Þórarinn Hjaltason, Ragnar Árnason
18 mars sl. birtist löng grein í fréttamiðlinum Vísi. Í þeirri grein fer forstöðumaður Verkefnastofu borgarlínu, Atli B. Levy, fögrum orðum um áform um svokallaða borgarlínu og vísar til þess að reiknaður ábati af samgöngusáttmálanum sé talinn 1.140 milljarðar á næstu 50 árum (Cowi 2024).
Samgöngusáttmálinn
Samgöngusáttmálinn er samkomulag ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu 2019-2040. Sem slíkur nær hann til fjölmargra samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Þeirra á meðal eru breikkun vega, mislæg gatnamót, jarðgöng, vegstokkar, snjallvæðing umferðarljósa, hjólreiðastígar o.fl. Margar þessara framkvæmda eru afar hagkvæmar.
Borgarlínan afar óhagkvæm
Borgarlínan sem samheiti um endurbættar almannasamgöngur er einungis hluti þessara hugmynda. Öfugt við flestar hinna framkvæmdanna í samgöngusáttmálanum er borgarlínan afar óhagkvæm.
Borgarlínan er hugsuð sem hraðvagnakerfi (Bus Rapid Transit eða BRT) þar sem samanlögð lengd borgarlínuleiða er 60 km. Hluta leiðanna munu borgarlínuvagnar aka eftir rándýru sérrými í núverandi gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins sem lokað verður fyrir almennri umferð. Áætlaður beinn kostnaður við borgarlínuna er um 140 ma. kr. en þá er kostnaður við uppkaup á landi og fasteignum ekki meðtalinn. Það er án fordæma í hinum vestræna heimi að ráðast í jafn dýrt og umfangsmikið hraðvagnakerfi á aðeins 250 þúsund íbúa borgarsvæði.
Borgarlínan mun aðeins nýtast miklum minnihluta íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Í fyrsta áfanga borgarlínu er fyrirhugað að fækka akreinum fyrir almenna umferð á ýmsum umferðarmiklum fjögurra akreina götum, meðal annars Laugavegi og Suðurlandsbraut, til þess að skapa sérrými fyrir borgarlínuna. Gera má ráð fyrir að það sama verði upp á teningnum í seinni áföngum borgarlínu.
Borgarlínan mun því valda miklum meirihluti borgarbúa verulega auknum töfum í umferðinni með tilheyrandi kostnaði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Kostnaðurinn við þessar tafir hefur ekki verið tekinn með í framlögðum hagkvæmnisreikningum fyrir borgarlínuna nema að mjög óverulegu leyti. Þetta er eitt af nokkrum atriðum sem valda því að það hagkvæmnismat er afar misvísandi svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Séu augljósustu villurnar leiðréttar kemur í ljós að borgarlínan er afskaplega óhagkvæm.
Hagkvæmar samgönguframkvæmdir
Ein hagkvæmasta framkvæmdin í samgöngusáttmálanum er snjallvæðing umferðarljósa. Með þeirra hjálp er með litlum tilkostnaði unnt að stytta umtalsvert ferðatíma ökumanna. Gerð mislægra gatnamóta og breikkun ýmissa þjóðvega á höfuðborgarsvæðinu eru einnig mjög hagkvæmar framkvæmdir. Eitt dæmi um hagkvæmar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru mislæg gatnamót á Reykjanesbraut við Bústaðaveg. Sú framkvæmd kostar aðeins um 2,5 ma. kr. og mun borga sig upp á 1-2 árum. Margar aðrar framkvæmdir af svipuðu tagi eru álíka hagkvæmar
Margar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru svo hagkvæmar að vel kann að vera að samgöngusáttmálinn í heild, að borgarlínunni meðtalinni, sé hagkvæmur. Það eru hins vegar miklar ýkjur að núvirði hans sé 1.140 ma. kr. Sú upphæð fæst einungis á grundvelli algerlega óraunhæfra forsendna. Kjarni málsins er hins vegar sá að jafnvel þótt fjöldi samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu sé hagkvæmur réttlætir það auðvitað ekki að sólunda hátt í 200 mö. kr. í þjóðhagslega óhagkvæma framkvæmd eins og borgarlínuna.
Betri kostur en borgarlínan
Hvað almannasamgöngur snertir er miklu betri kostur að bæta leiðakerfi Strætó skv. drögum sem þegar liggja fyrir og bæta við forgangsakreinum með hefðbundnum hætti þar sem nú eru langar biðraðir bíla á álagstímum. Þetta er margfalt ódýrari leið en borgarlínan, ávinningurinn fyrir farþega strætisvagnanna verður næstum jafnmikill og ekki verður lagður stórkostlegur viðbótarkostnaður á aðra vegfarendur.
Lokaorð
Borgarlínan er ein af þessum grillum sem stundum grípa það afbrigði af stjórnmálamönnum sem eru framkvæmdaglaðir á annarra kostnað en skeyta lítt um hagsmuni almennings. Þrátt fyrir augljósa alvarlega meinbugi og þjóðhagslega óhagkvæmni þessarar framkvæmdar virðist hún engu að síður vera orðin að þráhyggju sem þessir stjórnmálamenn geta ekki losnað undan. Með því að fela neikvæðan ábata borgarlínunnar inni í heildarábata af samgöngusáttmálanum hafa þessir aðilar eygt snjalla leið til að koma borgarlínunni í framkvæmd þvert ofan í þjóðarhag.
Höfundar eru sérfræðingar í samgöngumálum og hagfræði.