Útflutningur Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Útflutningur Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. — Morgunblaðið/Eggert
Ísland sem lítið hagkerfi er háð aðgangi að erlendum mörkuðum. Vöruútflutningur landsins er að mestu leyti bundinn við iðnað og sjávarútveg. Árið 2024 nam útflutningur iðnaðar 750 milljörðum króna eða 39% af heildarútflutningi vöru og þjónustu

Matthías Johannessen

mj@mbl.is

Ísland sem lítið hagkerfi er háð aðgangi að erlendum mörkuðum.

Vöruútflutningur landsins er að mestu leyti bundinn við iðnað og sjávarútveg. Árið 2024 nam útflutningur iðnaðar 750 milljörðum króna eða 39% af heildarútflutningi vöru og þjónustu.

Evrópa er mikilvægasti markaðurinn fyrir íslenskar iðnaðarvörur en vægi Bandaríkjanna hefur aukist undanfarin ár, sérstaklega fyrir hugverkaiðnað.

Árið 2024 voru fluttar út iðnaðarvörur til Bandaríkjanna fyrir 62 milljarða króna, samanborið við 31 milljarð króna árið 2022. Helstu vörur sem fluttar voru út til Bandaríkjanna á síðasta ári voru lækningavörur og -tæki, sem falla undir hugverkaiðnað, og kísiljárn.

Kemur þetta fram í nýrri greiningu frá Samtökum iðnaðarins (SI).

Þar er einnig fjallað um að tollastríð það sem Bandaríkin standi nú í gagnvart ýmsum þjóðum heimsins geti haft veruleg neikvæð áhrif á íslenskan iðnað og útflutning. Áætlaðir eru 25% tollar á ál og stál frá löndum Evrópu, sem eru mikilvægar útflutningsvörur Íslands.

Ísland getur dregist inn í deilur

Óvíst er reyndar á þessum tímapunkti hvort þetta eigi við um Ísland en líklegt er að landið dragist inn í deilu milli Bandaríkjanna og Evrópusambandsins (ESB).

Samtök iðnaðarins hafa ítrekað mikilvægi þess að íslensk stjórnvöld gæti viðskiptahagsmuna landsins gagnvart Bandaríkjunum og Evrópu sérstaklega sem og öðrum mörkuðum.

Morgunblaðið leitaði til Sigurðar Hannessonar framkvæmdastjóra SI sem bendir á að mikill vöxtur hafi verið í útflutningi íslenskra iðnaðarvara til Bandaríkjanna undanfarin ár og því ríkir hagsmunir í því að áfram verði greiður aðgangur að þeim mikilvæga markaði. Mikilvægt sé jafnframt að hafa í huga að allur álútflutningur frá Íslandi fari til Evrópu.

„Lífskjör landsmanna byggjast á því að hér séu framleidd verðmæti og seld á erlenda markaði. Bandaríkjamarkaður er sérstaklega mikilvægur fyrir hugverkaiðnaðinn sem stefnir í áframhaldandi vöxt, sem dæmi var meira flutt út til Bandaríkjanna af tækjum og vörum til lækninga en af þorski á síðasta ári. Íslensk stjórnvöld þurfa að beita virkri utanríkisstefnu sem miðar að því að halda greiðum aðgangi að mörkuðum fyrir íslenskar vörur, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, og lágmarka áhrifin á íslenskan efnahag.“

Iðnaðarvörur fyrir 384 milljarða

Sigurður nefnir jafnframt að í heild hafi verið fluttar út iðnaðarvörur frá Íslandi til ríkja innan ESB fyrir 384 milljarða króna á síðasta ári. Helstu iðnaðarvörur sem fluttar voru út til Evrópusambandsins hafi einmitt verið ál og álvörur (293 milljarðar króna), tæki og vörur til lækninga (23 milljarðar króna) og kísiljárn (13 milljarðar króna).

Talsverður útflutningur hafi einnig verið til Evrópulanda utan ESB eða fyrir um 50 milljarða króna á síðasta ári. Þar hafi aðallega verið um að ræða ál og álafurðir (17 milljarðar króna) og lyfjavörur (13 milljarðar króna).

Höf.: Matthías Johannessen