Elvar Jón Friðbertsson fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 24. júní 1947. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 14. mars 2025.

Foreldrar Elvars voru Friðbert Guðmundsson, f. 30.11. 1900, d. 27.1. 1973, og Jóna Reynhildur Magnúsdóttir, f. 12.1. 1906, d. 11.7. 1991.

Systkini Elvars voru Magnús Einar, Stefanía Aðalheiður, Þorsteinn Erlingur, Marteinn, Sigríður, Hulda, Reynhildur Berta, Ingibjörg, Lilja og Haukur, öll látin.

Eiginkona Elvars er Steindóra Andreasen frá Leirvík í Færeyjum, f. 28.12. 1954. Börn þeirra eru: 1) stúlka, f. 24.12. 1972, d. 24.12. 1972, 2) Haukur, f. 9.5. 1974, 3) Ómar, f. 9.1. 1976, d. 6.3. 2000, 4) Hallgerður, f. 28.5. 1978.

Ebbi starfaði sem húsasmíðameistari eftir nám við Iðnskólann á Selfossi þaðan sem hann lauk sveinsprófi árið 1972. Fjölskyldan bjó á Suðureyri til ársins 1996 þegar þau fluttu til Reykjavíkur og hélt Ebbi áfram að starfa við fag sitt þangað til hann fór á eftirlaun.

Útför fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 27. mars 2025, klukkan 15.

Elsku pabbi, nú komið er að kveðjustund og þó að það sé erfitt að hugsa til þess að sjá þig ekki aftur veit ég að þú ert kominn á góðan stað. Undanfarin þrjú ár hafa verið þér erfið þar sem heilsan fór hrakandi. Þann 9. janúar sl. fengum við svo þær fréttir að þú værir kominn með lungnakrabbamein sem hafði dreift sér og að líknandi meðferð myndi hefjast. Þú tókst þeim fréttum af æðruleysi og sagðir að svona væri þetta bara og við tækjum því. En ekki bjóst ég við að kveðja þig svona fljótt. 18. febrúar fórstu á spítalann og því miður komstu ekki aftur heim.

Ég er þakklát fyrir að hafa átt góðar stundir með þér og mömmu á spítalanum þar til þú kvaddir okkur.

Takk fyrir að hafa alltaf trú á mér og hjálpa mér í öllu því sem ég tók mér fyrir hendur.

Ég veit að það verður vel tekið á móti þér í sumarlandinu.

Ég mun gera mitt besta til að passa upp á mömmu og Hauk bróður eins og þú baðst mig um.

Þangað til næst,

Hallgerður.

Elsku vinur, þegar komið er að kveðjustund þá er margs að minnast frá liðinni tíð. Ég var svo heppinn að fá að vinna með þér á trésmíðaverkstæðinu og fá að taka þátt í mörgum fjölbreyttum verkefnum með þér þar sem útsjónarsemi þín og fagkunnátta nutu sín vel. Það var ekki bara lærdómsríkt að vinna og læra af þér, það var húmorinn og sögurnar og þeir kynlegu kvistir sem hringdu á verkstæðið oft í viku til að fá fréttir úr Súgandafirði. Allt var í föstum skorðum, morgunrútínan og kaffispjall áður en vinnudagurinn hófst, meira að segja kaffikannan var á tímastilli og var kaffið klárt og uppáhellt þegar komið var í vinnuna að morgni. Það eru mörg verkin sem liggja eftir þig í Súgandafirði til vitnisburðar um fjölbreytni vinnunnar hjá þér, útsjónarsemi var þér í blóð borin og man ég eina sögu þegar okkur var falið að smíða glugga í hús á Suðureyri þá var farið yfir á Ísafjörð til að kaupa efni í gluggana en það var ekkert til af oregon pine-efni nema í kaupfélaginu, þá voru til einhverjir afgangar af snúnu og skelfilegu efni sem setið hafði eftir og enginn vildi kaupa. Eftir að þú hafðir skoðað og mælt fram og til baka sagðir þú „við tökum þetta“. Mér var alveg óskiljanlegt hvernig þú ætlaðir að smíða úr þessu glugga, en svo byrjaðir þú að búta niður efnið eftir allskonar pælingar og eftir að búið var að rétta af timbrið sá ég hvernig þetta small allt saman og gluggarnir urðu til á mettíma, það var lítill sem enginn afgangur af efninu. Þá sá ég hvernig nýtnin og útjónarsemin sem okkar eldri kynslóðir þurftu að vinna með skilaði sér í þessu verkefni.

Ekki var lífið allt dans á rósum hjá þér elsku vinur, enginn getur gert sér í hugarlund hvernig það er að missa barn og ganga í gegnum þá miklu sorg nema þeir sem upplifa það sjálfir. Þegar ég var ungur að alast upp í Súgandafirði þá fylgdist maður með þér í fótboltanum, þú varst ótrúlega hæfileikaríkur og hefðir án efa átt góða framtíð fyrir þér í boltanum. Í lífinu er hægt að feta margar leiðir en sú leið sem maður velur með Bakkus sér við hlið er aldrei rétta leiðin. Það er margs að minnast elsku kallinn minn frá liðinni tíð en ég vil að lokum þakka þér fyrir samstarfið, samfylgdina í gegnum lífið, heilræðin, samtölin og samveruna í golfinu á Flórída og má segja að okkar vinskapur hafi verið upp á 10,5. Nú set ég á fóninn lagið „der er noget galt i Danmark“ eftir John Mogensen og hugsa til þín kæri vinur.

Að leiðarlokum kveð ég kæran vin og votta Dóru og fjölskyldu mína innilegustu samúð.

Sturla Eðvarðsson.