Guðrún Ágústa Ólafsdóttir fæddist 9. nóvember 1940 í Tungu í Bakkagerði á Borgarfirði eystra. Hún lést 19. mars 2025 á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Foreldrar hennar voru Ólafur Ágústsson, f. 1912, og Helga Sesselja Jóhannsdóttir, f. 1919. Þau bjuggu í Gamla-Jörfa á Borgarfirði eystra og þar ólst Guðrún Ágústa upp.
Eftirlifandi eiginmaður hennar er Ásgeir Stefánsson, f. 2. mars 1939, frá Hjalla í Reykjadal. Dætur þeirra eru: Fjóla, maki Viðar Svavarsson, Helga Sesselja, maki Jón Karl Svavarsson, og Margrét, maki Atli Dagsson.
Barnabörnin eru níu og barnabarnbörnin eru tuttugu.
Guðrún og Ásgeir hófu búskap sinn á Hjalla í Reykjadal, en fluttu árið 1968 í Hólabrekku í sömu sveit. Árið 2019 fluttu þau hjónin til Dalvíkur og bjuggu þar í Hringtúni 9c til sumars 2024 þegar þau fluttu á Dalbæ.
Útför Guðrúnar Ágústu fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 27. mars 2025, klukkan 13.
Elskulega mamma mín
mjúk er alltaf höndin þín
tárin þorna sérhvert sinn
sem þú strýkur vanga minn.
Þegar stór ég orðinn er
allt það skal ég launa þér.
(Sig. Júl. Jóhannesson)
Elsku mamma, ég man eftir mér fara með þetta vísukorn fyrir svefninn sem lítil stelpa og hélt alltaf að það væri samið um þig, enda strauk enginn vangann mýkra, né þerraði tárin betur. Ég vona að mér hafi tekist að launa þér eftir að ég varð „stór“.
Það væri ekki í þínum anda að ég færi að telja hér upp ágæti þitt og mannkosti, en svo sannarlega varstu ein af mögnuðustu manneskjunum í mínu lífi. Eftir situr ekkert nema góðar minningar og góð ráð, bæði umbeðin og óumbeðin.
Öll ráðin sem ég kunni ekki að meta þegar ég fékk þau, en sitja blýföst í dag og ég fer eftir. Umvandanir sem ég fékk sem unglingur og fannst fáránlegar, en notaði svo óspart á mín eigin börn og fannst þær snilld. Já, ég gríp sko oft í góð mömmuráð.
Að reyna að komast með tærnar þar sem þú hafðir hælana sem amma er bara ekki gerlegt, en ég reyni.
Að reyna að komast nálægt þér í prjónaskap er ekki gerlegt, en ég reyni.
Að reyna að muna öll örnefnin og blómanöfnin sem þú reyndir að kenna mér er ekki gerlegt, en ég reyni.
Takk mamma mín.
Þín yngsta,
Margrét Ásgeirsdóttir.
Gunna frænka hefur kvatt. Það er erfitt að meðtaka, því hún hefur alltaf verið hluti af lífi okkar. Allt frá því ég var barn og fékk að koma í Hólabrekku en ekki síður frá því að við fjölskyldan fluttum norður til Húsavíkur fyrir tuttugu árum. Þar voru Gunna og Geiri fastur punktur í tilverunni, alltaf til staðar með opinn faðminn og varla hægt að tala um annað þeirra án þess að nefna hitt á sama tíma.
Við fjölskyldan vorum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa nálægt þeim. Sunnudagsrúntur í Hólabrekku var alltaf mikið tilhlökkunarefni. Enda var hann meira en bara heimsókn, hann var ævintýri. Í Hólabrekku höfðu Gunna og Geiri skapað töfraheim þar sem allt gat gerst. Í hverju horni beið leyndardómur, hver hlutur hafði sína sögu og börnin voru þátttakendur í þeim heimi. Þau fengu að leika sér með gimsteinaboxið hennar Gunnu, þar sem hálsfestar bjuggu yfir töframætti og orkusteinar fengu að fylgja með heim. Margir þeirra í vösum okkar enn í dag.
Gunna sýndi fólki einlægan áhuga. Hún lét sig varða málefni þeirra sem á þurftu að halda og hafði ríka réttlætiskennd. Hún mundi einnig eftir öllum afmælum og helstu viðburðum í lífi fólks.
Samtöl Gunnu við börn voru alltaf skemmtileg og lifandi. Hún opnaði þeim dyr að ævintýrum sem aðeins hún gat miðlað. Oft lágu sögurnar austur á firði, þar sem hjarta hennar sló. Álfheimar, furðuverur og jafnvel gamlar frænkur urðu að lifandi veruleika í spennandi atburðarás. Gunna gerði líka heimsins bestu kanilsnúða og pönnukökur og laumaði gjarnan einum snúðapoka með í bílinn að heimsókn lokinni.
Við verðum Gunnu ævinlega þakklát. Þakklát fyrir nærveruna, elskuna og hlýjuna. Fyrir það að hafa gefið okkur fjölskyldunni hluta af sjálfri sér. Skarðið sem hún skilur eftir er djúpt, en fullt af fallegum minningum, sögum, orkusteinum og ullarsokkum. Allt dýrmæti sem við berum áfram með okkur, í hjörtum okkar og í daglegu lífi.
Við sendum Hólabrekkufjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Lilja, Svavar, Páll Hlíðar, Lára Hlín og Hildur Gauja.