Loforð Kjartan Páll Sveinsson kveðst ekki í vafa um fyrirheit ríkisstjórnar.
Loforð Kjartan Páll Sveinsson kveðst ekki í vafa um fyrirheit ríkisstjórnar. — Morgunblaðið/Eggert
Það styttist óðum í að strandveiðar hefjist, en upphafsdagur verður líklega 5. maí. Ríkisstjórnin hefur heitið því að tryggja öllum strandveiðibátum 48 veiðidaga, það er að segja 12 veiðidaga í hverjum mánuði maí til og með ágúst

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Það styttist óðum í að strandveiðar hefjist, en upphafsdagur verður líklega 5. maí. Ríkisstjórnin hefur heitið því að tryggja öllum strandveiðibátum 48 veiðidaga, það er að segja 12 veiðidaga í hverjum mánuði maí til og með ágúst. Til þess er þörf á meiri veiðiheimildum en veiðunum hefur verið ráðstafað undanfarin ár og hefur hingað til ekki verið sýnt fram á hvernig staðið verður við þessi fyrirheit, en Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur greint frá því að lagafrumvarp um strandveiðar verði ekki afgreitt í tæka tíð til að breyta tilhögun veiða sumarsins.

„Þau hafa sagt að það verði 48 dagar í sumar. Ég hef ekki séð nákvæmlega hvernig það verður gert, en ég hef enga ástæðu til annars en að trúa að þau standi við það,“ segir Kjartan Páll Sveinsson, formaður Strandveiðifélags Íslands, inntur álits á því hvernig hann sjái fyrir sér að ríkisstjórnin geti staðið við loforðið.

„Það er líka klókt að hafa umsóknarfrest svo þau geti haft vaðið fyrir neðan sig,“ segir hann og vísar til þess að reglugerðardrög sem birt voru fyrr í mánuðinum kveða á um að frestur til að sækja um strandveiðileyfi verði 15. apríl ár hvert.

Lengt í báða enda

Eru aðrar leiðir færar en í gegnum lagabreytingu?

„Það eru einhver tonn að fá í skiptum fyrir 4.000 tonn af makríl á tilboðsmarkaði, það er eitthvað hægt að sækja í það,“ svarar Kjartan.

Hann segir það einnig auka möguleikana á að strandveiðibátum verði tryggður þessi fjöldi veiðidaga ef fyrrnefnd reglugerðardrög verða samþykkt en þau fela meðal annars í sér hert skilyrði um eignarhald strandveiðibáta. „Ef þeim tekst að fækka bátum með því að taka út þá sem eru að gera út leiguliða þá mun það hjálpa mikið, en ég held að það væri óvarlegt að stóla bara á að fækka bátum í kerfinu.

Við stungum upp á því við ráðuneytið að skella september inn í strandveiðivertíðina. Það mun hafa þau áhrif að jafna hlut C-svæðisins – það hefur hallað mest á þetta svæði á Norðausturlandi og Austurlandi. Það myndi hafa þau áhrif að hluti aflans kæmi inn á nýju fiskveiðiári og þannig væri hægt að kaupa sér ákveðinn tíma til að fara ekki fram úr heimildum og ég held að fólk fyrir austan væri miklu frekar til í að veiða í september en í maí.“

Hann leggur jafnframt til að í framhaldinu verði í vinnu við boðað frumvarp um strandveiðar lagt til að strandveiðitímabilið verði lengt í báða enda án þess að veiðidögum verði fjölgað. Þannig væri hægt að tryggja aukinn sveigjanleika í því hvenær strandveiðisjómenn sækja sinn afla.

Snýst um vilja

Kjartan segir margar færar leiðir til að auka veiðiheimildir sem strandveiðum er ráðstafað.

„Ég er ekki að mæla með því að þau geri eins og Bjarni Ben og Jón Gunnarsson gerðu með djúpkarfann [þegar ákveðið var að úthluta kvóta þrátt fyrir ráðgjöf vísindamanna um engar veiðar] en það sýnir að það sé hægt að grípa til ýmissa aðgerða þegar vilji er fyrir hendi. Ég held að það verði hægt að finna lausn á þessu. Það eru til alls kyns leiðir til að finna aflaheimildir ef þörf er á.“

Hann hefur litlar áhyggjur af því að það muni þurfa að hafa fleiri þúsund tonn af aflaheimildum af öðrum útgerðum með tilheyrandi áhrif á rekstur þeirra til að sjá strandveiðibátum fyrir nægum aflaheimildum.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson