Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Við kynningu tillagna ríkisstjórnar um tvöföldun veiðigjalda var sagt að miðað væri við að sækja aukninguna til stærstu og fjársterkustu sjávarútvegsfyrirtækja landsins. Þrjú stærstu félögin eru skráð á markað og er fjórðungur hlutabréfanna í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Samanlagt verðmæti bréfanna var í gær 97,8 milljarðar króna.
Samkvæmt gengi hlutabréfa á mörkuðum í gær var verðmætasta sjávarútvegsfyrirtækið í Kauphöllinni Síldarvinnslan hf. og nam skráð verðmæti félagsins rúmlega 154 milljörðum króna. Meðal 20 stærstu hluthafa félagsins eru sjö lífeyrissjóðir og fara þeir sameiginlega með 24,31% hlut í félaginu og er því virði hlutabréfa lífeyrissjóðanna í Síldarvinnslunni 37,4 milljarðar króna.
Stærsta staka eign lífeyrissjóðs í Síldarvinnslunni er Gildi með 10,54% og á eftir fylgir Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 3,32%.
Meðal 20 stærstu hluthafa Brims hf. eru átta lífeyrissjóðir og fara þeir með 37,45% hlut í félaginu. Markaðsvirði Brims var í gær 129,8 milljarðar króna og hlutur lífeyrissjóðanna 48,6 milljarða króna virði. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins A-deild er stærsti staki hlutafinn í Brimi meðal lífeyrissjóða og fer með 13,85% hlut. Á eftir fylgir Lífeyrissjóður verzlunarmanna með 10,24%.
Lífeyrissjóðir meðal 20 stærstu hluthafa í Ísfélagi hf. fara síðan með 10,41% hlut í því félagi. Markaðsvirði félagsins var í gær skráð rúmlega 112 milljarðar króna og er virði hlutar lífeyrissjóða því rúmir 11 milljarðar. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er sá sjóður sem er með stærsta hlutinn eða 4,02%, á eftir fylgir Stapi með 1,74%