Viðtal
Anna Rún Frímannsdóttir
annarun@mbl.is
„Það gerðist eiginlega óvart að hinseginleikinn varð að ákveðnu þema á leikárinu,“ segir Valur Freyr Einarsson, leikstjóri Fjallabaks, inntur eftir því hvers vegna þessi sýning hafi orðið fyrir valinu.
„Það voru til dæmis samkynhneigðir karakterar í verkunum Ungfrú Ísland og Óskaland þó svo að hinseginleikinn væri ekki beinlínis umfjöllunarefnið í þeim sýningum. Fjallabak dettur inn í þemað sem tragísk og hjartaskerandi ástarsaga á milli tveggja manna, stútfull af lífi og húmor,“ bætir hann við en verkið verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins annað kvöld, föstudaginn 28. mars, klukkan 20.
Glæný útfærsla á verkinu
Verkið Fjallabak byggist á samnefndri smásögu Annie Proulx en fyrir hana hlaut hún Pulitzer-verðlaunin. Síðar gerði leikstjórinn Ang Lee kvikmynd eftir sögunni en þar segir frá kúrekunum Ennis og Jack sem hittast fyrir tilviljun þegar þeir vinna saman við að smala búfé á fjöllum í Bandaríkjunum. Ytri tími sögunnar gerist um miðbik síðustu aldar og þrátt fyrir gríðarlega fordóma samfélagsins dragast þeir hvor að öðrum og reyna eftir fremsta megni að höndla ástina. Með hlutverk elskhuganna fara þeir Hjörtur Jóhann Jónsson og Björn Stefánsson en aðrir leikarar í sýningunni eru Esther Talía Casey, Hilmir Snær Guðnason og Íris Tanja Flygenring.
Aðspurður segir Valur Freyr sögu Proulx hafa tekið á sig ýmsar myndir í gegnum tíðina en verkið hafi hins vegar í fyrsta sinn verið sett upp í leikhúsi fyrir tveimur árum. „Það var á West End en sú leikgerð er aðeins öðruvísi heldur en þessi leikgerð sem við erum að vinna með því við óskuðum eftir því að einn karakterinn yrði tekinn út sem okkur fannst ekki gera neitt fyrir sýninguna. Höfundur leikgerðarinnar, Ashley Robinson, tók vel í þá ósk og sendi okkur nýja leikgerð. Þetta verður því í fyrsta sinn sem þessi útfærsla á sögunni er gerð í leikhúsi.“
Saga óháð tíma og rúmi
Spurður að því hvort sagan sé á einhvern hátt staðfærð yfir í nútímann eða íslenskar aðstæður segir Valur Freyr svo ekki vera.
„Sagan stendur algjörlega fyrir sínu því um er að ræða tengslasögu um ást í meinum. Fókusinn er því á sambandið og allar hindranirnar sem þeir Ennis og Jack standa frammi fyrir. Þetta snýst um baráttuna fyrir því að fá að elska og fá að vera. Sú saga er alþjóðleg svo það skiptir ekki öllu máli hvar hún gerist. Við tengjum alveg jafn vel við hana þó hún gerist á þessum stað og þessum tíma. Það væri því mjög afkáralegt að fara að færa hana eitthvað til,“ segir hann og hlær.
Þá telur Valur Freyr bæði blessun og hindrun felast í því að setja upp verk sem búið sé að kvikmynda.
„Því það eru mjög margir með einhvers konar fyrirframákveðnar hugmyndir um hvað þeir eru að fara að sjá. Verkefnið snýst hins vegar um það að vita af hverju við erum að segja þessa sögu í leikhúsinu og af hverju hún er mikilvæg. Bíómyndin er í raun aukaatriði því sagan sem slík er aðalatriðið. Á hún erindi, skiptir hún máli og er enn þörf á að segja hana? Því miður er það niðurstaðan. Það er enn þörf á að segja þessa sögu. Sögu þar sem hinseginleikinn fær sitt pláss,“ segir hann og bætir því við að í rauninni sé þörfin meiri í dag en fyrir tíu árum.
Ákveðið bakslag átt sér stað
Nefnir Valur Freyr máli sínu til stuðnings það bakslag sem orðið hafi í baráttu hinsegin fólks.
