Deildarmeistarar Pétur Rúnar Birgisson fyrirliði Tindastóls lyfti bikarnum í Síkinu á Sauðárkróki eftir sannfærandi sigur gegn Val.
Deildarmeistarar Pétur Rúnar Birgisson fyrirliði Tindastóls lyfti bikarnum í Síkinu á Sauðárkróki eftir sannfærandi sigur gegn Val. — Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tindastóll varð í gærkvöld deildarmeistari karla í körfuknattleik í fyrsta skipti með því að vinna nýkrýnda bikarmeistara Vals á sannfærandi hátt, 88:74, í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á Sauðárkróki í gærkvöld

Körfuboltinn

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Tindastóll varð í gærkvöld deildarmeistari karla í körfuknattleik í fyrsta skipti með því að vinna nýkrýnda bikarmeistara Vals á sannfærandi hátt, 88:74, í lokaumferð úrvalsdeildarinnar á Sauðárkróki í gærkvöld.

Íslandsmeistarar Vals hafa verið á mikilli siglingu eftir áramótin en áttu í raun aldrei möguleika á Króknum eftir að Tindastóll náði afgerandi forskoti á lokakafla fyrri hálfleiks.

Stjarnan hefði getað náð titlinum með sigri gegn Njarðvík á heimavelli ef Tindastóll hefði tapað. Njarðvíkingar unnu hins vegar þann leik, 110:103, eftir miklar sveiflur og spennu en hefðu þurft að vinna með fjórum stigum meira til þess að ná öðru sætinu úr höndum Garðbæinga. Liðin enda jöfn að stigum en stigaskorið innbyrðis er Stjörnumönnum í hag.

Valsmenn enda í fjórða sætinu, sem þeir voru öruggir með fyrir lokaumferðina, en þeir hefðu getað komist upp fyrir Njarðvíkinga með sigri, ef Suðurnesjaliðið hefði tapað í Garðabæ.

KR-ingar gáfu eftir

Grindavík lagði KR að velli í spennuleik í Smáranum, 86:83, og náði með því fimmta sætinu en KR hefði komist í úrslitakeppnina með sigri. Vesturbæingar voru yfir lengi vel en gáfu eftir á lokakafla leiksins.

Keflvíkingar sigruðu Þórsara í Þorlákshöfn, 119:114, í æsispennandi leik tveggja liða sem hófu lokaumferðina í níunda og tíunda sæti og voru í slag við KR og ÍR um tvö síðustu sætin í úrslitakeppninni.

ÍR vann Hauka í Hafnarfirði, 91:80, og þar með voru það ÍR og Keflavík sem náðu sjöunda og áttunda sætinu og halda áfram en tímabilinu er lokið hjá KR og Þór sem enduðu í níunda og tíunda sætinu.

Höttur kvaddi með sigri

Höttur kvaddi deildina með sigri gegn Álftanesi á Egilsstöðum, 99:95, og endaði því fjórum stigum fyrir ofan botnlið Hauka en sex stigum frá því að bjarga sér frá falli. Álftanes var alltaf öruggt með að minnsta kosti sjötta sætið, sem varð hlutskipti liðsins.

Þar með mætast þessi lið í úrslitakeppninni:

Tindastóll – Keflavík

Stjarnan – ÍR

Njarðvík – Álftanes

Valur – Grindavík

Fyrstu leikirnir fara fram á miðvikudags- og fimmtudagskvöld, 2. og 3. apríl og átta liða úrslitin geta staðið fram á föstudaginn langa, 18. apríl, en þá fara fram oddaleikir ef til þeirra kemur. Þrjá sigra þarf til að komast í undanúrslitin.

Arnar stigahæstur á Króknum

Sigtryggur Arnar Björnsson skoraði 20 stig fyrir Tindastól gegn Val, Adomas Drungilas 17 og Sadio Doucoure 16. Giannis Agravanis tók 14 fráköst fyrir Stólana. Taiwo Badmus skoraði 14 stig fyrir Val, Kári Jónsson 13 og Kristinn Pálsson 13.

Dwayne Lautier-Ogunleye skoraði 27 stig fyrir Njarðvík gegn Stjörnunni, Khalil Shabazz 22 og Mario Matasovic 21 en Ægir Þór Steinarsson skoraði 26 stig fyrir Stjörnuna, Hilmar Smári Henningsson 26 og Orri Gunnarsson 20. Lautier-Ogunleye endar með besta meðalskor allra í deildinni, 24,4 stig í leik.

Jeremy Pargo skoraði 25 stig fyrir Grindavík gegn KR, Deandre Kane 19 og Daniel Mortensen var með 18 stig og 12 fráköst. Nimrod Hilliard skoraði 27 stig fyrir KR, Þorvaldur Orri Árnason 13 og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 12. Þórir átti 5 stoðsendingar og endaði með flestar að meðaltali í deildinni, 8,7 í leik.

Jacob Falko skoraði 18 stig fyrir ÍR gegn Haukum, Zarko Jukic 18 og Hákon Örn Hjálmarsson 16. Hugi Hallgrímsson skoraði 17 stig fyrir Hauka, Seppe D’Espallier 17 og Everage Richardson 16.

Ty-Shon skoraði 38 stig

Ty-Shon Alexander fór á kostum í sóknarleik Keflavíkur gegn Þór og skoraði 38 stig. Igor Maric skoraði 19 og Halldór Garðar Hermannsson 17. Jordan Semple skoraði 31 stig fyrir Þór, Mustapha Heron 30 og Justas Tamulis var með 26 stig og 10 stoðsendingar. Semple endar með flest fráköst að meðaltali í deildinni, 11,5 í leik.

Nemanja Knezevic var með 21 stig og 13 fráköst fyrir Hött gegn Álftanesi, Adam Heede Andersen skoraði 18 og David Guardia 16. Justin James skoraði 27 stig fyrir Álftanes, Haukur Helgi Pálsson 17 og Dimitrios Klonaras 15.

Höf.: Víðir Sigurðsson