Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Við vildum búa til vettvang þar sem hönnuðir geta komið með prótótýpurnar sínar, rýmt til á lagernum og komið allri þeirri hönnun til neytenda á góðu verði,“ segir Baldur Björnsson, myndlistarmaður og raftónlistarmaður, en hann ásamt konu sinni, Þóreyju Björk Halldórsdóttur fatahönnuði, hefur skipulagt markað á vegum Hönnunarmars þar sem yfir 30 hönnuðir selja varning um helgina í Hafnarhúsinu.
„Þetta er upphitun fyrir Hönnunarmars en líka gott fyrir hönnuðina að geta selt varning sinn milliliðalaust til neytenda, sem á móti geta fundið sér ýmislegt flott á niðursettu verði um helgina.“
Bara skemmtileg vinna
Baldur og Þórey reka vinnustofuna And Anti Matter. „Við ákváðum strax að við vildum vinna saman að einhverju skemmtilegu, og það er eina reglan að það verður að vera skemmtilegt á vinnustofunni,“ segir hann.
„Við vinnum bæði mikið og vorum orðin þreytt á því að hanga hvort í sinni tölvunni heima á kvöldin og ákváðum að snúa vörn í sókn og búa okkur til vettvang þar sem við virkilega myndum njóta þess að vinna saman. Núna teiknum við á kvöldin og erum ekki í framleiðslu heldur vinnum eftir hendinni og leggjum áherslu á samveruna.“
Á markaðnum verða þau með föt úr Anti Work-línunni, þar sem þau handprenta teikningar sínar á blá vinnuföt sem þau kaupa á lagerum erlendis og það eru engar tvær flíkur eins.
„Það verða margir hönnuðir með fatnað og margt, margt fleira á markaðnum. Fólk getur jafnvel gallað sig upp til að svífa inn í Hönnunarmarsinn í næstu viku,“ segir Baldur og bætir við að mjög fjölbreytt hönnun verði á markaðnum.
Fjöldi vörumerkja
„Við fórum í samstarf við Visteyri, hringrásarmarkaðinn, en þau verða með markað innan markaðar. Þar eru líka inni geggjuð vörumerki, eins og 66% Norður og Feldur, og GÁ húsgögn verða með eldri lager og sýningareintök á afslætti, sem ég er viss um að vekur mikla athygli.“
Markaðurinn um helgina lengir Hönnunarmarsinn og Baldur segir hann kærkomið tækifæri fyrir hönnuði og ekki síður fyrir kaupendur. „Það græða allir á þessu, bæði hönnuðir og neytendur.“