Baksvið
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Hefðbundinn garðsláttur gæti fyrr en síðar heyrt sögunni til, þökk sé nýjung á markaðnum.
Skólafélagarnir Arngrímur Egill Gunnarsson og Andri Þór Bergmann hafa stofnað fyrirtækið Garðfix sem býður upp á leigu á sjálfvirkum sláttuvélum, svonefndum slátturóbótum.
Félagarnir stofnuðu fyrirtækið árið 2023 og var árið í fyrra fyrsta heila rekstrarárið.
„Ég fékk hugmyndina þegar pabbi fjárfesti í slátturóbót árið 2021 og fól mér að sjá um hann. Ég sá fljótlega hvernig garðurinn gjörbreyttist á aðeins einu sumri,“ segir Arngrímur Egill sem notar orðið róbót í þessu samhengi. Einnig mætti ræða um sláttuþjarka.
Átti kennitölu
„Ég átti þá kennitölu frá árinu 2022 utan um aðra viðskiptahugmynd sem ég hafði ekki verið að nota og þannig varð Garðfix til. Ég heyrði í Andra Þór og hann kom með mér í þetta. Ég hefði ekki haldið áfram einn ef ekki hefði verið fyrir Andra Þór. Mig langaði alltaf að búa eitthvað til með einhverjum öðrum. Við Andri Þór erum skólafélagar í Verzlunarskólanum og höfðum þetta árið verið í miklum hugleiðingum um að stofna eitthvað saman og svo sá ég kjörið tækifæri í að hanna eitthvað í kringum slátturóbótana,“ segir Arngrímur Egill.
„Hann kom til mín og sagðist vera með hugmynd. Svo vorum við allan veturinn 2023 að leggja grunninn að fyrirtækinu. Við vildum hafa allt tilbúið áður en við færum af stað,“ segir Andri Þór.
Slá grasið daglega
Garðslátturinn fer þannig fram að Garðfix leigir viðskiptavinum slátturóbóta í fimm mánuði á ári, frá byrjun maí og fram á haust. Róbótarnir eru framleiddir af Husqvarna.
„Róbótarnir slá grasið á hverjum degi og við stillum þá þannig að þeir slá grasið mjög ört svo það fellur smátt niður í jörðina og verður eins og áburður. Því þarf ekki að raka og heyja túnin. Við tókum strax eftir því að slátturinn styrkir grasvöxtinn, þykkir grasið og gerir það grænna,“ segir Arngrímur Egill.
„Aðferðin felur því í sér hringrás og sjálfbærni en í stað þess að þurfa að urða grasið nýtist það sem áburður,“ segir Andri Þór.
Það hljómar of gott til að vera satt?
„Það er rétt,“ segir Arngrímur Egill. „Við höfum fundað með fulltrúum sveitarfélaga og þeir hreinlega trúa því ekki að þetta sé raunin.“
Margir sláttuþjarkar eru í boði hjá Garðfix sem slá frá 400 og upp í 50 þúsund fermetra grasflöt. Þeir eru rafknúnir og því þarf að hafa hleðslustöð.
Að sögn Andra Þórs hafa ekki komið upp vandamál vegna þessa. Fyrirtækið sé enda lausnamiðað og hægt sé að setja upp raftengil sé þess þörf.
Eftirlit allan sólarhringinn
En hvað skyldi slátturinn kosta?
„Við erum ekki með fast verð heldur metum við aðstæður hjá hverjum og einum viðskiptavini út frá stærð og hvernig garðurinn er í heild sinni. Síðan er gefið tilboð fyrir fimm mánuði ársins en greitt er fyrir tímabilið frá maí til september. Róbótinn byrjar að vinna í byrjun maí og er tekinn inn í geymslu í lok september. Þetta eru því fimm mánuðir. Gerður er þriggja ára samningur og greitt fyrir 15 mánuði. Við sjáum um allt saman,“ segir Arngrímur Egill en innifalið í verði er uppsetning, geymsla yfir vetrarmánuðina og eftirlit allan sólarhringinn. Ef til dæmis sláttuhnífurinn skemmist er skipt um hann samdægurs eða næsta dag.
„Við höfum borið verð okkar saman við markaðsverð á garðslætti og reynumst við oftar en ekki vera á pari við hin fyrirtækin eða vera með jafnvel lægra verð á stórum flötum, þrátt fyrir að slá grasið á hverjum degi,“ segir Arngrímur Egill en verðið er frá 31.999 krónum á mánuði.
Með GPS-tæki
Spurður hvað sé gert ef slátturóbóta er stolið, en þeir geta kostað talsvert fé, segir Arngrímur Egill þjarkana búna GPS-staðsetningartæki. „Ef hann er tekinn sjáum við nákvæmlega hvar hann er og höfum þá undir eins samband við lögregluna,“ segir Arngrímur Egill.
Arngrímur Egill segir aðspurður rótbótana ekki hafa lent í vandræðum út af aðskotahlutum á flötunum. Þeir láti strax vita ef sláttuhnífurinn festist en það hafi einu sinni gerst þegar sláttuhnífur flæktist í bandi. Þá sé skipt um hnífa á kostnað Garðfix.
„Við tökum fulla ábyrgð á okkar tækjum og viljum einfalda viðskiptavinum okkar lífið,“ segir Arngrímur Egill.
„Eftirspurn var umfram væntingar fyrsta sumarið og ákváðum við því að loka fyrir áskrift til að geta tryggt góða þjónustu á fyrsta rekstrarári,“ segir Andri Þór. „Við erum að fjölga róbótum og stefnum á að margfalda umsvifin í sumar. Við höfum starfað á höfuðborgarsvæðinu en erum að útvíkka markaðssvæðið. Við sækjum viðskiptavini með gott orðspor en við leggjum mikið upp úr því að viðskiptavinir okkar séu með þeim ánægðustu. Við gerðum þjónustukönnun í fyrra og mældist viðskiptaánægja þá 98,5%. Við viljum halda þeirri háu einkunn,“ segir Arngrímur Egill.
Ryksuguróbótar eru orðnir algengir á íslenskum heimilum. Slátturóbótar eru hins vegar sjaldgæfari sjón á Íslandi.
Mikil reynsla af róbótunum
Arngrímur Egill segir frumgerðir slátturóbóta hafa komið fram fyrir aldamót og að mikil reynsla sé komin af notkun þeirra víða um heim, m.a. annars staðar á Norðurlöndum.
„Við eigum oft í samræðum við viðskiptavini sem eru hissa á að þessi tækni sé í boði. Við Íslendingar erum á eftir hinum norrænu löndunum hvað varðar notkun slátturóbóta og ekkert sem bendir til annars en að notkun þeirra eigi eftir að aukast mikið á Íslandi. Við vitum að róbótar eru framtíðin. Það er aðeins spurning hvenær Íslendingar átta sig á hvílík snilld tæknin er og hvenær allir ætla að hoppa á vagninn,“ segir Arngrímur Egill.
Með viðskipti í blóðinu
Þeir félagar eiga ekki langt að sækja viðskiptavit og frumkvöðlaanda.
Faðir Arngríms Egils er Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, og móðurbróðir Andra Þórs, Árni Freyr Magnússon, er með eigin atvinnurekstur.
„Árni Freyr er mikill athafnamaður en hann rekur Aurora Igloo Hotels. Ég hef fengið mikla hvatningu frá honum. „Þú verður að fara að gera eitthvað,“ sagði hann reglulega við mig. Hann var alltaf að hvetja mig áfram,“ segir Andri Þór um móðurbróður sinn.
„Það er gott að hafa gott bakland,“ segir Arngrímur Egill.
„Við erum heppnir með fólk í kringum okkur. Við erum stöðugt að fá gagnrýni, hrós eða aðstoð og það gagnast okkur mikið,“ segir Andri Þór að lokum.