Íslenska ríkið er ekki meðal þeirra sem láta á meðalgöngu reyna í undanþágumálinu svokallaða.
Meðalgöngustefna Búsældar, Kaupfélags Skagfirðinga og Neytendasamtakanna verður tekin fyrir í Hæstarétti í dag, en með henni láta viðkomandi aðilar reyna á að gerast aðilar að dómsmáli Samkeppniseftirlitsins gegn Innnesi, vegna þess að þeir telja sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu.
Áður höfðu fyrrnefndir aðilar, auk íslenska ríkisins, óskað eftir leyfi til áfrýjunar dóms Héraðsdóms Reykjavíkur beint til Hæstaréttar í formi meðalgöngu.
Í samtali við Morgunblaðið segir Fanney Rós Þorsteinsdóttir ríkislögmaður að ákveðið hafi verið að halda ekki áfram með málið, en það hafi verið ákvörðun ráðherra.
Fyrir héraðsdómi hafði Innnes betur í máli gegn Samkeppniseftirlitinu, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að búvörulög sem Alþingi samþykkti í mars á síðasta ári hefðu ekki lagagildi þar eð breytingar á frumvarpi voru svo umfangsmiklar við meðferð þingsins að leggja hefði átt, að mati dómsins, nýtt frumvarp fram. Að mati dómsins fengu lögin þannig ekki þrjár umræður eins og 44. gr. stjórnarskrárinnar gerir ráð fyrir.
Samkeppniseftirlitið hafði hafnað kröfu Innness um að eftirlitið gripi til íhlutunar vegna háttsemi framleiðendafélaga. Sagði eftirlitið félögin ekki lengur á valdsviði þess eftir að Alþingi samþykkti umrædd búvörulög.
Er ríkið óskaði leyfis til að áfrýja byggði ríkið á því að fordæmisgildi málsins væri töluvert, þá sérstaklega á beitingu 44. gr. stjórnarskrárinnar auk almennrar þýðingar fyrir beitingu réttarreglna. Þá kynni það að veita leiðsögn um þá kröfu að lagafrumvörp séu rædd við þrjár umræður á Alþingi, hvenær breytingar séu svo miklar að um nýtt frumvarp sé í reynd að ræða og svigrúm löggjafans í því sambandi.
Hæstiréttur hafnaði beiðni ríkisins og annarra aðila á þeirri forsendu að ekki væri heimild í lögum fyrir slíkri áfrýjun en veitti ríkinu þá leiðbeiningu að heimild kynni að standa til aukameðalgöngu í máli Samkeppniseftirlitsins gegn Innnesi sem þá hafði fengið samþykkta áfrýjunarbeiðni til Hæstaréttar.
Athygli vekur að fyrrgreindir aðilar sem töldu sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu fóru eftir þeirri leiðbeiningu, nema íslenska ríkið. andrea@mbl.is