Hull Íslenski hópurinn fyrir utan Hull fishing heritage centre í Kingston upon Hull eins og borgin heitir.
Hull Íslenski hópurinn fyrir utan Hull fishing heritage centre í Kingston upon Hull eins og borgin heitir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúmlega fjörutíu manna hópur frá Akureyri er nú staddur í Hull en ferðalangarnir eiga sameiginlegt að hafa stundað sjómennsku. Til stendur að kynna sér sögu borga eins og Hull og Grimsby sem byggðust meðal annars upp vegna sjósóknar á sínum tíma

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Rúmlega fjörutíu manna hópur frá Akureyri er nú staddur í Hull en ferðalangarnir eiga sameiginlegt að hafa stundað sjómennsku. Til stendur að kynna sér sögu borga eins og Hull og Grimsby sem byggðust meðal annars upp vegna sjósóknar á sínum tíma.

„Að fara í skoðunarferð til Hull og Grimsby hefur blundað í sjómönnum á Akureyri í meira en þrjátíu ár. Þetta eru jú gamlar hafnarborgir sem íslenskir togarar sigldu mikið á og mikill ævintýraljómi er yfir þeim sögum. Við ákváðum að slá til, létum drauminn rætast og erum hingað komnir,“ segir Sigfús Ólafur Helgason, einn af skipuleggjendum ferðarinnar.

Fóru loftleiðina

Flogið var til Manchester með EasyJet frá flugvellinum á Akureyri á þriðjudaginn og farið þaðan til Hull. Margir þeirra hafa áður komið á þessar slóðir en fóru þá sjóleiðina. Þegar Morgunblaðið ræddi við Sigfús í gær stóð til að fara í hádegisverð þar sem borgarstjórnin í Hull væri gestgjafi.

„Við erum nánast eins og konungbornir gestir hérna. Við erum að upplifa algert ævintýri í skoðunarferðum hérna og á sjóminjasöfnunum. Í hópnum eru menn sem komnir eru af léttasta skeiði en eru að rifja hér upp gamlar minningar margir hverjir,“ segir Sigfús og hann segir Íslendinga geta lært margt af Hull og Grimsby varðandi það að varðveita sögu sjávarútvegsins.

„Maður fellur eiginlega í stafi þegar maður sér þá virðingu sem saga sjávarútvegsins nýtur hér í Hull. Hér eru minningarskildir á öðru hverju götuhorni til minningar um látna sjómenn og það er stórkostlegt að sjá hvað Bretarnir halda sögunni hátt á lofti. Fiskveiðiþjóðin Ísland getur svo sannarlega lært margt af þessu. Þetta minnir mann á hversu litla virðingu við sýnum sögu sjávarútvegsins þótt við höfum lifað af fiskveiðum öld eftir öld. Á móti kemur að það er jafn stórkostlegt að sjá þetta hér.“

Höfðinglegar móttökur

Sigfús segir feðgana Baldvin Gíslason og Hlyn Baldvinsson hafa verið tengiliði hópsins á svæðinu. Þeir hafi skipulagt mikla og metnaðarfulla dagskrá fyrir mannskapinn en hópurinn á einnig eftir að fara til Grimsby og skoða sig um þar.

„Einnig er rétt að nefna hversu vel borgaryfirvöld í Hull taka okkur og sýna okkur mikla virðingu. Það þykir mér einstakt,“ segir Sigfús en ferð íslensku sjómannanna verður vel skrásett því kvikmyndatökumaður fylgir þeim hvert fótmál.

„Við erum með tökumann með okkur og gerð verður kvikmynd um þessa ferð. Hér eru kvikmyndatökuvélar og drónar á lofti. Við tökum viðtöl við gamla sjómenn og safnstjórann í sjóminjasafninu í Hull svo dæmi séu tekin. Þegar við komum heim fer myndin í framleiðslu og kvikmyndagerðarmaðurinn Trausti Guðmundur Halldórsson, sem er með í för, mun halda utan um það,“ segir Sigfús Ólafur Helgason en hópurinn flýgur heim til Akureyrar frá Manchester 29. mars.

Bretar á Íslandsmiðum

Á 20. öldinni voru breskir togarar fjölmargir á Íslandsmiðum. Margir þeirra einmitt frá Hull og Grimsby.

Samskiptin við Íslendinga voru því mikil bæði í blíðu og stríðu ef þannig mætti að orði komast. Íslensku varðskipin voru ýmist að bjarga breskum togurum úr sjávarháska eða reka þá út úr landhelginni þegar hún var útvíkkuð. Sá tími er alla jafna kallaður þorskastríðin en eftir að lögsaga Íslands var færð út í 200 mílur versnaði hagur sjávarútvegsfyrirtækja í Hull og Grimsby til muna.

Höf.: Kristján Jónsson