Kristrún Frostadóttir
Kristrún Frostadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Forystugrein Viðskiptablaðsins í gær snýr að undirbúningi almennra skattahækkana hjá ríkisstjórninni: „Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er augljóslega farin að undirbúa jarðveginn fyrir skattahækkanir

Forystugrein Viðskiptablaðsins í gær snýr að undirbúningi almennra skattahækkana hjá ríkisstjórninni: „Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra er augljóslega farin að undirbúa jarðveginn fyrir skattahækkanir.

Í síðustu viku lét hún þau orð falla að staða ríkisfjármála væri hugsanlega verri en ráðamenn ríkisstjórnarinnar gerðu ráð fyrir. Þetta er í besta falli fyrirsláttur. […] Ríkissjóður á ekki við tekjuöflunarvanda að stríða. En hann á við útgjaldavanda að etja. Það er engin lausn á þeim vanda að auka skattheimtu á fólk og fyrirtæki.

Bent er á að stjórnin hafi boðað sértæka skatta á ferðaþjónustu og tvöföldun veiðigjalda á arðbærari hluta sjávarútvegsins, sem er í takt við þá stefnu að skattleggja landsbyggðina frekar en mölina. Ramakvein forsætisráðherra um tóman ríkiskassa og tal um nýja „stöðugleikareglu“ benda hins vegar til þess að almennar skattahækkanir – afsakið „leiðréttingar“ – séu í aðsigi.

Því er rétt að rifja upp skilyrði Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur formanns Viðreisnar fyrir ríkisstjórnarþátttöku: „Við ætlum ekki að hækka tekjuskatt á fólk, við ætlum ekki að hækka skatta á lögaðila, við ætlum ekki að hækka fjármagnstekjuskatta og við ætlum ekki að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu.“