Körfubolti
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Kristinn Albertsson var kjörinn formaður Körfuknattleikssambands Íslands á ársþingi sambandsins 15. mars en þingið fór fram á Grand hóteli í Reykjavík.
Kristinn, sem verður sextugur í sumar, hefur víðtæka reynslu innan körfuboltasamfélagsins. Hann lék með Breiðabliki í efstu deild, þá hefur hann dæmt yfir 400 leiki á ferlinum og yfir 50 leiki á erlendri grundu á vegum FIBA, Alþjóðakörfuknattleikssambandsins.
Hann var stjórnarmaður KKÍ í fimm ár, framkvæmdastjóri í tvö ár og gjaldkeri sambandsins í tvö ár. Hann var sæmdur gullmerki KKÍ árið 2003 en Kristinn kemur ferskur inn í hreyfinguna á nýjan leik eftir að hafa haldið sig utan hennar á undanförnum árum, meðal annars vegna anna í vinnu.
„Ég er fullur tilhlökkunar, ég er búinn að vera fjarri hreyfingunni í dálítinn tíma og hef því fylgst með utan frá á síðustu árum,“ sagði Kristinn í samtali við Morgunblaðið.
„Maður getur ekki annað en dáðst að uppgangi körfuboltans. Vinsældir íþróttarinnar hafa aukist mikið hér á landi á síðustu árum og það er óhætt að segja að ákveðnum hápunkti hafi verið náð á dögunum þegar karlalandsliðið tryggði sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2025. Það var virkilega vel gert hjá liðinu og eitthvað sem við getum öll verið mjög stolt af. Ég horfi björtum augum til framtíðar körfuboltans hér á landi og markmiðið er að halda áfram að byggja ofan á það góða starf sem hefur verið unnið innan hreyfingarinnar á síðustu árum,“ sagði Kristinn.
Vildi gefa til baka
Kristinn byrjaði að dæma þegar hann var 22 ára gamall og var einn af fremstu dómurum landsins.
„Það var erfitt að leggja flautuna á hilluna á sínum tíma. Ég eyddi miklum tíma í bæði Hollandi og Frakklandi á sínum tíma, vegna vinnu minnar, og ég kom oft beint heim úr vinnuferð, skipti um föt og var mættur að dæma í íþróttahúsum landsins. Ég sá ekki mikið af fjölskyldunni og þetta var dæmi sem gekk bara ekki upp til lengdar. Ég er fjögurra barna faðir og var í krefjandi vinnu líka þannig að lífið tók við og körfuboltinn var settur á ís.
Núna er ég kominn á þriðja hlutann í lífinu og þetta er góður tímapunktur til þess að gefa eitthvað til baka til körfuboltans. Mitt DNA er fyrst og fremst körfubolti en ég hef líka öðlast dýrmæta og mikilvæga reynslu úr atvinnulífinu á meðan ég hef verið fjarri boltanum. Ég er sannfærður um það að mín reynsla úr atvinnulífinu muni nýtast mér sem formaður KKÍ. Körfuboltinn er á ákveðnum krossgötum og næsta skrefið er upp, upp og áfram en til þess þarf aukið fjármagn.“
Leita að nýjum þjálfara
Eitt af fyrstu verkum Kristins sem nýr formaður KKÍ verður að ráða nýjan þjálfara fyrir íslenska kvennalandsliðið en Benedikt Guðmundsson, sem hafði stýrt liðinu frá því í mars árið 2019, lét af störfum á dögunum.
„Við erum að vinna í því að ráða inn nýjan þjálfara sem ég bind miklar vonir við. Við viljum halda áfram að taka skref fram á við í kringum kvennaboltann og við vonumst til þess, með nýrri ráðningu, að taka áfram stórt skref fram á við. Bæði kvennalandsliðin í fótbolta og handbolta hafa verið að gera mjög flotta hluti á síðutu árum og það er mikill vilji til þess innan körfuboltahreyfingarinnar að leika það eftir.
Vissulega hafa verið miklar framfarir kvennamegin á síðustu árum en við viljum lyfta þessu ennþá hærra. Það er hins vegar þannig að Körfuknattleikssamband Íslands býr ekki til körfuboltaleikmenn, og það þarf því að ráðast í það verkefni með félögunum, í samvinnu við nýjan landsliðsþálfara að sjálfsögðu.“
Skorar á stjórnvöld
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands færði KKÍ úr A-afrekssambandi niður í B-afrekssamband árið 2022 og við það lækkuðu styrkir úr Afrekssjóði ÍSÍ til sambandsins mikið.
