„Við sjáum mikinn vöxt netöryggisógnar enn eitt árið í okkar umdæmi og áherslur árásaraðila eru einkum á hið opinbera; stjórnvöld og stofnanir eru skotmörk þeirra, sérstaklega í Norður- og Vestur-Evrópu

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Við sjáum mikinn vöxt netöryggisógnar enn eitt árið í okkar umdæmi og áherslur árásaraðila eru einkum á hið opinbera; stjórnvöld og stofnanir eru skotmörk þeirra, sérstaklega í Norður- og Vestur-Evrópu. Það sjáum við á gögnum og greiningartólum sem við höfum aðgang að,“ segir Guðmundur Arnar Sigmundsson, forstöðumaður netöryggissveitar CERT-IS, í samtali við Morgunblaðið.

Guðmundur Arnar er einn frummælenda á ráðstefnu sem embætti ríkislögreglustjóra stendur fyrir og haldin verður nú í morgunsárið á Hótel Natura í Reykjavík. Í erindi sínu mun hann fjalla um netárásir á opinberar stofnanir hér á landi og hvaða lærdóm megi af þeim draga.

Hann segir að hóparnir sem herji á opinbera aðila sem og einkaaðila séu ólíkir í eðli sínu. Ekki sé einungis um að ræða hagnaðardrifna netglæpahópa sem reyni að valda skemmdum og koma sér í stöðu til að kúga fé út úr fórnarlömbum sínum. Orðið hafi vart við fjölgun netglæpahópa sem séu vel fjármagnaðir, með mikla tæknilega þekkingu og getu og vinni oft beint og óbeint fyrir önnur ríki.

„Þessir hópar eru meira í því að stunda njósnir um stefnu og starfsemi stjórnvalda og fyrirtækja og ekki síst í iðnaðarnjósnum, reyna að stela hugvitsupplýsingum sem er að finna hjá ólíkum aðilum í okkar umdæmi,“ segir Guðmundur Arnar og nefnir aðspurður að þessir hópar séu gjarnan frá Rússlandi, Kína, Íran og Norður-Kóreu, en geti einnig verið annars staðar frá.

„Þessir hópar eru að verða fyrirferðarmeiri alls staðar í heiminum,“ segir hann.

Heilbrigð tortryggni

Spurður hvað almenningi beri að varast segir Guðmundur Arnar að miklu líklegra sé að hann verði fyrir barðinu á hefðbundnum netglæpahópum sem reyni að plata fólk til að auðkenna sig í heimabanka og svíkja þannig út fjármuni.

„Almenningur er frekar fórnarlamb svindlherferða þar sem verið er að senda svikapósta eða reynt að nálgast einstaklinga símleiðis og plata þá til að millifæra peninga. Besta vörnin er að þeir sem hafa með einhverja fjármagnsgjörninga á netinu að gera tileinki sér heilbrigða tortryggni og taki af allan vafa um að ef verið er að millifæra fjármuni sé móttakandi peninganna sá sem hann segist vera,“ segir hann.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson