Nýkjörinn formaður Körfuknattleikssambands Íslands setti allt á hliðina á dögunum, innan handboltasamfélagsins í það minnsta, í jómfrúræðu sinni á ársþingi KKÍ sem fram fór á Grand hóteli í Reykjavík 15

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Nýkjörinn formaður Körfuknattleikssambands Íslands setti allt á hliðina á dögunum, innan handboltasamfélagsins í það minnsta, í jómfrúræðu sinni á ársþingi KKÍ sem fram fór á Grand hóteli í Reykjavík 15. mars.

Formaðurinn rifjaði upp rúmlega 30 ára gamla sögu frá því hann starfaði sem framkvæmdastjóri KKÍ og ég endurtek; 30 ára gamla sögu. Handbolti var ekki á þeim stað sem hann er á í dag fyrir þrjátíu árum. Það ætti öllum að vera ljóst, sérstaklega þeim sem starfa eða hafa starfað til fjölda ára innan handboltahreyfingarinnar.

Kári Árnason, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, hafði reyndar aðeins minnst á stórmót í handbolta í öðru samhengi nokkrum dögum áður sem fór heldur ekki vel í handboltasamfélagið. Yfir öllu má nú samt móðgast.

Ég tek það fram að íslenska karlalandsliðið í handbolta er mitt uppáhaldslandslið og ég hef verið ófeiminn við að segja það. Það litast að stóru leyti af því að ég held mikið upp á leikmenn liðsins, enda allt frábærir gaurar.

Kári Árnason er ekki eini maðurinn sem hefur bent á að mögulega sé stórmótum í handbolta ofaukið. Guðjón Valur Sigurðsson, sem spilaði nú einn eða tvo landsleiki fyrir Ísland að mig minnir, minntist sjálfur á þetta þegar hann var fyrirliði landsliðsins.

Væri ekki miklu meiri sjarmi yfir stórmótum í handbolta ef þau væru annað hvert ár í staðinn fyrir hvert einasta ár? Það myndi eflaust lengja líftíma leikmannanna líka í íþróttinni. Handboltinn er miklu vinsælli í dag en hér á árum áður og hann þarf ekki lengur eitt stórmót á ári til þess að halda uppi einhverjum vinsældum.

Það má alveg fara að endurskoða þetta mótafyrirkomulag. Það væri bæði íþróttinni og þeim sem stunda hana til mikilla heilla.