Hjónin Helga Jóna og Óskar við fjölskyldubústaðinn á leið í Tungnaréttir.
Hjónin Helga Jóna og Óskar við fjölskyldubústaðinn á leið í Tungnaréttir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óskar Guðmundsson fæddist 28. mars 1965 á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Hann bjó fyrstu árin í Reykjavík og fram til 10 ára aldurs í Kópavogi þar til foreldrar hans byggðu hús í Garðabæ. „Ég æfði og spilaði knattspyrnu með Stjörnunni en var þó…

Óskar Guðmundsson fæddist 28. mars 1965 á Fæðingarheimili Reykjavíkur. Hann bjó fyrstu árin í Reykjavík og fram til 10 ára aldurs í Kópavogi þar til foreldrar hans byggðu hús í Garðabæ. „Ég æfði og spilaði knattspyrnu með Stjörnunni en var þó í sveit á sumrin, frá 1975 til 1981, á Nýjabæ á Kirkjubæjarklaustri.“

Óskar var í barnaskólanum Flatarskóla, gagnfræðaskólanum Garðaskóla og útskrifaðist síðan sem stúdent frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. „Þar áttu félagsstörfin hug minn allan þar til á síðustu önn að skólameistarinn kallaði mig inn til sín þar sem hann spurði hvort ég hefði ekki hug á því að útskrifast og bannaði mér frekari afskipti af nefndarstörfum, sem var gæfuríkt skref.

Líkt og hjá mörgum voru menntaskólaárin þau allra bestu og þar held ég að drögin að ritstörfum hafi í raun hafist þó svo að þau kæmu í raun ekki við sögu fyrr en um þrjátíu árum síðar. Við skólafélagarnir unnum að handritum og framleiddum þrjár gamanseríur sem nefndust Skólaskop. Það var ávallt draumur minn eftir stúdentinn að fara utan í kvikmyndaskóla en eins og stundum vill verða geta draumar breyst.“

Frá árinu 1972 til ársins 1980 var Óskar í Tónlistarskólanum í Kópavogi og lærði á fiðlu undir leiðsögn Inga B. Gröndal.

Árið 1989 fór Óskar til Stuttgart, þar sem hann lagði stund á sjóntækjafræði. „Ég útskrifaðist þaðan árið 1993 og vann í þeim geira fram til ársins 2003 en þá lagði ég þá iðju til hliðar og hef verið með eigin rekstur í ráðgjafarþjónustu sem ég stunda enn í dag. Ég hef ætið haft áhuga á hönnun og listum en ég hannaði t.a.m. gleraugu frá grunni á viðskiptavini, hélt sýningu með frumlegum gleraugum og hannaði gleraugnalínu fyrir erlenda framleiðendur sem var seld víða um heim og gekk undir nafninu Modesty Blaise. Þá hef ég teiknað og málað og haldið þó nokkrar listsýningar í gegnum árin.“

Ritlistin hafði blundað í Óskari frá því að hann var unglingur. „Þó má segja að það sem ég skrifaði hafi einungis verið fyrir „skúffuna“. Það var ekki fyrr en ég var að nálgast fimmtugsaldurinn að ég ákvað að fara alla leið og skrifaði mína fyrstu fullkláruðu skáldsögu sem fékk nafnið Hilma en hún kom út árið 2015. Það kom sennilega sjálfum mér mest á óvart að Hilma hlaut Blóðdropann sem besta glæpasagan sem kom út það árið og var um leið tilnefnd sem besta glæpasagan gefin út þetta árið á Norðurlöndum. Ég hef notið mín í skrifunum og er í dag að vinna að minni sjöttu skáldsögu, sem mun koma út á þessu ári.“

Óskar hefur alls þrisvar sinnum verið tilnefndur til Blóðdropans og Dansarinn, sem kom út árið 2021, hlaut Íslensku hljóðbókaverðlaunin sem besta glæpasagan það árið. Tvær skáldsagnanna hafa verið gefnar út í Bretlandi og allar skáldsögurnar hafa verið gefnar út á Norðurlöndunum hjá Storytel. „Vinna að sjónvarpsþáttagerð um Hilmu er langt á veg komin, en einnig að tveimur öðrum skáldsögum mínum sem ekki er hægt að fara nánar út í að svo stöddu.“

Helstu áhugamál Óskars eru veiðar. „Ég stundaði rjúpnaveiði á árum áður en lax- og silungaveiðin hefur átt hug minn allan. Það jafnast ekkert á við að veiða með eiginkonunni og góðum félögum þar sem helstu árnar eru Vatnsdalsáin og Laxá í Þingeyjarsýslu þar sem ég hef veitt í yfir 20 ár. Þá hef ég með hléum stundað golf ásamt fjölskyldunni og vinum og er meðlimur í Golfklúbbi Garðabæjar.“

Fjölskylda

Eiginkona Óskars er Helga Jóna Ósmann Sigurðardóttir, f. 15.12. 1975, iðjuþjálfi, fjölskyldumeðferðarfræðingur, klínískur dáleiðari og jógakennaranemi. Þau eru búsett í Ásunum í Garðabæ. Þau hafa verið gift frá 28. maí 2005. Foreldrar Helgu Jónu eru hjónin Sigurður Ósmann Jónsson, f. 17.2. 1951, fyrrverandi skipulags- og byggingarfulltrúi Ölfuss, og Sigríður Guðnadóttir, f. 13.2. 1950, fyrrverandi grunnskólakennari í Þorlákshöfn, en þau hafa verið búsett í Þorlákshöfn frá 1995.

Sonur Óskars með fyrrverandi maka, Guðríði Sverrisdóttur, f. 18.8. 1966, hárgreiðslumeistara, er Óliver Óskarsson, f. 14.2. 1995, kírópraktor og sálfræðingur. Maki: Elisabeth María Hood, viðskiptafræðingur og flugfreyja. Tvíburasynir Óskars og Helgu Jónu eru Sigurður Nonni Óskarsson, f. 22.2. 2007, framhaldskólanemi, og Guðmundur Nói Óskarsson, f. 22.2. 2007, framhaldskólanemi. „Ég á engin barnabörn en það er beðið í ofvæni eftir því fyrsta, sem er væntanlegt í apríl.“

Systkini Óskars eru Guðrún Guðmundsdóttir, f. 5.7. 1953, tækniteiknari, búsett í Hafnarfirði; Guðmundur Rafn Guðmundsson, f. 11.4. 1960, byggingarverkfræðingur, búsettur í Torrevieja á Spáni; Ásgerður Guðmundsdóttir, f. 10.2. 1970, íþróttakennari, sjúkraþjálfari og jógakennaranemi, búsett í Garðabæ, og Svava Guðmundsdóttir, f. 15.12. 1971, iðjuþjálfi, búsett í Garðabæ.

Foreldrar Óskars: Hjónin Guðmundur Óskarsson, f. 8.3. 1932, d. 9.3. 2017, byggingarverkfræðingur, og Svava Gísladóttir, f. 21.2. 1936, starfaði síðast á geðdeild Landspítalans, búsett á Strikinu í Garðabæ.