Rannsókn Mörg þúsund seiði drápust vegna kulda og ofmettunar. Matvælastofnun krefst rannsóknar lögreglu á hugsanlegum lögbrotum.
Rannsókn Mörg þúsund seiði drápust vegna kulda og ofmettunar. Matvælastofnun krefst rannsóknar lögreglu á hugsanlegum lögbrotum. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
Matvælastofnun hefur farið fram á að lögregla taki til rannsóknar meint brot Kaldvíkur hf. í tengslum við útsetningu seiða í of kaldan sjó. Matvælastofnun telur brotin varða ákvæði laga um dýravelferð, að því er fram kemur í tilkynningu stofnunarinnar

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Matvælastofnun hefur farið fram á að lögregla taki til rannsóknar meint brot Kaldvíkur hf. í tengslum við útsetningu seiða í of kaldan sjó. Matvælastofnun telur brotin varða ákvæði laga um dýravelferð, að því er fram kemur í tilkynningu stofnunarinnar.

Málið má rekja til síðari hluta ársins 2024 þegar 721 þúsund seiði, sem áttu að fara í áframeldi í Fáskrúðsfirði, drápust.

Matvælastofnun kveðst meta meint brot alvarleg og hefur þar af leiðandi óskað eftir lögreglurannsókn. „Lögreglan á Austurlandi hefur málið til meðferðar og veitir Matvælastofnun ekki frekari upplýsingar um málið að sinni,“ segir í tilkynningunni.

Tilkynnt til Kauphallar

Kaldvík greindi frá atvikinu í tilkynningu til Kauphallarinnar í janúar síðastliðnum og sagði þar að lægra hitastig hefði verið síðasta ársfjórðung 2024 en gert var ráð fyrir, sem leiddi til dauða í 2023-árgangi vegna vetrarsára, auk þess sem kuldi hefði hamlað vexti laxanna.

Greint var frá hárri dauðatíðni í tengslum við útsetningu seiða á eldissvæðinu Einstiga í sunnanverðum Fáskrúðsfirði. Upplýsir félagið að lágt hitastig og ofmettun við flutning seiðanna hafi leitt til þess að fjöldi þeirra drapst.

Kvaðst félagið áætla að framleiðsla fyrirtækisins árið 2025 yrði ekki 25 þúsund tonn eins og gert var ráð fyrir og það myndi lækka framleiðsluáætlun sína um 14% í 21.500 tonn. Þá þyrfti jafnframt að niðurfæra verðmæti lífmassa í bókhaldi félagsins um 23,1 milljón evra eða um 3,3 milljarða króna.

Árið 2024 var slátrað 15.000 tonnum úr kvíum Kaldvíkur og námu tekjur þess vegna 108 milljónum evra, jafnvirði um 16 milljarða króna.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson