[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég flutti til Danmerkur árið 2017 og ætlaði að vera hér í þrjú ár, en það er svo gott að búa í Danmörku að ég ílengdist og er hér enn, átta árum síðar,“ segir tónlistarkonan Sigurdís Sandra Tryggvadóttir, en hún samdi og útsetti tvö ný kórverk …

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég flutti til Danmerkur árið 2017 og ætlaði að vera hér í þrjú ár, en það er svo gott að búa í Danmörku að ég ílengdist og er hér enn, átta árum síðar,“ segir tónlistarkonan Sigurdís Sandra Tryggvadóttir, en hún samdi og útsetti tvö ný kórverk fyrir Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps í tilefni af 100 ára afmæli kórsins. Lögin gerði hún við ljóð Jónasar Tryggvasonar sem var afabróðir hennar, en Jónas stjórnaði kórnum í sjö ár og samdi og útsetti mörg lög fyrir kórinn. Kórinn frumflutti lag hennar við ljóðið Draumur undir Dimmuborg á fyrstu tónleikum afmælisársins sem haldnir voru í Blönduóskirkju í lok febrúar og Sigurdís kom heim af því tilefni, söng einsöng og spilaði undir á píanó.

„Mér fannst ótrúlega gaman að vinna með kórnum og tónleikarnir tókust vel, en ég hef því miður ekki tök á að vera með þeim á tvennum seinni afmælistónleikum þeirra, sem verða í Miðgarði í Varmahlíð í kvöld laugardagskvöld og á Hvammstanga í Borgarnesi þann 12. apríl. Þar munu þeir flytja hitt lagið sem ég samdi og útsetti við ljóð Jónasar, Draumur,“ segir Sigurdís og bætir við að hún hafi lengi verið meðvituð um að stórafmælisár kórsins yrði á þessu ári.

„Enda hefur pabbi, Tryggvi Jónsson, sungið með kórnum í marga áratugi og afi minn, Jón Tryggvason, stjórnaði honum í 35 ár. Þar fyrir utan þekkti ég marga menn sem voru í kórnum hér áður og líka marga þeirra sem eru í kórnum núna. Málið er mér því skylt og mér fannst mjög gaman að geta gert þetta. Ég er að vinna að listrænu rannsóknarverkefni tengt fjölskylduarfi í tónlistarsköpun og því datt mér í hug að hafa samband við kórstjórann og athuga hvort áhugi væri fyrir því að ég mundi útsetja fyrir kórinn tvö lög við ljóð Jónasar í tilefni stórafmælisins. Þeim leist vel á það og ég fékk styrk hjá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra, sem dugði fyrir annarri útsetningunni, en ég ákvað að hin útsetningin væri gjöf í minningu afa og Jónasar. Arfleifð Jónasar er alltaf að verða stærri hluti af minni tónlistarsköpun og mér finnst ótrúlega heillandi að vera að byggja ofan á það sem hann skildi eftir sig. Þannig finnst mér ég með einhverjum hætti vera að tengja saman fortíð og nútíð.“

Jónas varð alveg blindur

Sigurdís segir að þar sem þetta hafi verið í fyrsta skipti sem hún útsetti lög fyrir kór, þá hafi hana langað að gera þetta eins vel og hún gæti.

„Ég setti mig í samband við breskan mann, Nicholas Smith, sem er kórstjórnandi og tónlistarmaður búsettur í Beijing, og hjá honum fékk ég leiðsögn,“ segir Sigurdís og bætir við að fyrra lagið við ljóðið Draum undir Dimmuborgum hafi hún upphaflega samið þegar hún var í námi í FÍH heima á Íslandi.

„Mér fannst skemmtilegt að kafa meira á dýptina og reyna að koma textanum enn betur til skila. Jónas sá mjög illa sem barn og hann varð alveg blindur á fullorðinsárum.

