Morgunblaðið Hér má sjá dæmi af myndum sem leitað er að.
Morgunblaðið Hér má sjá dæmi af myndum sem leitað er að.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til stendur að gefa út bók með teikningum eftir Halldór Pétursson sem birtust í Morgunblaðinu á síðustu öld en Halldór er almennt talinn einn fremsti teiknari þjóðarinnar. Þeir sem vinna að útgáfu óska eftir eintökum af Morgunblaðinu frá 1959-1961 ef þau skyldu leynast einhvers staðar

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Til stendur að gefa út bók með teikningum eftir Halldór Pétursson sem birtust í Morgunblaðinu á síðustu öld en Halldór er almennt talinn einn fremsti teiknari þjóðarinnar. Þeir sem vinna að útgáfu óska eftir eintökum af Morgunblaðinu frá 1959-1961 ef þau skyldu leynast einhvers staðar.

„Bókin er með myndum eftir Halldór sem hann teiknaði og birtust í blaðinu á árunum 1959 til 1961. Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur kom að máli mig við mig varðandi þetta verkefni. Hann er áhugasamur um myndasögur og ég hef gefið út myndasögur hjá mínu forlagi. Mér fannst hugmyndin strax góð,“ segir Jean Posocco hjá Froski útgáfu en Bjarni Hinriksson myndasöguhöfundur er með þeim í ritstjórn vegna útgáfu bókarinnar. „Þetta eru fyrstu myndasagnaseríur eftir Íslendinga sem birtust í dagblaði og því væri merkilegt að það væri til á bók,“ bendir Jean á en en afkomendur Halldórs eiga ekki frumritin að teikningunum.

Teikningar Halldórs í Morgunblaðinu birtust í Lesbók barnanna eins og það var kallað á þeim tíma í ritstjórn Kristjáns J. Gunnarssonar. „Þær tengdust Brennu-Njáls sögu og Grettissögu. Ég fékk teikningarnar sem tengdust Njálu í heilu lagi og gat skannað þær. Ég bíð eftir svari frá Þjóðminjasafninu um hvort þau eigi þessar myndir. Ég kynnti mér þetta á Landsbókasafninu og hjá Morgunblaðinu. Blöðin eru innbundin og erfitt að skanna myndirnar. Þess vegna er ég að auglýsa eftir því hvort einhverjir safnarar kunni að eiga eintök af Morgunblaðinu frá 1959, 1960 eða 1961 þar sem myndasögurnar eru eftir Halldór. Þá gæti ég skannað myndirnar til að nota í bókina. Það er betra að skanna teikningarnar inn úr blaðinu en að taka ljósmynd af þeim. Ef einhver lumar á slíkum blöðum í lausu þá bið ég viðkomandi að hafa samband við mig,“ segir Jean, sem er með netfangið froskur@myndasogur.is hjá útgáfunni.

Höf.: Kristján Jónsson