Gillian Pokalo opnar einkasýningu sína Það birtir aftur/ The Light Comes Back í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins á Akureyri, á morgun, föstudaginn 28. mars, frá klukkan 17-20. Sýningin stendur til sunnudagsins 6. apríl. Segir í tilkynningu að sýningin hafi fæðst í skammdeginu, frá nóvember 2024 til mars 2025.
„Á tímanum þegar myrkrið umvefur okkur eins og hlýtt teppi og norðlæg dagsljós verða sannarlega töfrandi í hverfulleika sínum. Eitt slíkt fyrirbæri er glitský. Með því að sameina ljósmyndir í formi silkiþrykks og málverk fjallar þessi sería um hverfulleika, seiglu og heillandi heilunarmátt íslenskrar náttúru. Myndaröðin endurspeglar núverandi stöðu í heiminum og fangar þessi dýrmætu, fallegu augnablik sem eru tákn um von. Það birtir aftur.“
Þá hafi verk Gillian verið innblásin af landslagi Íslands og tilfinningaríkum himninum allt frá fyrstu heimsókn hennar árið 2014.