Tímaritið The Atlantic birti í gær nær allan textann úr samtali helstu ráðgjafa Trumps Bandaríkjaforseta í þjóðaröryggismálum í spjallhópi sínum á samskiptaforritinu Signal, en þar hafði ritstjóra tímaritsins, Jeffrey Goldberg, verið bætt í spjallhópinn af misgáningi.
Var spjallhópurinn notaður til þess að ræða yfirvofandi loftárásir á Húta í Jemen, og hefur málið vakið miklar spurningar vestanhafs um meðferð trúnaðargagna.
Var birtingin svar Goldbergs við fullyrðingum helstu yfirmanna leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna, sem sögðu fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings í fyrrakvöld að ekkert sem rætt var í spjallinu hefði verið skilgreint sem „trúnaðarmál“ (e. confidential).
Héldu bæði Tulsi Gabbard, yfirmaður leyniþjónustustofnananna, og John Ratcliffe, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA, því fram við þingnefndina. Ákvað Goldberg í kjölfarið að spyrja hvort það væri í lagi að birta allan textann úr samtalinu, og fékk hann engin ákveðin svör um annað, að öðru leyti en að nafn á meðlimi CIA-leyniþjónustunnar var ekki birt að beiðni stofnunarinnar.
Staðfesti birtingin það sem Goldberg hafði áður haldið fram, að Pete Hegseth varnarmálaráðherra hefði birt í hópnum lýsingu á nákvæmum árásartímum sem og hvaða flugvélar, drónar og eldflaugar yrðu notuð í loftárásunum, áður en þær voru framkvæmdar. Þá voru einnig lýsingar á því hvaða árangur sumar af árásunum báru.
Mike Waltz þjóðaröryggisráðgjafi og Karoline Leavitt, talskona Hvíta hússins, svöruðu birtingunni í gær með því að neita því að um viðkvæmar upplýsingar hefði verið að ræða. Þá sögðu þau að upplýsingarnar hefðu ekki verið „hernaðaráætlanir“, og JD Vance varaforseti sagði að Goldberg hefði ýkt stórlega hvað hefði verið rætt í hópnum.
Gabbard og Ratcliffe sátu aftur fyrir svörum í gær, nú fyrir leyniþjónustunefnd fulltrúadeildarinnar. Jim Himes, oddviti demókrata í nefndinni, sagði í upphafi nefndarfundar ljóst að þær upplýsingar sem Hegseth birti í spjallhópnum hefðu hæglega getað komist í hendur Kínverja eða Rússa, og borist þaðan til Húta. Sagði Himes það Guði einum að þakka að bandarískir flugmenn hefðu ekki týnt lífi vegna trúnaðarbrestsins.
Gabbard var sérstaklega spurð út í framburð sinn degi fyrr hjá öldungadeildinni um að engin trúnaðargögn hefðu verið birt í spjallhópnum, og sagði hún að sá framburður hefði verið byggður á misminni sínu og hún hefði ekki tekið beinan þátt í spjallinu.
Signal ekki heppilegt
Glenn Gerstell, sem var yfirlögfræðingur þjóðaröryggisstofnunarinnar NSA frá 2015-2020, sagði við breska ríkisútvarpið í gær það vera óhugsandi að þær upplýsingar sem Hegseth birti hefðu ekki talist trúnaðarmál.
Þá ætti alls ekki að nota forritið Signal til þess að ræða opinber mál á borð við þessi, þar sem þó að forritið dulkóðaði skilaboð væri vel hægt að brjótast í þá farsíma sem notuðu það og komast yfir skilaboðin áður en þau væru dulkóðuð.
Þá staðfestu aðrir sérfræðingar í varnarmálum við BBC að upplýsingar um tímasetningar árása teldust trúnaðargögn og sagði Philip Ingram þær jafnvel geta talist „algjört leyndarmál“ (e. top secret).