viðtal
Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
„Verkið sem við frumsýnum núna með ÍD á sér nokkuð langan aðdraganda. Ferlið hófst með því að mér var boðið að vinna í Borgarleikhúsinu í Freiburg fyrir nokkrum árum. Ég mátti velja mér viðfangsefni en eina skilyrðið var að það hefði eitthvað með klassík eða þekktar fornsögur að gera og það að vinna með leikurum leikhússins. Ég fékk með mér frábært listrænt teymi frá Íslandi og dró Íslenska dansflokkinn einnig með í þessa vegferð. Við frumsýndum í Freiburg í miðju covid og náðum að sýna nokkrar sýningar í Freiburg og Hamburg undir nafninu Orpheus + Eurydike (Die Orphischen Zyklen),“ segir Erna Ómarsdóttir dansari og danshöfundur, en Íslenski dansflokkurinn frumsýnir dansverk hennar, Hringir Orfeusar og annað slúður, í Borgarleikhúsinu á morgun föstudag.
„Þessi útgáfa sem við erum að frumsýna á morgun er um margt mjög ólík og að mörgu leyti jafnvel annað verk. Við erum til dæmis mun meira að leika okkur með tungumálið sem fyrirbæri, dans-tungumálið, íslensku, ensku, forn-grísku og táknmál. Öll listformin eru einnig notuð til þess að miðla þeim ólíku viðfangsefnum sem okkur þykir áhugaverð í þessum sögum, þótt dansinn sé okkar grunnur. Gabríela Friðriksdóttir myndlistakona og Bjarni Jónsson dramatúrg unnu með mér upphaflegu hugmyndina fyrir Freiburg og það gerði líka Valdimar Jóhannsson, en hann ásamt Skúla Sverrissyni gerði tónlistina. Karen Briem búningahönnuður og Aðalheiður Halldórsdóttir, fyrrverandi dansari ÍD, og Pálmi jónsson ljósameistari eru svo frábær viðbót í listræna teymið núna.“
Bullið mikilvægur þáttur
Erna segir vissulega ögrandi verkefni að skila ólíkri skynjun í dansverki, t.d. hvernig orð séu dönsuð og hvernig við sjáum tónlist.
„Mér hefur lengi fundist mjög gaman að leika mér með texta og orð, og það að vinna með röddina á svipaðan hátt og ég geri með dansinn hefur alltaf verið hluti af dansverkum mínum. Bullið hefur líka oft verið mjög mikilvægur þáttur í sköpunarferlinu því þar er undirmeðvitund og allskonar fleira sem leiðir mann svo oft í áhugaverðar áttir. Tónlist, söngur og áferðir raddarinnar sem tengjast tilfinningum kannski meira og sumir myndu kalla óhljóð, eru mikilvægur þáttur líka enda hefur okkur stundum dottið í hug að kalla þetta jaðarsöngleik. Dansinn sem „ritual“ er búinn að fylgja mannskepnunni frá örófi alda og var einnig upphafið að sviðslistum í grískri menningu. Endurtekningar, sérstaklega með rödd og dansi, hafa mér lengi fundist áhugaverð viðfangsefni. Bæði nátengt náttúrunni en einnig í tengslum við margs konar trúarbrögð. Það skref þegar dans og söngur voru bannfærð eða þegar dansinn og listin er álitin vera minna virði en eitthvað annað finnst mér því auðvitað alveg fáránlegt. Sem betur fer er skólakerfið sumstaðar eitthvað að endurskoða þessa hluti og ég held að það geti bjargað mörgu og mörgum.“ Erna segir að sér finnist rosalega gaman að vinna með stórum hópi hljóðfæraleikara og reyna að finna leiðir þar sem heimarnir mætast.
„Þar sem dansarar og hljóðfæraleikarar deila með sér plássinu á sviðinu, en uppáhaldshljómsveitin mín um þessar mundir, Skólahljómsveit Vesturbæjar, mun taka þátt í sýningunni. Dansararnir bera hita og þunga sýningarinnar, þetta er tíu manna hópur sem er alveg stórkostlegur, þau eiga mikinn þátt í að láta hugmyndirnar lifna við og verða að galdri, ég hef séð það gerast ítrekað. Það er einstaklega gaman að vinna með þeim í verkefnum eins og þessu, sem er á mörkum listgreina og þar sem umfjöllunarefnið er einnig umbreytingin sjálf. Sköpunin sjálf og þar með talin listsköpunin, svo þetta verður vonandi einhverkonar skynfæraveisla.“
Endurómun og speglun
Erna fæst í dansverki sínu við goðsögnina um snillinginn og tónlistamanninn Orfeus, ástarsögu hans og Evridísar, ferðalag hans til undirheima, samneyti hans við bakkynjurnar, guðina, hetjur, skrímsli og fleira.
