Reykjavík „Ég brenn fyrir betra samfélagi og menntun fyrir öll börn,“ segir Skúli Þór, hér við tónleikastaðinn.
Reykjavík „Ég brenn fyrir betra samfélagi og menntun fyrir öll börn,“ segir Skúli Þór, hér við tónleikastaðinn. — Morgunblaðið/Eyþór
„Já, við erum sannarlega í breyttum heimi með tröllaukið áreiti sem börn verða fyrir. Við þurfum einfaldlega að mæta því með samhentum aðgerðum. Breiðholt er mikið í umræðunni núna en sömu áskoranir eru víðar,“ segir Skúli Þór Helgason borgarfulltrúi

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Já, við erum sannarlega í breyttum heimi með tröllaukið áreiti sem börn verða fyrir. Við þurfum einfaldlega að mæta því með samhentum aðgerðum. Breiðholt er mikið í umræðunni núna en sömu áskoranir eru víðar,“ segir Skúli Þór Helgason borgarfulltrúi.

Listamenn í miklum metum

Í tilefni af 60 ára afmæli sínu um miðjan næsta mánuð hefur Skúli ákveðið að efna til góðgerðartónleika sem verða í Iðnó fimmtudagskvöldið 10. apríl. Þar koma fram Mugison, Páll Óskar, GDRN, Ragga Gísla með hljómsveit, Emmsjé Gauti, Inspector Spacetime og Ra:tio (DJ). Allir eru þeir listamenn sem að framan greinir í miklum metum hjá Skúla og mörgum þeirra hefur hann starfað með.

Tónleikarnir bera yfirskriftina: Geggjað og miðasala er á tix.is. Ágóði af tónleikunum rennur til sjóðs í vörslu Geðhjálpar sem mun styrkja verkefni sem hafa það markmið að efla geðheilbrigði barna og ungmenna. Það er málefni sem Skúli segist brenna fyrir, enda séu viðbrögð við áhættuhegðun ungmenna, einelti, vaxandi þunglyndi og aukinni tíðni sjálfsvíga mikilvæg.

Taka utan um börnin okkar

„Ég brenn fyrir betra samfélagi og menntun fyrir öll börn svo þau geti orðið öflugir og skapandi einstaklingar,“ segir Skúli. „Við náðum frábærum árangri með breiðfylkingu í forvarnarmálum í kringum aldamótin og þá tókst að draga verulega úr áfengisneyslu og reykingum unglinga. Nú þurfum við aðgerðir sem taka betur utan um börnin okkar; velferð þeirra, menntun og heilbrigði. Við þurfum þar að tengja saman ríki og sveitarfélög, skóla, velferðarþjónustu, íþróttir og menningu og virkja foreldra og almenning til þátttöku.“

Menning og samfélag eru rauðu þræðirnir í störfum Skúla um dagana. Þar rifjar hann upp fyrri störf sín svo sem við útvarp, tónlistarútgáfu, verkefnastjórn þegar Reykjavík var menningarborg Evrópu árið 2000, þingmennsku í nokkur ár og setu í borgarstjórn síðustu árin hvar hann er formaður menningar- og íþróttaráðs Reykjavíkur.

Láta góða hluti gerast

„Ég fór í samstarf við Geðhjálp um að láta góða hluti gerast og tryggja að þeir fjármunir sem safnast muni nýtast vel. Ég hef safnað framlögum frá bakhjörlum í atvinnulífinu sem ég er mjög þakklátur fyrir og allar tekjur af miðasölu munu renna beint í sjóð sem verður varið til að styrkja verkefni einstaklinga og frjálsra félagasamtaka sem tengjast geðrækt barna og unglinga,“ segir Skúli sem sextugur segist fullur orku til að halda áfram starfi að ýmsum spennandi verkefnum í þágu mannlífs og umhverfis í borginni.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson