Stefán Gunnar Sveinsson
Morðgátur eru sívinsælt sjónvarpsefni og hefur streymisveitan Netflix nú bætt einni slíkri til við fjölbreytta flóru þeirra með þáttaröðinni The Residence. Nafnið vísar þar til morðstaðarins, sem er vissulega af óvenjulegri endanum; sjálft Hvíta húsið, en þar hefur einhver myrt brytann A.B. Wynter (Giancarlo Esposito).
Til þess að leysa slíkt morð þarf að sjálfsögðu góðan rannsóknarlögreglumann, og lögreglan í Washington-borg kallar til þann allra besta, hina sérlunduðu Cordeliu Cupp (leikin af Uzo Aduba úr Orange is the New Black), sem virðist í fyrstu hafa meiri áhuga á fuglaskoðun heldur en sjálfu morðinu.
Fátt fer þó fram hjá Cordeliu þessari, sem þarf að þræða alls kyns nálaraugu eins og vera ber þegar morð er framið á hinum hápólitíska stað, og það í miðjum kvöldverði með forsætisráðherra Ástralíu og sendinefnd hans, að ógleymdri Kylie Minogue sem leikur sjálfa sig.
Nærri 200 manns liggja undir grun og þarf Cordelia að yfirheyra þá alla án þess að troða nokkrum um tær eða valda milliríkjadeilu, þar sem leikarinn Hugh Jackman kemur kannski við sögu… eða ekki.