„Frá því að ég var krakki hafa þessar goðsagnir verið mér innblástur. Nú þegar maður er orðinn fimmtugur og aðeins lífsreyndari, þá les maður þetta auðvitað með öðrum gleraugum. Og nú með því að vera aftur farin að skoða söguna um Orfeus, Evridísi og félaga, og þó að það séu aðeins um þrjú ár síðan, þá hefur ýmislegt breyst og maður heldur áfram að finna nýjar flækjur og tengingar og sjá þessar sögur í nýju ljósi. Það er auðvitað þannig með þessar grísku goðsögur, eins og aðrar goðsögur að þær eru endalaus brunnur og endurspegla samfélagið og þá tíma sem við lifum hverju sinni, og eru grunnur vestrænnar menningar. Þetta verk okkar sem við frumsýnum á morgun má segja að séu speglagöng inn í fornan heim og aftur til baka, jafnvel inn í eilífðina og aðrar víddir. Eru sögurnar sannar, ýktar eða lognar sögur? Hver var tilgangurinn? Hvað vantar í þessar sögur? Hvernig og á hvaða tímum hafa þær breyst? Hvernig lesast þær í dag? Hjá okkur fara þær í endalausa hringi en líka flækjur, innra slúður og ytra slúður, eru endurómur og endurspeglun, og ekki má gleyma spéspeglinum. Við notum einnig tónlist frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, sem flestir þekkja og kemur það vonandi skemmtilega á óvart. Þetta er tónlist sem mörg okkar elskuðu eða hötuðu sem krakkar eða unglingar og börnin okkar eru farin að hlusta á núna. Já, það er gaman að því hvernig hlutir fara stundum í hringi. Ekki þarf að taka fram að þetta er ekki mjög línuleg frásögn heldur fer hún fram og til baka, upp og niður og í hringi, og flækist fullt á leiðinni. Mörg þeirra sem eru í dansarahópnum og listræna teyminu hafa mikinn áhuga á þessum goðsögum, en við lásum mörg ólíkar útgáfur og skiljum þær á ólíkan hátt. Svo tökum við okkar snúning á þetta og skáldaleyfi og búum til nýja ferðasögu í sköpunarferlinu sem er okkar saga. Það er rosa gaman að grúska í þessu efni. Þetta hefur auðvitað verið endurskrifað og túlkað af endalaust mörgum á endalaust ólíka máta. Mér finnst til dæmis margt fallegt í verkinu Ummyndanir. Höfundurinn Ovid sem var Rómverji og uppi nokkur hundruð árum seinna, skrifar þessar sögur í eitt risaljóðverk. Hann var þó ennþá meiri karlremba en Grikkirnir sem hófu gyðjur og konur miklu meira upp en Rómverjarnir. Í Ummyndunum fara sögur þessar í allar áttir en tengjast alltaf einhvers staðar. Það sem er líka áhugavert í sambandi við Ovid er að hann vildi með þessu verki gera sig ódauðlegan og tókst það að vissu leyti.“
Kannski var Evridís snillingur
„Orfeus er ein af þessum hetjum sem berjast með listinni en ekki vopnum og því er honum kannski stundum vorkunn. Við ákváðum að kenna þetta verk við hann, því það er svo margt sem gerist á hans leið og hann hittir marga, bæði guði, gyðjur, alls kyns hetjur og ýmiss konar skrímsli, það yrði alltof langur titill. Slúðrið í titlinum er þarna sem einn möguleiki um hvernig svona sögur verða til og hvernig sannleikurinn verður til. Gróusögur, slúður, ýkjusögur og öfugt. Hvenær er hægt að treysta tilfinningum og hvenær er rökhugsun betri? Hvað gerðist í alvörunni og hvað er metafóra fyrir til dæmis tilfinningu sem myrkrið eða náttúruöflin stækka og búa til risa skrímsli úr, eða hetju sem sigrast á öllu. Hvenær er þetta innra slúður og ytra slúður? Hvað þarf þetta að fara í marga hringi áður en við förum að trúa? Kannski af því að þessar sögur bárust frá kynslóð til kynslóðar og ýmislegt hefur orðið til á leiðinni sem tengist þessum sögum, sumt af því er nánast trúarbrögð. Rætur þessara sagna teygja sig nefnilega enn lengra, ein þeirra er um gyðjuna Demetru og dóttur hennar Persefónu, en þá var það meira tengt kornyrkju og hringrás árstíðanna. Það rúmast svo mikið innan þessara sagna, öll náttúruelementin, mannlegar tilfinningar og mannlegt eðli, dýralíf, stjörnumerkin og alheimurinn. Það er líka hringur inni í hring og utan um hring, og svo einhver sem fer í öfuga átt og svo í margar krókaleiðir. Við veltum líka fyrir okkur hvort Evridís hafi yfirhöfuð haft áhuga á að snúa aftur úr undirheimum. Vissulega er gaman að búa til rómantíska ástarsögu úr þessari goðsögu, en við getum líka velt því fyrir okkur að kannski hafði Evridís engan áhuga á að vera músan hans Orfeusar. Kannski kærði hún sig ekki um vera innblástur fyrir snillinginn. Kannski var hún snillingurinn. Það er margt í þessu sem er gaman að skoða og meðal annars hugmyndin um snillinga, áhrifavalda og fylgjendur. Snillingurinn var áður alltaf einhver gaur, karlkyns, þannig hefur það allavega verið skrifað og skjalfest.“
Kannski læri ég forngrísku
Erna hefur formlega látið af störfum sem listrænn stjórnandi Íslenska dansflokksins, en hún hefur verið í því starfi í tíu ár.
„Þetta hefur verið mjög lærdómsríkur tími með ÍD, ég hef verið heppin að fá að vinna með fullt af frábæru fólki sem ég er mjög þakklát fyrir að hafa kynnst. Ég fann þó að þetta var komið gott. Það var mikil þreyta komin í mig, sem fylgdi starfinu, og ég gat eiginlega ekki meir. Ég átti eitt ár eftir af skipunartímanum en þar sem ég fékk mikið af boðum um verkefni erlendis á síðasta ári ákvað ég á endanum að leggja aftur af stað út í þá óvissuferð sem sjálfstæði listabransinn er. Ég er bæði að fara að semja og dansa aftur meira sjálf, enda er það eitthvað sem ég hef saknað mikið. Vissulega fylgir því mikið strögl að vera í sjálfstæða geiranum, en ég er mjög spennt fyrir alls konar verkefnum, kannski fer ég bara í forngrísku í háskólanum,“ segir Erna og hlær.