„KKÍ var sett niður um afreksflokk hjá ÍSÍ á sínum tíma og það var alls ekki gott svo ég noti ekki sterkara orðalag en það. Ríkið jók framlag sitt úr 400 milljónum í rúman milljarð á síðasta ári og við erum auðvitað mjög þakklát fyrir það. Sjálfur bind ég miklar vonir við það að núverandi ríkisstjórn haldi áfram að bæta í og auki ríkisframlagið ennþá meira. Staðreyndin í dag er sú að við erum að sjá börn allt niður í eins árs með einhverskonar snjalltæki í höndunum. Það er mun minna um það í dag en hér áður fyrr að börn fari í íþróttir. Þau eyða meiri tíma innandyra, í tölvuleikjum, í snjalltækjum eða á samfélagsmiðlum. Þetta leiðir til félagslegrar einangrunar og stundum óæskilegs félagsskapar.
Íþróttir eru því gríðarlega mikilvægar, bæði út frá heilbrigðissjónarmiðum og lýðheilsusjónarmiðum. Ríkið á að fjárfesta í íþróttum áður en það stefnir í óefni. Þetta er eitthvað sem við verðum að leggja áherslu á og ég vona að ríkið átti sig á því. Ég hef áhyggjur af þeirri kynslóð barna og unglinga sem eru ekki í íþróttum, hvar endar sú kynslóð? Íþróttafélögin eru líka rekin að stórum hluta af sjálfboðaliðum, foreldrum barna og unglinga. Ef börnin og unglingarnir eru ekki íþróttum gæti sjálfboðaliðastarfið lagst af líka. Yfirvöld, ríki og sveitarfélög verða að styðja betur við íþróttirnar. Þetta er fyrst og fremst lýðheilsumál.“
Eitt stórt núll frá FIBA
Ólíkt því sem gengur og gerist í fótboltanum fær KKÍ lítið fjármagn frá Alþjóðakörfuknattleikssambandinu en undirbúningur og þátttaka liðsins í lokakeppni Evrópumótsins kostar KKÍ í kringum 30 milljónir.
„Þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta kemst í lokakeppni fær sambandið fleiri hundruð milljónir frá bæði Alþjóða- og evrópska knattspyrnusambandinu en þegar körfuboltalandsliðið kemst á stórmót fær það eitt stórt núll frá FIBA. KKÍ fær árlega úthlutun frá FIBA, um 15-18 milljónir, og svo er það búið. Körfubolti er ein allra vinsælasta íþrótt í heimi og peningarnir í henni eru miklir en því miður er þeim ekki rétt útdeilt. Eins og ég skil reglur FIBA þá er peningunum úthlutað, til aðildarfélaga sambandsins, eftir íbúafjölda. Á sama tíma er fótboltinn með flata upphæð og síðan er eitthvað sem heitir jákvæð mismunun sem á að styðja betur við minni löndin.
FIBA á að sjálfsögðu að stuðla að framgangi og þróun minni landanna og úthlunarfyrirkomulagið hjá þeim er einfaldlega rangt. Ég ætla að reyna mitt besta til þess að beita mér fyrir því að þetta verði leiðrétt á einhvern hátt. Hannes S. Jónsson, framkvæmdastjóri KKÍ, er einn af varaforsetum FIBA og ég held að við séum í góðri stöðu til þess að beita okkur fyrir breytingum í þessum efnum en það verður erfitt líka því lönd eins og Frakkland og Spánn eru líklegast ekkert mjög spennt fyrir minna fjármagni.
Heima fyrir þurfum við líka að halda áfram að nýta okkur vinsældir körfuboltans og núna er stutt í úrslitakeppnina sem er einn af hápunktum ársins í íslensku íþróttalífi. Ég vona innilega að það séu fleiri sem séu tilbúnir að leggja nafn sitt við körfuboltann hér á landi á næstu vikum og mánuðum.“
Tillaga um reglubreytingu
Körfuboltinn hefur verið talsvert gagnrýndur á síðustu árum fyrir fjölda útlendinga í deildinni, sem hefur komið niður á þátttöku íslenskra og uppalinna leikmanna.
