþarfi er að gleyma stórbrotinni frammistöðu og allt annars konar sem nútímakonan í leikriti Bothos Strauss, Stór og smár. Eða hinni ægilegu alltsjáandi Elektru í Orestieu Æskýlosar.
Anna hafði ágæta söngrödd sem nýttist vel á sviðinu, hún talaði falllega íslensku sem kom sér vel í leikjum með bundnu máli og hún var rómaður upplesari.
Sá sem hér heldur á penna naut þeirrar ánægju að vinna oft með Önnu Kristínu. Hún var þeirrar tegundar sem kröfuharðir leikstjórar oftlega óska sér, sakir þess hversu sveigjanlegir hæfileikar hennar voru og hversu auðvelt hún átti með að tileinka sér nýja hugsun eða nýja tifinningu byggða á upprunalegri innlifun leikkonunnar sjálfrar.
Mig langar að segja hér eina litla sögu.
Við vorum að æfa Fedru eftir Racine og Anna var fóstran; hún hefur yfir harmaraus, þegar Fedra vill ekki hlíta ráðum hennar. En allt í einu reka leikstjórinn og aðstoðarleikstjórinn upp stór augu. Þarna á gólfinu situr ekki lengur leikkonan Anna Kristín Arngrímsdóttir heldur völva með dökka rödd sem við höfum aldrei heyrt áður og talar við undirdjúpin. Og ljós rennur upp fyrir Fedru.
Launhelgar listarinnar.
Blessuð sé minning Önnu Kristínar Arngrímsdóttur.
Sveinn Einarsson.
Ein af fallegustu stundum sem ég hef upplifað í leikhúsi er þegar Írina Nikolajevna Arkadína dregur rauða tjaldið örlítið frá á miðju sviði Þjóðleikhússins. Hún leiðir leikarahópinn með sér fram fyrir tjaldið og biður alla að hlusta. Leikararnir standa í línu á sviðsbrúninni, horfa út í salinn og gera eins og hún segir – hlusta. Það færist ró yfir og Arkadína dáist að vatninu og dásamar sveitalífið. Hún segir: „Fyrir tíu, fimmtán árum var látlaus söngur og hljóðfærasláttur hér við vatnið á hverju kvöldi eða svo gott sem. Hérna á ströndinni eru sex óðalssetur. Ég man ennþá hláturinn, hávaðann, skothvellina – og allar ástarsögurnar …“ Við hinir leikararnir á sviðinu heillumst, hlustum og sjáum þetta fyrir okkur um leið og við teiknum upp þessa mynd af sveitinni fyrir áhorfendur með upplifun, orðum og túlkun á stóra sviðinu í Þjóðleikhúsinu. Árið var 1993, leikritið Mávurinn eftir Anton Tsjékhof og leikstjórinn Rimas Tuminas. Anna Kristín Arngrímsdóttir leikkona túlkaði Arkadínu leikkonuna sem gustar um í verkinu og kemur úr borginni í sveitina til að hvíla sig með skáldið með sér. Ég var að stíga mín fyrstu skref sem leikkona og þrátt fyrir að ég væri á sviðinu með henni sem unga stúlkan Nína Zarétsjnaja fékk ég alltaf gæsahúð á þessu augnabliki því þessa list kunni Anna Kristín svo vel. Að gera falleg augnablik á sviði enn fallegri.
