30 ára Ólafur er Hafnfirðingur, en hann bjó í stutta stund sem krakki í Svíþjóð og Seattle. „Ég er nýfluttur í Grafarvoginn þaðan sem konan er, en við keyptum okkur hús þar um miðjan desember.“
Ólafur er tölvunarfræðingur að mennt og starfar sem forritari hjá Rapyd. Hann hefur spilað handbolta frá unga aldri og er markvörður hjá ÍR, sem gat tryggt sér áframhaldandi sæti í efstu deild með því að gera jafntefli í lokaleik sínum í gærkvöldi. Ólafur gekk til liðs við ÍR árið 2020 en er uppalinn Haukamaður. „Ég var síðan hjá Stjörnunni en hef fengið mestan spilatíma hjá ÍR.
Handboltinn er mikil skuldbinding og tekur allan frítímann” segir Ólafur um áhugamál sín. „Það er vinnan, handboltinn og restinni af tímanum reyni ég að eyða með fjölskyldunni. Dóttir mín varð eins árs í byrjun árs, svo maður er kominn með nýtt hlutverk.“
Fjölskylda Maki Ólafs er Kristrún Ósk Óskarsdóttir, f. 1995, með BA- gráðu í klassískum málum og íslensku og vinnur hjá Stuðlabergi. Dóttir þeirra er Aþena Máney, f. 2024. Móðir Ólafs er Guðbjörg Lind Valdimarsdóttir, f. 1972, vinnur við heimahjúkrun, búsett í Hafnarfirði, ásamt stjúpföður Ólafs, Kristjáni Þórðarsyni, og tveimur systkinum Ólafs. Faðir Ólafs er Gísli Rafn Ólafsson, f. 1969, framkvæmdastjóri Rauða krossins, búsettur í Njarðvík ásamt stjúpmóður Ólafs, Sonju Dögg Pétursdóttur.