Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Uppsteypa rannsóknahúss við nýja Landspítalann er komin vel á veg og er áætlað að henni ljúki í árslok. Búið er að steypa kjallara og er nú verið að steypa fjórðu hæðina. Húsið verður 5 hæðir og kjallari.
Eykt sér um uppsteypuna en fyrirtækið varð hlutskarpast í útboði um verkið. Rannsóknahúsið er um 18.500 fermetrar og er á milli nýs tækni- og bílastæðahúss, sem verið er að leggja lokahönd á, og Læknagarðs sem verið er að stækka með viðbyggingu.
Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf., segir að nú séu um 60 manns að vinna á verkstað rannsóknahússins.
„Áætlaður kostnaður við uppsteypu er um fimm milljarðar með virðisaukaskatti. Gert er ráð fyrir að uppsteypu ljúki í árslok og að lokasnúningur á verkefnum verði í janúar á næsta ári.
Í uppsteypuverki er allt stálvirki, ásamt stálstigum, en gerður var viðaukasamningur við [litáíska útveggjaverktakann] Staticus um hönnun og uppsetningu útveggjaeininga og þakglugga í miðrými, þ.e. lokun hússins,“ segir Gunnar en þeim áfanga ljúki á næsta ári.
Til upprifjunar setti Staticus líka upp útveggjaeiningar á nýja meðferðarkjarnanum og lauk því verki í byrjun ársins. Tók það um 14 mánuði.
Bjóða næst út frágang
Að sögn Gunnars verður næst boðinn út allur innanhússfrágangur í rannsóknahúsinu, þ.m.t. tæknikerfin eins og til dæmis loftræsting.
„Í undirbúningi eru einnig fjölmörg útboð vegna búnaðar og rannsóknartækja sem munu verða tilbúin um leið og húsið verður tekið í notkun, sem er áætlað í ársbyrjun 2029,“ segir Gunnar jafnframt.
Sjö meginrannsóknastofur Landspítalans verða sameinaðar í rannsóknahúsinu en þær eru nú á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Að sögn Gunnars er um að ræða þjónustu- og vísindarannsóknir á vegum Landspítalans en einnig verður þar starfsemi Blóðbankans sem nú er á Snorrabrautinni. Þá verði rannsóknahúsinu í Ármúla 1A alfarið lokað en það sé í bágbornu ástandi.
Aðstaða fyrir meinafræði
Auk þessara rannsókna verði meinafræðingar spítalans með aðstöðu í rannsóknahúsinu en þar muni jafnframt fara fram krufningar. Þannig verði þar líkhús og aðstaða fyrir réttarmeinafræði.
Loks segir Gunnar að rannsóknahúsið verði tengt við nálægar byggingar með tengigöngum, þ.e.a.s. við tækni- og bílastæðahúsið til vesturs, nýja meðferðarkjarnann til norðurs og Læknagarð til austurs. Sjálfvirk kerfi, þar með talinn stafrænn rörpóstur til flutnings á sýnum, lyfjum og blóði, muni tryggja meira öryggi.