Við höfðum kynnst vel í kringum annað verk í leikhúsinu, Kæru Jelenu, þar sem hún fór með titilhlutverkið og túlkaði Jelenu af mikilli snilld. Enda varð sýningin vinsæl. Hún var sýnd nærri tvö hundruð sinnum og leikhópurinn fór tvisvar um landið í leikferð á vegum Þjóðleikhússins. Í þannig ferðum kynnist fólk vel og allir þurfa að hjálpast að. Við Anna Kristín greiddum hvor annarri og aðstoðuðum hvor aðra með förðun og búninga. Við vorum talsvert lengi í burtu svo ef við vildum heyra í fjölskyldu og ástvinum urðum við að hafa uppi á símaklefa eða finna símstöð til að hringja því aðrir símar voru ekki á boðstólum. Við röltum um staðina ef tími gafst, oft fundum við kaupfélagið, grömsuðum þar og jafnvel versluðum, fundum góða sundlaug og fengum okkur hollt og gott að borða fyrir átök kvöldsins. Anna Kristín sá til þess. Hún var reynslumikil leikkona sem gott var að leita til og hafa nálægt sér, ég var nýútskrifuð. Í leikhúsinu tókst með okkur vinátta sem hefur varað æ síðan. Við lékum saman í mörgum leikritum. Þrátt fyrir að langt gæti liðið á milli okkar funda voru böndin alltaf sterk og við bjuggum okkur til góðar stundir til að gleðjast.
Við náðum aftur saman á sviðinu fyrir stuttu í leikverkinu Ég lifi enn – sönn saga í Tjarnarbíói. Það urðu fagnaðarfundir og ég fann hvað vinátta okkar var dýrmæt. Þá sá ég líka að hún kunni að varðveita hinn barnslega tón og glettni og nýtti sér það í túlkun þegar henni þótti það eiga við. Alltaf í góðu samtali við leikstjórann. Þannig var Anna.
Ég sakna Önnu og þegar ég frétti af andláti hennar hugsaði ég að heimurinn væri fátækari án hennar.
Aðstandendum votta ég innilegustu samúð.
Halldóra Rósa Björnsdóttir.
Í dag kveðjum við góða vinkonu, Önnu Kristínu Arngrímsdóttur, leikkonu og lífskúnstner. Anna Stína var einstök listakona, stórbrotin manneskja og mikill húmoristi.
Sumar okkar höfðu þekkt hana og unnið með henni áratugum saman, aðrar um skemmri tíma, en hún gerði engan mannamun, heldur var svo dásamlega gefandi og hlý við okkur allar.
Á fundi í haust héldum við sagnakvöld þar sem við rifjuðum upp eftirminnileg augnablik í lífi okkar. Anna Stína sagði frá, á sinn einstaka hátt og af mikilli kímni, veru sinni á Landakoti í gamla daga. Þar lá hún á stofu með fullorðnum konum sem báru sig sumar illa. Og þó að hún væri ekki síður lasin leið ekki á löngu þar til hún var farin að ganga á milli þeirra, hugga þær og spjalla við þær til að hressa þær við. Þegar komið var að því að útskrifa Önnu þá vildu læknarnir helst ekki sleppa henni, hún hafði svo góð áhrif á sjúklingana. Þetta lýsir hennar persónu vel.
Í nóvember síðastliðnum héldum við upp á tíu ára afmæli félagsins okkar, Leikhúslistakonur 50+, á Hótel Holti, allar svo prúðbúnar og fallegar, ekki síst Anna Kristín. Margar myndir voru teknar og hún er geislandi á þeim öllum. Í dag erum við þakklátar fyrir þessa stund.
Við systur hennar í listinni viljum minnast hennar með ljóði, því hún var mikil ljóðaunnandi og flytjandi:
Fyrir þig
Þar sem vegurinn byrjar
er engill til verndar
það vantar á hann
annan vænginn
og höndin sem blessar
vegfarandann
er brotin
engu að síður
legg ég óttalaus af stað
á leiðarenda
lítil kapella
Þar kveiki ég
á hvítu kerti
fyrir þig sem fórst
og gleymdir
að kveðja
ég sem á engan guð
verð að treysta því
að guð þinn
taki mark á kertinu mínu
(Höf. Ingibjörg Haraldsdóttir)
Við sendum aðstandendum hjartans samúðarkveðjur.
Hvíl í friði elsku Anna Kristín.
Kveðja frá Leikhúslistakonum 50+,
Þórey Sigþórsdóttir.