Ólafur E. Jóhannsson
oej@mbl.is
„Þessi áform eru í fullkomnu samræmi við stefnu Viðreisnar sem er sú að það sem greitt er fyrir afnot af sjávarauðlindinni, veiðigjaldið, ráðist af markaðsverði,“ segir Ingvar Þóroddsson, þingmaður Viðreisnar í Norðausturkjördæmi, í samtali við Morgunblaðið.
„Ég hef alltaf sagt að það sé sanngjarnasta nálgunin, hvort sem hún myndi skila sér í hærra eða lægra veiðigjaldi. Þarna sjáum við að hún myndi skila hærra veiðigjaldi og ég bind miklar vonir við að það muni m.a. skila sér í því að við getum flýtt mikilvægri innviðauppbyggingu, t.d. í Norðausturkjördæmi þar sem mikil verðmæti verða til í sjávarútvegi,“ segir hann.
Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að hækkun veiðigjalds hefði neikvæð áhrif á fiskvinnsluna í kjördæminu, segir Ingvar að ekki sé ljóst hver þau yrðu á einstök fyrirtæki.
„Þetta var bara kynnt í gær, þannig að áhrifin á einstök fyrirtæki í mínu kjördæmi eða á landinu öllu eru eitthvað sem við eigum eftir að sjá. Sömuleiðis geri ég ráð fyrir að fyrirtækin muni skila inn umsögn við frumvarpsdrögin, þannig að þetta er rétt að byrja. Eins og báðir ráðherrarnir komu inn á þegar málið var kynnt, þá erum við að tala um tekjur sem eiga m.a. að fara í uppbyggingu innviða úti á landi sem síðan styður við atvinnuvegina á landsbyggðinni,“ segir Ingvar.
„Eins og ég skil áform ráðherra þá erum við að leyfa markaðinum að ráða fjárhæð veiðigjaldsins sem er gegnsærri og betri leið að mínu mati til að verðleggja aðganginn að auðlindinni. Sjávarútvegurinn hefur verið í mjög sterkri stöðu og ég hef ekki áhyggjur af því eins og stendur að þetta muni veikja samfélögin í mínu kjördæmi,“ segir Ingvar.
Skilur ekki hvað liggur á
„Þegar menn taka svona ákvarðanir er gríðarlega mikilvægt að við fáum að sjá einhverja úttekt á því hvað þetta muni þýða fyrir útgerðarfyrirtækin og landsbyggðina í heild sinni,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi.
„Ég veit ekki hvað þetta mun þýða fyrir Norðvesturkjördæmi og þau fjölmörgu útgerðarfyrirtæki sem þar eru. Ég veit ekki hvort þau hafi burði til að standa undir slíkri hækkun auðlindagjalda sem boðuð er. Það þurfum við að sjá, enda mjög mikilvægt,“ segir hann.
„Við þurfum að fá greiningu á því hvað þetta frumvarp þýðir í raun og veru fyrir atvinnugreinina og landsbyggðina. Ef það kemur í ljós að þetta sé frábært og allar útgerðir landsins verði hoppandi kátar og geti klárað sig af þessu, þá skoðum við það, en ef það er ekki – sem ég óttast því miður – þá þurfa þingmenn að vera klárir á hvað þeir eru að fara að samþykkja,“ segir Stefán Vagn. Hann segir að auðlindagjöld eigi að vera sífellt í endurskoðun, en nauðsynlegt sé að vita hvaða áhrif hækkunin hafi á greinina. Stefán Vagn kveðst heldur ekki skilja hvað liggi á í málinu, umsagnarfrestur um frumvarpið sé einungis fáeinir dagar.
„Það þarf að vanda vel til verka og ekki síst af þeim sem ætla að keyra þetta mál í gegnum þingið. Það skiptir máli að þetta fólk viti hvað það þýðir fyrir landsbyggðina og þau fjölmörgu fyrirtæki sem í greininni eru, ef það ætlar að ýta á græna takkann. Það eru ekki bara risafyrirtæki í útgerð, heldur eru einnig minni útgerðir og fjölskyldufyrirtæki undir í þessu máli,“ segir hann.
„Ég er sammála þessum áformum. Þetta er það sem við höfum talað um í Samfylkingunni og kynnt og rætt um úti um allt land síðasta árið. Þetta á ekki að koma neinum á óvart,“ segir Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Spurður hvort hann hafi áhyggjur af því að hækkun auðlindagjalda muni koma illa við fyrirtæki í hans kjördæmi, segir hann að eðlilega muni þetta hafa áhrif á þau. „En það er hluti af þessu að fá sanngjarna endurgjöf til baka og við höfum talað um að skoða hvernig við getum aðstoðað minni fyrirtækin við að koma í veg fyrir að þau verði fyrir alvarlegum áföllum út af þessu,“ segir Víðir.