Baksvið
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Deilur um tryggingamál vegna árekstra ökutækja, sem koma til kasta úrskurðarnefndar í vátryggingamálum, geta verið flóknar. Í nýlegum úrskurði þurfti nefndin m.a. að taka afstöðu til þess hvort tryggingafélagi bæri að greiða tjón á bíl sem varð þegar annar bíll rann mannlaus af stað á bílastæði og lenti á bílnum. Niðurstaðan var að tjónið væri bótaskylt vegna þess að bíllinn sem rann hefði verið í notkun í skilningi laga.
Í úrskurðinum er vitnað í tilkynningu eiganda bílsins sem rann þar sem segir: „Bíllinn minn var kyrrstæður á bílaplani í smá halla og búinn að vera í um 3 klukkutíma þegar hann allt í einu skautaði á glærunni að því er virðist af sjálfsdáðum niður planið, beygði og skautaði á annan bíl. Bíllinn er á heilsársdekkjum, en þarna hefðu naglarnir sennilega bjargað þessu.“
Þá er einnig vísað í tölvupóst frá eiganda bílsins sem rann til eiganda hins bílsins, varðandi handbremsu bílsins, þar sem segir: „Ég vildi bara segja þér að þar sem ég gat ekki skilið hvernig bíllinn fór á flakk niður brekkuna, í „gír“ og handbremsu (sérstaklega ef annað afturhjólið var upp á snjóbræðslunni), þá ákvað ég að tékka hvort að bíllinn hagaði sér ekki eins og ég hélt. Ég setti bílinn í park og læsti honum eins og ég er vanur (og eins og ég skildi við hann á æfingu um daginn), tjakkaði hann svo upp, og gat bara snúið afturdekkinu að vild. Það er því staðfest að bíllinn setur EKKI handbremsuna á sjálfkrafa þegar hann fer í Park, eins og ég hélt, þannig að hann var ekki í handbremsu þegar hann rann niður brekkuna.“
Óhappatilvik
Tryggingafélagið hafnaði bótakröfu úr ábyrgðartryggingu bílsins sem tjóninu olli og taldi að tjónið yrði ekki rakið til notkunar bílsins í skilningi laga um ökutækjatryggingar. Þá var einnig á því byggt að um óhappatilvik hefði verið að ræða enda hefði eigandi bílsins ekki mátt gera sér grein fyrir því að tjón gæti hlotist af þeirri ákvörðun hans að leggja bifreiðinni í stöðureit og yfirgefa hana.
Tryggingafélagið ítrekaði síðar að þegar bílnum var lagt hefði engin hætta verið fyrir hendi. Á þeim þremur klukkustundum sem liðu þar til bíllinn rann af stað hefðu aðstæður hins vegar breyst til mikilla muna.
Tjón vegna notkunar
Nefndin kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að umrætt tjón hafi orðið vegna notkunar á bílnum sem rann í skilningi laga um ökutækjatryggingar. Í lögunum komi fram að greiðsla á bótakröfu vegna tjóns sem hljótist af notkun ökutækis skuli vera tryggð með ábyrgðartryggingu.
Telja verði að þegar tjón sé rakið til þess að ökutæki er á hreyfingu sé skilyrði laganna um notkun að öllu jöfnu uppfyllt, án tillits til þess hvers vegna bifreiðin er á hreyfingu. Hættan sem stafi af þyngd ökutækis á hreyfingu sé í þessu deilumáli í eðli sínu sambærileg án tillits til þess hvort bílnum sé ekið aftur á bak eða eins og raunin var að hann renni án þess að vera beinlínis ekið. Því falli tilvikið innan þeirrar sérstöku hættu sem almennt stafi af ökutækjum, þ.e. hraða, vélarafli og þyngd.
Nefndin vísar einnig til svokallaðrar árekstrarreglu í lögum um ökutækjatryggingar þar sem segir að ef tjón hlýst af árekstri ökutækja skiptist tjónið á þau í réttu hlutfalli við sök þeirra sem hlut eiga að máli og með hliðsjón af atvikum öllum. Þá komi fram í 28. grein umferðarlaga að ekki megi stöðva eða leggja ökutæki þannig að það geti valdið hættu eða óþarfa óþægindum fyrir aðra umferð. Þegar ökumaður yfirgefur vélknúið ökutæki skuli hann stöðva vél þess og búa svo um að það geti ekki runnið sjálfkrafa eða aðrir látið það fara af stað.
Brot á umferðarlögum
Úrskurðarnefndin segir að í málinu hafi einnig verið deilt um hvort bílnum sem rann hafi verið lagt ólöglega en eigandi bílsins sem bíllinn rann á, byggði m.a. í málskoti til nefndarinnar á að bílnum sem rann hefði verið lagt ólöglega á gangstétt í miklum bratta.
Nefndin telur að gögn málsins gefi ekki tilefni til að hægt sé að telja það sannað að svo hafi verið. Þegar hins vegar sé horft til þeirra aðstæðna sem voru fyrir hendi, þ.e. veðurs og hálku og að bílnum var lagt í halla að því er virðist án þess að það væri tryggt að bifreiðin væri í handbremsu, hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu að í því felist brot á 28. grein umferðarlaga. Bendir nefndin í því sambandi á yfirlýsingu frá eiganda bílsins þar sem hann upplýsi að bíllinn hafi ekki verið í handbremsu í umrætt sinn.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var eins og áður segir að eigandi bílsins sem varð fyrir tjóninu ætti rétt á að fá tjón sitt bætt úr ábyrgðartryggingu eiganda bílsins sem rann af stað.