Öflug Eygló Fanndal er ein besta lyftingakona Evrópu og ætlar sér stóra hluti á EM.
Öflug Eygló Fanndal er ein besta lyftingakona Evrópu og ætlar sér stóra hluti á EM. — Ljósmynd/LSÍ
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eygló Fanndal Sturludóttir, fremsta lyftingakona landsins, var tilnefnd sem lyftingakona ársins 2024 af Evrópska lyftingasambandinu í vikunni. Eygló, sem er 23 ára, átti ekki von á tilnefningunni. „Það er mjög stór og mikill heiður að vera tilnefnd

Lyftingar

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Eygló Fanndal Sturludóttir, fremsta lyftingakona landsins, var tilnefnd sem lyftingakona ársins 2024 af Evrópska lyftingasambandinu í vikunni. Eygló, sem er 23 ára, átti ekki von á tilnefningunni.

„Það er mjög stór og mikill heiður að vera tilnefnd. Ég vissi ekki að þau væru með mig í huga í þessari tilnefningu og ég varð mjög hissa en á sama tíma ótrúlega glöð þegar ég sá þetta. Þetta eru ótrúlega flottar konur sem eru tilnefndar með mér og galið að vera á topp tíu með þeim,“ sagði Eygló í samtali við Morgunblaðið.

Það kom henni skemmtilega á óvart að sjá tilnefninguna á samfélagsmiðlum. „Ég sá þetta á Instagram. Ég fékk ekki að vita þetta neitt formlega heldur rakst á þetta á samfélagsmiðlum,“ sagði hún.

Eygló, sem keppir í -71 kg flokki, átti afar gott síðasta ár. Hún varð í fjórða sæti á HM fullorðinna, varð Evrópumeistari U23 ára, Norðurlandameistari, íþróttakona Reykjavíkur og í þriðja sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins, svo eitthvað sé nefnt.

„Ég er rosalega ánægð með síðasta ár, sem var ótrúlega skemmtilegt og gerði mikið fyrir minn feril. Það er gaman að fá viðurkenningu þegar maður hefur lagt mikið á sig og gaman að uppskera svona vel.

Desembermánuður stendur upp úr hjá mér. Ég lenti í fjórða sæti á HM fullorðinna, sem er klikkað. Það kom mér á óvart að enda svona ofarlega á svona sterku móti. Ég var svo kjörin íþróttakona Reykjavíkur og endaði síðan í þriðja sæti í íþróttamaður ársins. Að vera í þriðja sæti þar var á pari við fjórða sætið á HM,“ sagði hún.

Nýtt ár byrjar vel

Árið byrjar vel hjá Eygló því hún var hluti af íslenska landsliðinu sem vann liðakeppni smáþjóðamótsins á Möltu um síðustu helgi.

„Það er gaman að keppa í liðamóti með öðrum Íslendingum. Það er ótrúlega mikil stemning að vinna að sama markmiði og keppa saman fyrir Ísland. Við skiluðum góðum tölum, unnum mótið örugglega og ég og Guðný Björk Stefánsdóttir unnum kvennakeppnina og ég heildarkeppnina. Þetta var geggjaður dagur,“ sagði hún kát.

Fram undan hjá Eygló er EM fullorðinna í Moldóvu en mótið fer fram dagana 13.-21. apríl næstkomandi.

„Ég er tilbúin í það. Maður komst í gírinn úti á Möltu. Ég er ótrúlega tilbúin núna að klára næstu þrjár vikur af æfingum, leggja allt í þetta og fara síðan út og gera gott mót,“ sagði hún.

Möguleikar á verðlaunum

Eygló endaði í fjórða sæti á HM fullorðinna á síðasta ári og varð efst Evrópubúa. Hún á því góða möguleika á verðlaunum á EM.

„Auðvitað langar mann að komast á pall og það eru allir íþróttamenn spenntir fyrir Evrópumeistaratitli. Ég ætla að gera mitt besta og reyna að enda eins ofarlega og ég get,“ sagði hún.

Eygló hefur ferðast víða undanfarin ár og m.a. keppt á mótum í Barein, Möltu, Þýskalandi og Póllandi. Næst á dagskrá er síðan ferðalag á EM í Moldóvu.

„Maður nær ekki mikið að skoða því það er nóg að gera þegar maður fer út. Einbeitingin er öll á æfingar og keppni. Þetta snýst allt um að sofa og borða rétt. Þegar maður fer til sólarlanda má ekki vera of mikið í sólinni. Þetta hefur allt áhrif. Við reynum eins og við getum að skoða en oft tekst það ekki mikið,“ útskýrði hún.

Mikill kostnaður

Mikill kostnaður fylgir því að keppa erlendis og sérstaklega þegar mótin eru haldin í löndum eins og Barein og Moldóvu.

„LSÍ og ÍSÍ hjálpa mér að láta þetta ganga upp. LSÍ er með fjármagn til að senda fólk á svona mót og fjármagnið sem ÍSÍ úthlutar á ári hverju nýtist í þetta. Það skiptir mjög miklu máli fyrir okkur sem erum í íþrótt þar sem mótin eru oft mjög langt í burtu og ferðalögin eru dýr. Ég gæti ekki gert þetta án þess að fá þessa styrki,“ útskýrði hún.

Eygló er í læknanámi meðfram ólympískum lyftingum og það verður nóg að gera eftir EM. „Eftir EM tekur við mánuður af lokaprófum og eftir prófin tekur við gott æfingasumar. Ég ætla að æfa vel og undirbúa mig fyrir HM sem er í október,“ sagði Eygló.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson