Vettvangur Leifur Gauti leiðbeinir lögreglunemum um notkun á mælihjóli í raunhæfu verkefni á vettvangi umferðarslyss.
Vettvangur Leifur Gauti leiðbeinir lögreglunemum um notkun á mælihjóli í raunhæfu verkefni á vettvangi umferðarslyss.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Teknir verða inn 95 lögreglunemar í haust, að sögn Leifs Gauta Sigurðssonar, lögreglufulltrúa hjá mennta- og starfsþróunarsetri ríkislögreglustjóra. Tæplega áratugur er síðan lögreglunám var fært á háskólastig en Háskólinn á Akureyri sér um bóknámshlutann og þangað greiða lögreglunemar skólagjöld

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Teknir verða inn 95 lögreglunemar í haust, að sögn Leifs Gauta Sigurðssonar, lögreglufulltrúa hjá mennta- og starfsþróunarsetri ríkislögreglustjóra.

Tæplega áratugur er síðan lögreglunám var fært á háskólastig en Háskólinn á Akureyri sér um bóknámshlutann og þangað greiða lögreglunemar skólagjöld. Verknámshlutinn fer fram í Reykjavík hjá mennta- og starfsþróunarsetrinu.

Blaðamaður og ljósmyndari vörðu hluta úr degi með lögreglunemum og skyggndust inn í þjálfun þeirra.

Leifur Gauti hefur verið í lögreglunni frá árinu 1998 þegar hann hóf störf sem afleysingamaður en fór svo í lögregluskólann ári síðar. Hann hefur unnið ýmis störf innan lögreglunnar og meðal annars gegnt stöðu rannsóknarlögreglumanns. Leifur hefur starfað hjá mennta- og starfsþróunarsetri í tæp þrjú ár. En af hverju er hann í löggunni?

„Þetta er bara gaman. Maður vill stuðla að því að gera samfélagið aðeins betra,“ segir hann. Leifur játar því að það að starfa við að fræða og miðla af reynslu sinni sé um margt ólíkt því að vera virkur lögreglumaður úti í samfélaginu en hann segir það gefandi. „Maður er aðeins að skila til baka því sem maður hefur lært í gegnum tíðina.“

Aldrei fleiri teknir inn

Þegar Leifur hóf störf hjá menntasetrinu var verið að fjölga innteknum lögreglunemum úr 40 í 80 á hausti en nú hefur verið ákveðið að fjölga þeim í 95 frá og með næsta hausti. Segir hann aldrei hafa verið tekna fleiri lögreglunema inn í einu.

Sex lögreglufulltrúar kenna í grunnnáminu auk annarra kennara sem kenna í bóknáminu fyrir norðan. Forstöðumaður er Ólafur Örn Bragason og aðstoðaryfirlögregluþjónn er Guðmundur Ásgeirsson.

Leifur segir að mikið sé lagt upp úr því að samþætta bóknámið og starfsnámið. Bóknámið er í fjarnámi og starfsnámið fer fram hjá menntasetrinu í fjórar vikur á önn. Eina viku á hverri önn er staðnámslota á Akureyri og þá fer Leifur norður með nemunum.

„Okkur er umhugað um að nemendur sjái tengingu á milli þess bóklega og verklega. Stundum koma kennarar frá HA og taka þátt í verklegum æfingum. Til dæmis getur lögfræðingur, sem er að kenna sakamálaréttarfar, komið og verið viðstaddur leit í bifreið eða eitthvað álíka, þannig fáum við svona fleiri vinkla inn í.“

Laser-tengdar Glock-byssur

Þegar blaðamaður og ljósmyndari voru á staðnum fór fram æfing á vettvangi umferðarslyss þar sem lögreglunemar voru látnir rissa upp vettvang og skila ljósmyndaskýrslu. Þá reyndu nemarnir sig einnig í svokölluðum valdbeitingarhermi, sem hægt er að nota til að setja nemana í miskrefjandi aðstæður, þar sem þeir eru annaðhvort látnir beita vopni eða til dæmis tala við æstan einstakling.

„Ef skipanir eru skýrar er einstaklingur látinn hlýða. Stjórnandinn getur stýrt því hvað gerist en stundum þarf að beita piparúða og kylfu.“

Í herminum eru skotbrautir til þjálfunar í meðhöndlun skotvopna í framhaldi af grunnþjálfun.

Þar eru notaðar Glock-skammbyssur sem búið er að óvirkja og tengja við laser sem hermirinn skynjar. Þrýstihylki eru þá notuð til að líkja eftir slættinum í byssunni.

Heil fræði á bak við aksturinn

Nemarnir fengu þá þjálfun í valdbeitingu í íþróttasal sem og kennslu í skýrslugerð og á miðlægt upplýsingakerfi lögreglu, LÖKE.

Spurður um fleira sem lögreglunemar læra í starfsnáminu nefnir Leifur akstur með forgangi, sem hann segir heil fræði, og nokkuð sem kallast „iPREP“, sem Leifur segir að sé í raun streitustjórnun. Þá fái lögreglunemar þjálfun í samskiptum. „Fyrsta skrefið í valdbeitingu er að tala við fólk.“

Höf.: Ólafur Pálsson