Bryddað verður upp á ýmsu skemmtilegu á Skrúfudeginum, árlegri kynningardagskrá nemenda í vélstjórn og skipstjórn við Tækniskólann. Þetta verður næstkomandi laugardag 29. mars milli kl. 13-16 í Sjómannaskólahúsinu við Háteigsveg í Reykjavík.
Gestum og gangandi gefst á Skrúfudegi meðal annars kostur á að skoða aðstöðuna í skólanum, fara í siglingu í skipstjórnarhermi skólans, heilsa upp á nemendur og starfsfólk og skoða útsýnið úr turni skólahússins, sem er þekkt kennileiti í Reykjavík. Veitingasala verður í mötuneyti skólans og fjölmörg fyrirtæki og stofnanir verða með kynningu sína við skólann. Þar á meðal eru Landhelgisgæslan og Björgunarsveitin Ársæll, sem verður með björgunarbát til sýnis, auk þeirra verður hægt að spreyta sig í suðuhermi, siglingatækjum ýmiss konar og skoða vélasal skólans.
Dagskrá hefst stundvíslega klukkan 13 þar sem forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, mun flytja stutt ávarp og fara í skoðunarferð um skólann. Aukinheldur mæta sérstakir heiðursgestir á Skrúfudaginn að þessu sinni, en það eru stýrimenn úr farmannadeild, sem útskrifuðust frá Stýrimannaskólanum fyrir 60 árum. Raunar er það þekkt að gamlir nemendur sýna skólanum alltaf mikla tryggð og mæta gjarnan á Skrúfudaginn. Þá mun hljómsveitin VÆB koma fram af þessu tilefni og flytja nokkur lög.
„Aðsóknin að vél- og skipstjórnarnámi í dag er góð og óhætt að segja að bjart sé yfir starfsemi okkar. Véltækni- og skipstjórnarnám er í mikilli þróun um þessar mundir og þar kemur sterkt inn alls konar sjálfvirknivæðing og gervigreind. Sú vegferð er mjög spennandi og mikilvægt að skólarnir fylgist með svo nemendur geti í krafti þekkingar orðið virkir þátttakendur í atvinnulífi sem breytist hratt,“ segir Víglundur Laxdal Sverrisson, skólastjóri Skipstjórnar- og véltækniskólans.