„Það eru blússandi fordómar gagnvart hinsegin fólki út um allt, sem er mjög sláandi að upplifa. Í þessu ferli okkar höfum við fengið marga einstaklinga til okkar í heimsókn, af ýmsum kynslóðum, bæði eldri menn sem upplifðu þennan tíma sem sagan gerist á og hvernig baráttan var ólík því sem hún er í dag, og svo yngri menn sem ólust upp úti á landi og tengja við þennan smábæjarbrag, eins og í sögunni, þar sem fordómar ráða oft ríkjum. Í smábæjum erlendis hefur baráttan stundum verið upp á líf og dauða. Það er enginn sem stígur út úr einhverjum skáp í slíkum aðstæðum. Þó aðstæður á Íslandi hafi kannski ekki verið alveg svo slæmar voru þær samt alveg á mörkum þess,“ segir hann og tekur sem dæmi sögu Harðar Torfa sem sé mjög sláandi.
„Það sama má segja um sögu margra Íslendinga sem flúðu land því það var ekki pláss fyrir þá hér. Því miður virðist vera komið bakslag í mannréttindabaráttu þessa fólks. Það sem hjálpaði mér að taka ákvörðun um hvort ég ætti að taka þetta verkefni að mér var að ég fór að rifja upp hvort ég hefði einhvern tímann í leikhúsi séð ástarsögu tveggja manna eða tveggja lesbía. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tímann séð það á sviði. Þannig að ég hugsaði með mér að það væri komið árið 2025 og kannski kominn tími til að segja svoleiðis sögu. Þetta verk ætti að draga úr öllum fordómum og hjálpa okkur að horfa á meðbræður okkar út frá réttum forsendum.“
Aðalleikararnir góðir vinir
Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort Valur Freyr hafi frá upphafi verið með þá Hjört Jóhann og Björn í huga fyrir burðarhlutverkin.
„Valið á þeim tveimur lá ekki alveg fyrir frá upphafi en það var samt uppástunga leikhússtjóra við mig að þeir myndu leika þetta. Fyrir mér var þetta helst spurning um hvort viðkomandi leikari hefði þroska og möguleika til að standa á sviðinu í mjög berskjölduðu leikriti og í mjög tilfinningahráu umhverfi. Stærsta áskorun leikara yfirhöfuð er að fela sig ekki. Þú þarft ákveðinn þroska til að komast þangað. Það tekur visst marga klukkutíma fyrir leikara á sviði að kynnast sjálfum sér sem leikara og átta sig á styrkleikum sínum og veikleikum,“ segir hann og nefnir í framhaldinu að honum hafi fundist þeir tveir akkúrat vera á þeim tímapunkti á sínum ferli að smellpassa í hlutverkin.
„Sagan gerist á 20 árum og þeir eru í rauninni aldurslega séð á eldri mörkunum fyrir hlutverkin en mér fannst það bara svo mikilvægt upp á þennan þroska að gera. Þetta krefst þess að leikarinn geti setið í sér en það gilda aðeins önnur lögmál í leikhúsi en í bíói. Við þurfum ekki að eltast eins mikið við einhvern natúralisma. Fyrir utan það eru þeir mjög góðir vinir. Þannig að þeir þekkjast mjög vel og það ríkir mikið traust á milli þeirra. Þá er hálfur sigur unninn í leikstjórnarvinnunni því þetta leikrit byggist mikið á trausti.“
Vel útfærð leikmynd
Auk leikaranna á sviðinu er tveggja manna hljómsveit sem skipa þeir Guðmundur Pétursson og Þorsteinn Einarsson en allir söngtextarnir í verkinu eru þýddir á íslensku af Sigurbjörgu Þrastardóttur.
„Það fylgir ákveðin tónlist verkinu en við fengum leyfi til að gera hana að okkar. Ég er þarna með tvo ótrúlega færa tónlistarmenn og svo syngur Esther með þeim. Leikmyndin er svo alveg frábærlega vel útfærð en hann Seli [Axel Hallkell Jóhannesson] hannaði hana. Áhorfandinn stígur inn í mjög skýran og sterkan heim þegar hann gengur inn í salinn, sem er mjög spennandi,“ segir Valur Freyr og svarar því aðspurður að lokum að æfingar hafi gengið mjög vel.
„Svo sannarlega! Það er mikil eftirvænting í hópnum fyrir frumsýningunni á morgun.“