„Þetta hefur verið til umræðu innan sambandsins og á ársþinginu á dögunum var tillögu um svokallaða „þrír plús tveir-reglu“ vísað til stjórnar. Reglan vísar til þess að það verða að vera að minnsta kosti tveir leikmenn með íslenskt vegabréf inni á vellinum hjá hverju liði, öllum stundum. Þetta yrði skref í rétta átt þegar kemur að því að hjálpa Íslendingum að fá fleiri mínútur og spiltíma og þá fá þeir einnig tækifæri til þess að glíma við sterka, erlenda leikmenn. Þetta er samt flókið mál því körfuboltinn er líklegast besta og þægilegasta boltaíþróttin fyrir smærri sveitarfélög að stunda. Þú getur leikið þér einn í körfubolta og þegar þið eruð orðnir tveir ertu kominn með leik. Þetta er erfiðara í öðrum boltaíþróttum.
Staðreyndin er hins vegar sú að það er erfiðara að fá íslenska leikmenn til þess að flytja búferlum út á land til þess að spila körfubolta. Ég er stoltur að vera formaður sérsambands þar sem landsbyggðarliðin hafa gert góða hluti á undanförnum árum og það er sárt að horfa á eftir Hetti sem er fallinn í 1. deildina. ÍA hefur tryggt sér sæti í úrvalsdeildinni sem er mjög jákvætt en ég myndi vilja sjá fleiri lið af landsbyggðinni í efstu deild. Sjónarmiðin um fjölda útlendinga eru mjög misjöfn og það þarf að taka tillit til þeirra allra. „Fjórir plús einn-regla“ væri samt skref sem hægt væri að stíga líka til að byrja með.“
Tæki gildi strax í sumar
Stjórn KKÍ kom saman í síðustu viku þar sem ræddar voru tillögur að nýjum reglum um fjölda útlendinga í körfuboltanum.
„Hugmyndin okkar er sú að nýjar reglur um fjölda útlendinga myndu taka gildi strax á næsta keppnistímabili. Það er því mikilvægt að stjórn KKÍ verði komin með breytingartillögur, sem hægt er að miða við, fyrir 1. júní. Við þurfum að keyra þessa vinnu áfram og áður en félögin fara að huga að liðstyrk fyrir næsta keppnistímabil. Það er mitt mat að við getum ekki haft þetta opið eins og þetta hefur verið.
Við þurfum einhvern ramma því eins og ég sagði áðan hefur þetta verið of opið. Félög hafa verið að skipta út erlendum, dýrum leikmönnum á miðju tímabili, og það er kostnaðarsamt líka. Ég er mjög bjartsýnn á það að okkur takist að koma einhverjum breytingum í gegn fyrir tilsettan tíma, þegar breið samstaða um málið hefur náðst. Það er samt þannig í þessu eins og öllu að það verða aldrei allir sáttir við þær breytingar sem gerðar verða, þannig er það og mun alltaf verða.“
Framtíðin mjög björt
Kristinn brennur augljóslega fyrir körfuboltann og hefur sterkar skoðanir á hlutunum. Hafði hann kannski bara gott af því að taka sér hlé á sínum tíma og koma svo ferskur inn af fullum krafti?
„Já mig langar til þess að trúa því. Það er ákveðinn galli auðvitað að hafa verið fyrir utan hreyfinguna í allan þennan tíma en þeim mun meira sem ég hugsa um það þá er það líka mikill kostur. Ég kem algjörlega ferskur inn í þetta, með ferskar hugmyndir. Ég er ekki fulltrúi neins, ég er bara minn eigin fulltrúi og hef alltaf brunnið fyrir íslenskan körfubolta.
Ég hlakka mikið til komandi verkefna. Það er mikið fram undan og risastórt ár hjá okkur í körfuboltahreyfingunni. Yngri landsliðin okkar hafa staðið sig frábærlega líka þannig að framtíðin er svo sannarlega björt. Ég hef passað mig á því í gegnum tíðina að lofa ekki upp í ermina á mér en ég mun gera mitt allra besta fyrir íslenskan körfubolta og vonandi kemur eitthvað gott út úr því,“ bætti Kristinn Albertsson við í samtali við Morgunblaðið.