Eiríkur Kristinn Kristófersson fæddist 21. desember 1943. Hann lést 8. mars 2025.
Útför Eiríks fór fram 22. mars 2025.
Oft er talað um farfugla sem vorboða, með þeim kemur betra veður og meiri birta, þannig var koma vorboðanna tilhlökkunarefni og er það auðvitað enn. Finnst okkur ekki öllum að vorið sé jákvæður tími, með væntingum um betri tíð og blóm í haga?
Í starfi mínu í Kerlingarfjöllum var koma Eiríks Kristóferssonar og hans smalafólks ávallt til marks um að vetur konungur myndi brátt mæta á svæðið. Það var að mínu mati gleðilegt að hafa kindurnar, sem flestar komu frá Grafarbakka, í dalnum og fylgjast með þeim dafna og ekki síður að fylgjast með því þegar Eiríkur mætti að hausti og heilsaði þeim með gleði.
Og þegar hann og þeir samferðamenn hans voru farnir var jafnan tómlegt um að lítast, kyrrðin og haustlitir tekin við eftir annir sumarsins, ferðamennina, rykið og flugurnar. Við tók önnur árstíð með sinni fegurð og væntingum.
Þegar fór að líða á ágústmánuð fórum við sem höfðum starfsstöðvar höfðum í Ásgarði að láta okkur hlakka til komu Eiríks og hans félaga og þegar hann mætti með sitt hafurtask, á traktor og fjölnotavagni, ásamt tveim til þrem undanförum sem átti að hlaupa um fjöllin var reynt að tryggja að við hefðum bíl sem hann gæti nýtt til að koma sínum mönnum til leitar.
Á þessum 22 árum sem ég var þarna varð góð vinátta með okkur Eiríki og oft leituðum við hvor til annars, hann hjálpaði okkur með smá viðvik, akstur eða annað því tengt, en hans áhugi var að frétta af sínu fé. Þau samskipti voru mér ávallt gleðileg og ég mat þau mikils sem og vináttu Eiríks og þeirra hjóna.
Fréttin af ótímabæru andláti hans var óvænt og ófyrirséð. Í kjölfarið hafa rifjast upp margar góðar minningar sem ég vil þakka með þessum fátæklegu skrifum mínum.
Því miður kemst ég ekki til að kveðja þig kæri Eiríkur, en ég mun hugsa til þín meðan athöfnin fer fram og minnast margra sameiginlegra gleðistunda. Áslaugu og fjölskyldu votta ég samúð.
Páll Gíslason.