Ábyrgðarleysi er orð sem lýsir nýjustu áformum ríkisstjórnarinnar ágætlega

Ríkisstjórnin kynnti í fyrradag áform um enn frekari sértæka skattlagningu á sjávarútveginn. Þetta eru ekki hugmyndir af minna taginu; tvöföldun skattheimtunnar er það sem ríkisstjórnin býður upp á að þessu sinni.

Einhverjir hljóta að velta því fyrir sér hvort stjórnvöldum sé alvara með slíkum tillögum. Getur verið að svo sé eða býr annað að baki? Er þetta mögulega einhvers konar samningatækni, eitthvað sem ráðherrar hafa lært af þeim sem stýrir úr Hvíta húsinu og er stundum talinn skella fram hugmyndum sem séu fremur ætlaðar til að skapa samningsstöðu en að ætlunin sé að ná þeim óbreyttum í gegn? Getur verið að íslenskir ráðherrar hafi lært „list dílsins“ og telji að þessi leið sé best til þess fallin að ná að lokum fram einhverjum breytingum?

Það væri í það minnsta betri skýring á þeim skattahækkunaráformum sem kynnt hafa verið en að ríkisstjórnin trúi því sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu, að það muni „hafa óveruleg áhrif á þau byggðalög þar sem sjávarútvegsfyrirtæki eru staðsett“.

Slík fullyrðing í greinargerð frumvarps vekur líka spurningar um hvar slíkur texti verður til. Er hugsanlegt að íslenskt stjórnsýsla sé orðin svo laustengd lífinu í landinu að þar detti mönnum í hug að hægt sé að tvöfalda sérstaka skattheimtu á undirstöðuatvinnugrein byggðanna án þess að það hafi nokkur áhrif? Eða eru menn með hugann við annað?

Fyrir rúmum áratug gafst Samfylkingin upp á því í öðru stjórnarsamstarfi að koma Íslandi inn í Evrópusambandið, en nú á að reyna á ný í samfloti við Flokk fólksins og Viðreisn. Enn hafa ekki verið gefnar fullar skýringar á því að ferðin til Brussel reyndist ófær á þeim tíma en þó má telja víst að þar hafi sjávarútvegsmál ráðið mestu. Í ljós kom, sem allir hafa svo sem mátt vita lengi, að íslenskur sjávarútvegur yrði settur undir erlend yfirráð gengjum við í Evrópusambandið. Það hefur ekki breyst og á meðan íslenskur sjávarútvegur er burðug atvinnugrein, einn helsti burðarásinn í íslensku atvinnulífi og grundvöllur þeirrar miklu velferðar sem hér ríkir, er vandasamt fyrir ríkisstjórnina að láta Brussel-drauminn rætast. Með því að grafa undan greininni og veikja hana þannig að hún líkist meira sjávarútvegi innan Evrópusambandsins og verði jafnvel upp á ríkisstyrki komin kann að vera að ákafir Evrópusambandssinnar telji líklegt að leiðin til Brussel verði greiðari.

Ólíkt því sem ríkisstjórnin heldur fram mundi það frumvarp sem nú hefur verið kynnt hafa gríðarleg áhrif víða um land yrði það að lögum. Þetta er líklega ein ástæða þess að skyndilega liggur lífið á að afgreiða málið og hefðbundinn frestur til umsagna jafnvel styttur svo að gagnrýnendum gefist síður færi á að skoða málið til hlítar. Þetta eru ofan á annað í þessu máli óviðunandi vinnubrögð sem engin ríkisstjórn getur leyft sér í svo þýðingarmiklu efni. Í stað þess að ana áfram þarf þvert á móti að staldra við, skoða vandlega röksemdir málsins, gera úttektir á áhrifum og annað sem sjálfsagt er með svo viðamiklar hugmyndir. Telji ráðherrar raunverulega að málstaðurinn sé góður geta þeir ekkert haft við slíkt að athuga.