Í viðtölum við hann sem ég hef verið að skoða segist hann hafa langað mikið til að mennta sig í tónlist og verða atvinnumaður á því sviði. Faðir Jónasar fór með hann til Páls Ísólfssonar sem mat hann með næga hæfileika, en að hann þyrfti að fara til útlanda til að vinna fyrir sér með músík einni saman. Jónas hafði ekki tök á því þá og þessi örlög hans, að verða blindur, koma mikið fram með einum eða öðrum hætti í ljóðum hans, en þau eru líka oft tengd íslenskri náttúru. Ég vildi koma þessu öllu vel til skila í nýju útsetningunum.“

Til Íslands með tríó í sumar

Sigurdís segist vera sveitastelpa, hún ólst upp í Ártúnum í Austur-Húnvatnssýslu og var í tónskólanum þar í sveit.

„Síðan fór ég í nám til Akureyrar og var sú eina sem var á listnámsbraut við menntaskólann þar. Ég byrjaði reyndar á náttúrufræðibraut en tónlistin tók alltaf meira og meira pláss, svo ég færði mig yfir í listnámið og útskrifaðist þaðan. Ég var í tónlistarskólanum á Akureyri og lauk þar framhaldsprófi í píanóleik, en reyndar spilaði ég líka á saxófón á þeim tíma og það var hann sem togaði mig suður til Reykjavíkur í djassnám við FÍH, þar sem ég lærði hjá Sigurði Flosasyni og fleirum. Ég lenti í álagsmeiðslum með saxófóninn og færði mig þá yfir á píanóið og var orðin 21 árs þegar ég byrjaði að læra djasspíanóleik, sem ég er þakklát fyrir í dag. Ég fór hingað út til Danmerkur til að mennta mig áfram í tónlist, ég byrjaði á að taka BA-háskólapróf og lauk svo meistaragráðu í djasspíanóleik og tónsmíðum frá Syddansk Musikkonservatorium. Síðan skellti ég mér í tveggja ára viðbótarnám, Contemporary Creative Artist, þar sem áhersla er lögð á að kafa dýpra í listsköpunarferlinu,“ segir Sigurdís sem var bent á að prófa að taka söngtíma meðfram náminu í Danmörku, sem hún hefur gert reglulega síðustu árin.

Ýmislegt er á döfinni hjá Sigurdísi, í júní mun hún kynna listræna rannsóknarverkefnið sitt úti í Danmörku.

„Þar hef ég verið að skoða tengsl mín við fjölskylduræturnar og hvernig sú arfleifð, sérstaklega sú sem tengist Jónasi, getur endurspeglast í minni tónlistarsköpun. Í júlí kem ég með tríóið mitt til Íslands og við ætlum að spila á Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi 20. júlí og stefnum á fleiri tónleika. Hægt er að fylgjast með þeirri framvindu á heimasíðu minni, sigurdis.com. Ég vonast til að geta gefið út mína fyrstu plötu á næsta ári og þar verða meðal annars lög sem ég hef samið við ljóð Jónasar, auk annarra frumsaminna verka sem eru innblásin af uppvexti mínum í sveitum Austur-Húnavatnssýslu.“

Draumur

Á meðan sólin dvelur bak við dökkvann

mig dreymir aðra veröld, glaða og bjarta.

Þar enginn skuggi ógnar mínu hjarta,

því árdagssólin hrakti næturrökkvann,

til ysta hafs. Mín leið er vori vafin,

en vetrarmyrkrið grúfir langt að baki,

og öll mín sorg og allur hjartans klaki

í innstu vitund minni liggja grafin.

Og ég er eins og fangi, er frelsi hlýtur.

Ég fagna þessum bjarta, heiða degi

með sól og vor um allra átta vegi,

sem auga mitt í heitri gleði lítur.

Ég held af stað, þvi hér skal beðið eigi.

Minn heimur svo dásamlega fagur.

En þá rann aftur upp minn virki dagur

með aðeins nótt og haust á förnum vegi.

Ljóðið er í ljóðabók Jónasar,
Harpan mín í Hylnum, 1959

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir