Zendaya
Zendaya
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tökur á stórmynd Christophers Nolans, The Odyssey, munu fara fram hér á landi í júní. Myndin er byggð á Ódysseifskviðu og í aðalhlutverkum verða margir af vinsælustu leikurunum í Hollywood í dag

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Tökur á stórmynd Christophers Nolans, The Odyssey, munu fara fram hér á landi í júní. Myndin er byggð á Ódysseifskviðu og í aðalhlutverkum verða margir af vinsælustu leikurunum í Hollywood í dag.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins verða tökurnar hér afar umfangsmiklar. Þær fara fram á Suðurlandi og mörg hundruð manns munu koma að þeim. Framleiðslufyrirtækið TrueNorth heldur utan um framleiðsluna hér á landi. Leifur B. Dagfinnsson, framleiðandi hjá TrueNorth, vildi ekki tjá sig þegar eftir því var leitað í gær.

Tökur á The Odyssey eru þegar hafnar en þær fara fram víða um heim. Meðal tökustaða eru Grikkland, Marokkó, Sikiley og Los Angeles auk Íslands.

Leikaralistinn er ekkert slor. Matt Damon leikur Ódysseif en í öðrum hlutverkum verða meðal annars Tom Holland, Anne Hathaway, Zendaya, Lupita Nyong'o, Robert Pattinson og Charlize Theron. Ekki er vitað hvaða leikarar eru væntanlegir hingað til lands.

Nolan hér á tíu ára fresti

Ódysseifskviða er önnur tveggja svokallaðra Hómerskviða. Að því er fram kemur á Vísindavef Háskólans er Ilíonskviða talin vera sú eldri af þeim, ort um 750 fyrir Krist.

Ódysseifskviða fjallar um heimför Ódysseifs, konungs á eynni Íþöku, eftir Trójustríðið. Heimförin tók tíu ár og var mikið ævintýri.

Seg mér, sönggyðja, frá hinum víðförla manni, er hraktist mjög víða, eftir það hann hafði lagt í eyði hina helgu Trójuborg, þeim er sá borgir og þekkti skaplyndi margra manna.“ Þannig hefst kviðan í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar eins og rakið er á Vísindavefnum. Hvort þessi blær verður á kvikmyndaverki Christophers Nolans á eftir að koma í ljós en víst má telja að margir bíði spenntir eftir að sjá hvernig til tekst.

Nolan skrifar sjálfur handrit myndarinnar, framleiðir og leikstýrir. Hann gerði síðast hina vinsælu Oppenheimer.

Þetta verður í þriðja skiptið sem Christopher Nolan tekur stórmyndir sínar hér á landi. Virðist hann koma hingað á um það bil tíu ára fresti. Sú fyrsta var Batman Begins en síðar tók hann upp Interstellar hér.

Ódysseifskviða bætist í hóp fjölda stórra kvikmynda og sjónvarpsþátta sem tekin hafa verið upp hér á landi á síðustu árum eftir að reglur um endurgreiðslu framleiðslukostnaðar voru rýmkaðar til að laða að stærri verkefni.

Hún verður stærsta mynd Christophers Nolans frá upphafi en framleiðslukostnaðurinn er talinn verða um 250 milljónir dollara.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon