Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Afkomumál á breiðum grunni voru ofarlega á baugi í umræðum og ályktunum Búnaðarþings sem haldið var í síðustu viku. Tryggja þarf frekara fjármagn til landbúnaðar svo unnt sé að efla innlenda landbúnaðarframleiðslu til samræmis við landbúnaðarstefnu til ársins 2040, sem samþykkt var á Alþingi á sínum tíma. Í því sambandi minna bændur á að tollvernd skipti sköpum sem hluti af starfsskilyrðum landbúnaðar og efla þurfi eftirlit með innflutningi landbúnaðarvara. Þá þurfi við gerð næsta búvörusamnings við ríkið að yfirfara afkomuþróun í upphafi hvers árs svo hún endurspegli kjör bænda til samræmis við aðrar stéttir. Þeir opinberu fjármunir sem varið sé til landbúnaðar þurfi sömuleiðis að stuðla að aukinni framleiðslu og nýsköpun í sátt við umhverfið.
Samstaða þarf að nást
„Stóru málin á þinginu voru afkoma og starfsskilyrði bænda. Þetta eru atriði sem þarf að tryggja og ná samstöðu um, til dæmis við gerð næstu búvörusamninga,“ sagði Trausti Hjálmarsson, formaður Bændasamtaka Íslands, við Morgunblaðið.
„Yfirfara þarf regluverk um tolla bæði með tilliti til innflutningseftirlits og eins gjalda í tollskrá svo tollvernd styðji við innlenda landbúnaðarframleiðslu,“ segir í ályktun Búnaðarþings. Þar er jafnframt gerð sú krafa að innflutt vara sé framleidd við sömu skilyrði og innlendum framleiðendum er gert að starfa eftir.
Leita þarf leiða, segja bændur, til að tryggja hagstætt lánsfjármagn til landbúnaðar, bæði til nýliðunar og fjárfestingar sem hvetur til aukinnar framleiðslu. Stofna þyrfti til samtals við lánastofnanir um mismunandi útfærslu lána. Þegar kemur að nýliðun þarf að horfa á skattakerfið og horfa til fyrirkomulags í nágrannalöndum við eigendaskipti í landbúnaði.
Fæðuöryggi þjóðar verði tryggt
Varðandi heimaslátrun og -vinnslu þá var á Búnaðarþingi lagt til að reglugerð um lítil sláturhús á lögbýlum og heimilum verði þannig að heima á bæjum megi slátra nautgripum og hrossum, sbr. að þar má nú lóga sauðfé og geitum. Slíkt mundi gera sölu beint frá býli auðveldari. Einfaldari reglugerð hefði fjölþætt áhrif, meðal annars með því að auka framboð og fjölbreytni á innanlandsmarkaði og veita afurðastöðvum aðhald. Einnig auka samkeppni á markaði og draga úr áhrifum undanþáguákvæða afurðastöðva frá samkeppnislögum. Sömuleiðis væri þetta til að auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu og styrkja tengsl neytenda við íslenskan landbúnað.
Frá Búnaðarþingi má nefna ályktun um að heildstætt tillit verði tekið til alls sem hefur áhrif á fæðuöryggi. Þetta þurfi að koma inn í myndina við gerð þjóðaröryggisáætlunar, svo sem með að nægt landbúnaðarland sé aðgengilegt fyrir matvælaframleiðslu. Raunar er margt um fæðuröryggi samtóna því sem finna má í ályktunum sem nefndar eru hér að framan; það er að styrkja þurfi landbúnað sem grunnstoð og arðbæra atvinnugrein. Hvað varðar svo starfsskilyrðin, með tilliti til öryggis samfélags, segir að raforkuverð skuli vera sanngjarnt, sérstaklega fyrir grænmetisframleiðslu. Hækkandi orkuverð ógni tilvist greinarinnar. Mikilvægt sé jafnframt að viðhalda lágmarksbirgðum af aðföngum og nauðsynjum í landinu svo það sé á hverjum tíma minna háð innflutningi ef í harðbakkann slær.